Hrópað á heimilistölvuna

„Við skulum nú bara bíða og sjá“
Gullaldarleikmaðurinn Hörður Felixson hefur í hópi KR-inga stundum verið nefndur sem erkidæmi um hinn síðarnefnda hóp, þeirra stressuðu í stúkunni. Ekki skal ég um það segja hversu sanngjörn slík skilgreinig á Herði kann að vera. Þó man ég eftir að hafa staðið í námunda við hann á leik okkar manna í Grindavík fyrir nokkrum árum. Staðan var þá afar vænleg fyrir KR, við vorum 3-4 mörkum yfir og skammt til leiksloka. Þá vatt sér einhver að Herði og sagði að nú hlyti hann að vera rólegur yfir stöðunni. Við skulum nú bara bíða og sjá, sagði Hörður og sýndi engin merki þess að blóðþrýstingur hans væri nokkuð á niðurleið í bráð. Já, allur er varinn góður!
Óli að sóla, vítaklúður og Keflavíkurbömmerar
Ég vil halda því fram að ég sé ef til vill ekki alveg á sama stress-stiginu og títtnefndur Hörður, ég var til dæmis orðinn afslappaður í stöðunni góðu í Grindavík þarna um árið. Þrátt fyrir það er ég dæmi um nógu slæmt tilfelli af stressaða KR-ingnum. Ég lít á það sem hálfgerða storkun við örlögin að spá KR sigri, sé alveg eins fram á tvísýna leiki í bikarnum þó að við drægumst gegn b-liði Gróttu (ef það væri þá til) og hræðist fall og katastrófur alveg þangað til að slíkt er tölfræðilega útilokað. Ég vona það besta en býst við hinu versta.
Mér finnst ég líka hafa næg tilefni til þess. Ég horfi undan í vítum af því að á tímabili heyrði það til undantekninga að við skoruðum úr þeim, ég gríp um höfuð mér þegar að Stjáni fær boltann og kemur honum ekki strax aftur í leik, enn ekki búinn að ná mér eftir trámað þegar að Óli var sólaður hér um árið, og ég vil að leikirnir í Keflavík séu blásnir af að minnsta kosti tuttugu mínútum fyrir leikslok af því að í minningunni finnst mér við alltaf missa sigurleiki þar niður í jafntefli eða tap í lokin.
Æpandi út í tómið
Eitt er þó að engjast um á vellinum í angist og stressi en hitt er öllu verra; að vera fjarri góðu gamni á leikdegi og komast ekki á völlinn. Á einhvern öfugsnúinn hátt finnst manni maður nefnilega geta ráðið einhverju um gang leiksins ofan úr stúku með bráðskynsamlegum tillögum, í formi örvæntingarfulls góls, um hvað leikmenn KR eiga að gera og hvað þeir eiga alls ekki að gera inni á vellinum. Allt það fer hins vegar fyrir lítið þegar að maður getur í mesta lagi hrópað á útvarpstækið með KR-útvarpið í botni, eins hvers staðar fjarri sjálfum atburðunum.
Angist og gleði
Ég man bæði eftir augnablikum mikillar angistar og gleði við slíkar kringumstæður. Ég man eftir að hafa hringt heim af bakpokaferðalagi frá Grikklandi þegar að ég var 18 ára, í og með til að láta vita af mér, en fyrst og fremst til að fá fréttir af því að Gummi Ben. átti stórleik á móti Breiðablik kvöldið áður. Ég man eftir að hafa yfirgnæft hljóðin í sláttuorfinu þegar að ég sló blettinn og hlustaði á þegar að Móði - af öllum mönnum - smellti honum af fáránlega löngu færi á móti KA fyrir norðan hér um árið. Ég man líka eftir að hafa gengið í hringi um gólf í Stokkhólmi, þannig að slitlag var að myndast í gólfmottuna, og rekið svo frá mér einhver spangól til marks um létti eftir að liðið bjargaði sér frá falli með því að vinna KA afar naumlega haustið 2004.
En ég man líka eftir áföllum. Komandi úr veiðiferð 2001 og uppgötva að við höfðum legið fyrir ÍBV á meðan og sokkið enn dýpra í falldýkið, tapi á móti Fram sem við máttum ekki við sumarið 2004 sem ég fylgdist með frá Stokkhólmi. Svipuð töp upplifði ég svo í sömu borg í fyrra og eftir eitt þeirra í viðbót spurði ég mig þeirrar spurningar enn einu sinni: „Af hverju er maður endalaust að kvelja sig yfir þessu?“
Ég hef svo sem ekkert svar við þeirri spurningu.
Bullandi magasýrur og hraður hjartsláttur
Síðustu tvö árin hef ég verið búsettur erlendis og því ekki getað skotist nema á nokkra leiki meðan að ég hef dvalist á Íslandi yfir hásumarið. Þar sem gengið undanfarin tvö ár hefur ekki beint verið hagstætt hinum stressaða KR-ingi þá hefur þetta ekki verið neitt sérstaklega auðveldur tími við netútvarpið. Sjálfsagt er sjónin ekki lítið spaugileg fyrir utanaðkomandi: Íslendingur úti í heimi sem situr stjarfur fyrir framan tölvu með heyrnartól á sér og andvarpar annað veifið, tekur fyrir andlit sér en stekkur síðan allt í einu upp úr stólnum og sendir frá sér ótamin fagnaðaróp eða öskrar af illsku yfir óförum.
Og nú er ballið að byrja aftur. Magasýrurnar eru farnar að bulla og hjartslátturinn er farinn að aukast. Svefninn verður gloppóttari og andvökurnar snúast um það hvernig þetta fari nú allt saman þetta árið. Á sunnudagskvöldið verður heimilistölvan síðan hertekin og tilfinningarússíbaninn fer á fullt og þeysist væntanlega milli vonar og ótta, eins og lög gera ráð fyrir.
Stressaði KR-ingurinn ætlar hins vegar að brjóta odd af oflæti sínu og reyna að tileinka sér kokhreysti hinna rólegu og sigurvissu og segja að nú tökum við FH-ingana loksins. Og sumarið verður gott. Sérstaklega ef að þið í stúkunni öskrið ykkur hás fyrir hönd okkar sem verðum annars staðar en á besta stað í veröldinni á sunnudaginn kemur.
Bestu kveðjur frá útlandinu.
Áfram KR!
Birtist á vefsíðunni KRReykjavik.is, stuðningsmannasíðu KR-inga, 12. maí 2006.