31.3.05

Svefnbærinn með frábæra útsýninu

Sá frasi heyrist oft, bæði hjá stjórnmálamönnum og öðrum, að Reykjavík verði að berjast fyrir unga fólkinu sínu til þess að það flytjist ekki úr landi og leiti hófanna annars staðar þar sem betur er búið að því. Lengi vel var ég ekki viss um það hvort hér væri um innistæðulausar klisjur að ræða eða bitran sannleik. Nú hef ég reynt það á eigin skinni að hér er því miður um bitran sannleik að ræða. Mér þykir vænt um borgina mína, Reykjavík. En ég veit ekki hvort ég gríp of sterkt til orða ef að ég segi að mér hálfbjóði við því að búa þar við núverandi kringumstæður.

Ég flutti þaðan og til útlanda síðasta sumar og ég er ekki á leiðinni heim aftur í bráð. Ég veit svo sem ekki hvað framtíðin mun bera í skauti sér en ég verð að segja að það freistar mín ekki á nokkurn hátt að snúa aftur til borgar sem ber meiri umhyggju fyrir bílunum sínum en fólkinu sínu og heldur áfram að dreifa byggðinni upp eftir Esjunni í stað þess að þétta byggðina þar sem hún er fyrir.

Enn þá síður leitar hugur minn heim þegar mér finnst ég komast að þeirri staðreynd að flestir Reykvíkingar séu reyndar alls ekki svo ósáttir við ástandið. Ég er stundum alls ekki viss um að það sé endilega staðfastur vilji borgarbúa að sjá flugvöllinn fara, mörgum virðist einhvern veginn vera nokkuð sama. Meira að segja borgarstjórinn virðist hafa gengið á bak fyrri orða í flugvallarmálinu. Allt of oft finnst manni líka slegið á hugmyndir um þéttingu byggðar og bætta borgarmenningu sem einhvers konar kvabb í „101 bóhemum" eða „kaffihúsaspeki". Þannig er sérfrótt fólk og víðsýnt afgreitt og þessi er nú oft trú Íslendinga á gildi þess að víkka sjóndeildarhringinn og taka málefnalegum rökum.

Fólk virðist heldur ekki sjá neitt stórkostlega athugavert við það að Reykjavík sé borg þar sem það kostar mikið erfiði að fara erinda sinna án þess að hafa ávallt yfir einkabíl að ráða. Almenningssamgöngur eru í rúst – það er raunar varla hægt að tala um að þær séu til í Reykjavík. Þær lenda í vítahring; búa við illmögulegar aðstæður vegna gisinnar byggðar og eru þar af leiðandi illa nýttar og eru þar af leiðandi ónothæfar nema fyrir þá sem mega vera að því að vera vel á annan klukkutíma á milli hverfa í þessum hundrað þúsund manna bæ.

Við þetta bætist svo það sem Salvör Jónsdóttir sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar talar um í Lesbókarviðtali við Þröst Helgason í miðjum síðasta mánuði. Það er að þó að fólk tali fjálglega um nauðsyn þéttingar byggðar og bætta borgarmenningu þá strandar oft allt saman þegar kemur að okkur sjálfum. Þetta er fyrirbrigði sem í skipulagsfræðum kallast NIMBY-ismi (Not in My Back Yard) og snýst um vilja til þess að breyta – bara ekki í næsta nágrenni við mig!

Þá breytumst við í frekjur og sveitaþursa og förum að líta á það sem einhvers konar mannréttindabrot að hafa ekki fullkomið og óskert útsýni yfir allan Faxaflóafjallahringinn og svo Álftanesið og Keili hinum megin. Eins og að í borg eigi maður fullkominn rétt á því að þurfa ekki að horfast í augu við önnur hús út um gluggann og hvað þá að neyðast til þess að mæta öðru fólki. Sama gildir um alla þrjá bíla heimilis, þar af tvo jeppa, sem auðvitað verður að tryggja bílastæði í götunni og baklóðina sem sólin verður að skína á frá upprisu til sólarlags.

Kannski er ég í einhverju svartsýniskasti þessa stundina en einhvern veginn sýnist mér þetta einstrengingslega og heimtufreka hugarfar vera allt of ráðandi í Reykjavík til þess að nokkru verði þar þokað af viti næstu árin eða jafnvel áratugina. Reykjavík verður því áfram gisin og ljót eins og smábær í Alaska þar sem hver og einn á sér sinn sveitabæ í friði fyrir næsta manni, enginn þarf að lenda í þeim ósköpum að mæta nágranna sínum, allir fá að sjá Esjuna út um eldhúsgluggann og allir fá bíl og bílskúr utan um hann. Og allir eru glaðir og við getum haldið áfram upp eftir Esjunni með ný og ný lóðaútboð. Þangað til við erum komin útboði Esjutoppshverfisins með þessu líka frábæra útsýninu yfir Álftanesið og Keili. Því það er jú það sem skiptir máli í borg.

Er það ekki?

Birtist á Sellunni 31. mars 2005.