10.2.05

Flóttamenn án kosningaréttar

Þegar ég skrapp til Kaupmannahafnar upp úr miðjum síðasta mánuði voru ekki nema örfáir dagar síðan að Anders Fogh Rasmussen hafði óvænt boðað til þingkosninga í Danmörku. Flokkarnir virtust hafa brugðist fljótt við og þá kannski helst stjórnarflokkarnir sem eðlilega voru viðbúnari þessari flýtingu en stjórnarandstaðan. Teinrétt andlit Foghs í nánast ógnvekjandi stærð fyllti út í auglýsingaskiltin á strætóstoppistöðvunum og þeir voru orðnir fáir ljósastaurarnir í borginni sem voru hólpnir fyrir pappaspjöldum með myndum af skælbrosandi fulltrúum flokka sem allir lofuðu gulli og grænum skógum.

Þegar ég kom svo aftur við í Köben um síðustu helgi voru þeir ekki hólpnir lengur, þessir fáu ljósastaurar sem áður höfðu sloppið við að bera uppi pólitíska slagorðahríð stjórnar og stjórnarandstöðu. Vel rakaður vanginn á Fogh blasti enn þá við manni á sama yfirþyrmandi hátt á öllum strætóstoppistöðvum - nema að nú höfðu einhverjir nátthrafnar tekið sig til hér og þar og krotað hitlersskegg á forsætisráðherrann. Kannski ekki pólitískt réttmætt að brosa í kampinn yfir slíku athæfi en maður gat samt ekki stillt sig um það.

Öll þessi auglýsingaspjöld, allir dreifimiðarnir sem prangað var upp á vegfarendur á Strikinu eða hitlerskrotið á Fogh breyttu hins vegar engu um niðurstöðuna á þriðjudaginn var, niðurstöðu sem allir vissu fyrir fram. Fogh vann og stjórn hans, bökkuð upp af öfgafullum þjóðernisöflum, heldur velli. Og Danir virðast bara flestir nokkuð sáttir þó að stjórn þeirra hafi markvisst bætt í kynþáttastefnu sína með hverju misserinu sem líður og að ekkert lát virðist þar ætla að vera á. Ekki er í það minnsta annað að sjá af úrslitum kosninganna og ekki verður mikið vart við að meðvitaðir Danir flykkist út á Ráðhústorg eða framan við þinghúsið til að mótmæla þessari ömurlegu þróun.

Skýringanna við skeytingarleysinu er sjálfsagt víða að leita. Þó var bent á eina þeirra í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter á þriðjudaginn var, sama dag og dönsku kosningarnar fóru fram. Þar var sú undarlega staðreynd dregin fram í dagsljósið að þeir Danir sem ef til vill verða hvað mest fyrir kynþáttastefnunni allri, þeir fá ekki einu sinni að kjósa. Dönsk kosningalög virðast nefnilega, ef marka má þessa grein, svipta Dani sem búa í útlöndum, og ekki eru námsmenn eða diplómatar, kosningarétti sínum.

Þetta bitnar meðal annars á þeim Dönum sem hafa undanfarin misseri verið í þeirri fáránlegu stöðu að vera hálfgerðir pólitískir flóttamenn frá heimalandi sínu vegna nýju útlendingalaganna sem kveða á um ákveðnar hömlur þess að mega kvænast manneskju af „framandi“ uppruna. Þessir Danir sem ekki hafa mátt koma með maka sína til heimalands síns hafa margir hverjir keyrt yfir Eyrarsundsbrúna og komið sér fyrir í syðstu byggðum Svíþjóðar. Þeir lenda því í þeirri fáránlegu aðstöðu að þurfa að fórna öðru hvoru, maka sínum eða kosningarétti sem þeir gætu þá hugsanlega nýtt til þess að reyna að koma breytingum til leiðar á útlendingalögunum (sem við Íslendingar, vel á minnst, „kópí-peistuðum“ fyrir ári síðan eins og alræmt varð).

Því er reyndar hvorki haldið fram hér né í greininni í Dagens Nyheter að þessi staðreynd ein og sér hafi skipt sköpum fyrir úrslit dönsku þingkosninganna á þriðjudaginn var. En hún er samt sem áður dæmi um máttleysi þeirra sem fyrir kynþáttastefnunni verða og einnig um þá miklu hraðsiglingu sem dönsk stjórnvöld eru á frá gildum lýðræðis, jafnréttis og mannréttinda í þessu landi sem eitt sinn var sagt vera svo „ligeglad“ á allan hátt.

Birtist á Sellunni 10. febrúar 2005.