Þar sem glæpirnir borga sig
Einna syðst á Skánartá Svíþjóðar kúrir smábærinn Ystad með sína 17 þúsund íbúa. Sagt er að hvergi á Norðurlöndum og óvíða í Evrópu sé að finna eins heillega bæjarmynd frá horfnum tíma og í þessum skánska smábæ. Bæinn prýða á fjórða hundrað bindiverkshús, meðal annars það elsta sem enn stendur á Norðurlöndum öllum, byggt árið 1480. Ystad hefur í aldanna rás notið staðsetningar sinnar þegar kemur að samgöngum á sjó norðan úr Svíþjóð og suður í álfu. Höfnin er lífæð bæjarins, ferjur fara með reglulegu millibili frá höfninni í Ystad suður til Póllands og Borgundarhólms og smábátahöfnin er þéttskipuð litríkum fleyjum.
Í þessu snotra umhverfi minnti lítið á verstu hliðar mannlífsins þangað til fyrir um það bil hálfum öðrum áratug. Þá fóru nefnilega að gerast voveiflegir atburðir þar um slóðir; hrottaleg morð voru framin og glæpahyski af verstu sort fór að sveima um bæinn og næsta nágrenni. Á svona löguðu hefur gengið alla tíð síðan og nú er svo komið að það orð sem helst fer af Ystad, bæði í hugum Svía og fólks víða um heim, tengist fremur svívirðilegum afbrotum en friðsælum anda smábæjarins undurfagra.
Atburðirnir eiga það reyndar allir sameiginlegt að þeir eiga ekki upptök sín á þröngum götum Ystad heldur í glæpasögum Henning Mankells um Kurt Wallander lögreglufulltrúa sem starfar við að leysa flóknar morðgátur í skánska smábænum. Bækurnar um Kurt Wallander hafa allt frá upphafi notið mikilla vinsælda, bæði í Svíþjóð sem og víða um lönd. Starfsfólk ferðamannamiðstöðvar Ystad er þess vegna löngu hætt að kippa sér upp við það þó að aðkomufólk vilji miklu frekar vita hvar lögreglustöðin og ýmis skuggaleg stræti eru staðsett innan bæjarmarkanna í stað þess að vilja leita uppi gamlar kirkjur og fagrar byggingar.
Ferðamálayfirvöld bæjarins hafa reyndar lengi gert gott betur en að svara spurningum fróðleiksþyrstra unnenda glæpasagna. Þeir hafa komið vel til móts við þennan fjölmenna markhóp með því að gefa út greinargóðan bækling þar sem getið er um söguslóðir Wallander-bókanna innan bæjarmarka Ystad. Merktir eru inn á kort 32 staðir í bænum og nágrenni hans þar sem örlagaríkir atburðir hafa átt sér stað í sögum Mankells um lögreglufulltrúann slynga og lausnir hans á morðgátum í umdæmi sínu.
Vegna smæðar bæjarins eru staðirnir flestallir í auðveldu göngufæri hver frá öðrum og ekki ætti að taka meira en dagpart að heimsækja alla þá sem finnast innan bæjarmarkanna. Í slíkum túr er auðvitað ómissandi að koma við á Mariagatan, þar sem Wallander sjálfur er einn íbúa. Lögreglustöðin ætti einnig að vera fastur liður og svo allir staðirnir sem krökkt er af í miðbænum þar sem misyndismenn hafa haldið sig eða illa útleikin lík hafa legið í dimmu skoti milli húsa.
Ekki er nóg með að bæklingur hafi verið gefinn út til þess að auðvelda ferðamönnum að ramba á réttu söguslóðirnar. Tvisvar í viku yfir sumartímann er líka boðið upp á skipulagðar leiðsöguferðir um markverðustu staðina á nokkuð sérstökum fararskjóta - aftan á gömlum slökkviliðsbíl! Nánast óhætt er að fullyrða að þessi blanda, glæpasöguferðir á gömlum slökkviliðsbíl, hafi hvergi annars staðar verið reynd áður. Þetta gengur þó undurvel upp og ferðirnar eru vinsælar meðal þeirra sem bæinn heimsækja og þónokkuð er um að fólk komi jafnvel langt að í þeim tilgangi einum að leggja í slíka ferð.
Níu bækur hafa komið út um lögreglufulltrúann Kurt Wallander og sögusvið hans í Ystad. Þeirri tíundu, sem nefnist Innan frosten upp á sænsku, má hins vegar vel bæta við þó að kastljós síðustu bókarinnar hafi færst yfir á Lindu, dóttur Wallanders, sem þar er komin til starfa á lögreglustöð föður síns í gamla heimabænum Ystad. Frá útkomu Innan frosten 2002 hefur hins vegar ekkert frést af þeim Wallander-feðginum og allt lítur út fyrir að Mankell hafi hugsað til þeirrar gullnu reglu glæpasagnahöfunda að miða við tug bóka sem algjört hámark um sömu söguhetjuna.
En það er ekki þar með sagt að með því sé sagan um Kurt Wallander öll. Þrátt fyrir að tvísýnt sé um framhaldslíf Wallanders á síðum bóka Mankells þá hefur honum verið tryggt framhaldslíf á hvíta tjaldinu. Þegar hafa flestallar bækurnar um Wallander verið kvikmyndaðar og Ystad og næsta nágrenni hafa þar að sjálfsögðu verið nýtt vel sem tökustaðir. Þar hefur hins vegar ekki verið látið staðar numið því að fyrir tveimur árum var ákveðið að hleypa af stokkunum því sem sagt var vera stærsta verkefni á Norðurlöndum á sviði kvikmyndagerðar fram að því. Verkefnið snerist um þrettán glænýjar Wallander-seríur sem byggja vissulega á sögupersónunum úr bókunum en Henning Mankell kemur samt hvergi að. Verkefnið hefur þó að sjálfsögðu hlotið blessun höfundarins sem nú treystir handritshöfundum algjörlega fyrir framhaldslífi hugarfósturs síns og hefur meira að segja hvatt til þess að höfundar þessara nýju sagna um Wallander fari sínar eigin leiðir og festi sig ekki of mikið í fari bókanna.
Verkefninu umfangsmikla hefur að sjálfsögðu verið fundinn staður í Ystad. Skánski smábærinn þjónar þar ekki einungis hlutverki tökustaðar heldur er hann ein allsherjar miðstöð verkefnisins með kvikmyndaveri og öllu tilheyrandi. Það er því ekki að undra að gárungar séu farnir að nefna bæinn „Hollystad“ í léttum dúr vegna hlutverksins nýtilkomna. Fyrstu seríur þessa verkefnis eru þegar farnar að berast með jöfnu millibili inn í sænsk kvikmyndahús og er þeim þar vitanlega vel tekið.
Allra nýjustu fréttir herma síðan að samningar hafi náðst við breskar sjónvarpsstöðvar um að gera Wallander-seríur á ensku. Bretarnir leggja mikinn metnað í verkefnið og ætla þáttunum ekki minna hlutverk í bresku sjónvarpi en því sem frægar þáttaraðir um Morse, Taggart og fleiri slíka hafa gegnt í fortíðinni. Þrátt fyrir að efnið verði á ensku lítur allt út fyrir óbreytta skipan mála að öðru leyti. Það þýðir það meðal annars að Ystad verður áfram sama sögusviðið og áður og öll vinna við þáttaraðirnar mun fara fram í Ystad. Það þýðir því enn eitt uppgripið fyrir Ystad í tengslum við Kurt Wallander, sem sjálfsagt fer að fá styttu af sér á aðaltorg bæjarins fyrir einstaklega dygga þjónustu í þágu bæjarbúa.
Það lítur því ekkert út fyrir það að orðspor Ystad tengist öðru í bráð en baráttu réttvísinnar við glæpamenn og myrkraverk af svæsnustu sort. Ystad er þó hugsanlega einn af fáum stöðum veraldar sem hefur beinlínis fulla ástæðu til þess að fagna slíku orðspori af heilum hug og vonast helst eftir því að enn þá meira blóði verði úthellt á slóðum bæjarins.
Fyrir fjölmarga íslenska aðdáendur Kurt Wallanders er tilvalið að skella sér í dagsferð á glæpaslóðir til Ystad. Rútur ganga skammt frá aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn og eins fara lestir á milli frá Malmö á klukkutímafresti. Lestarferðin frá Malmö tekur klukkutíma tæpan en rútuferðin frá Kaupmannahöfn örlítið lengri tíma. Bæklinginn glæsilega með korti um söguslóðirnar og allar aðrar upplýsingar um Wallander-sögurnar má nálgast á ferðamannamiðstöð Ystad sem staðsett er rétt við brautarstöðina. Bæklingurinn er ókeypis og hann má raunar líka prenta út af síðu ferðamálayfirvalda í Ystad.
Slóðin er: http://ystad.se/Ystadweb.nsf/AllDocuments/BB304A3B6D259B9DC1256ED600260956
Birtist í Tímariti Morgunblaðsins 20. ágúst 2006.
Í þessu snotra umhverfi minnti lítið á verstu hliðar mannlífsins þangað til fyrir um það bil hálfum öðrum áratug. Þá fóru nefnilega að gerast voveiflegir atburðir þar um slóðir; hrottaleg morð voru framin og glæpahyski af verstu sort fór að sveima um bæinn og næsta nágrenni. Á svona löguðu hefur gengið alla tíð síðan og nú er svo komið að það orð sem helst fer af Ystad, bæði í hugum Svía og fólks víða um heim, tengist fremur svívirðilegum afbrotum en friðsælum anda smábæjarins undurfagra.
Atburðirnir eiga það reyndar allir sameiginlegt að þeir eiga ekki upptök sín á þröngum götum Ystad heldur í glæpasögum Henning Mankells um Kurt Wallander lögreglufulltrúa sem starfar við að leysa flóknar morðgátur í skánska smábænum. Bækurnar um Kurt Wallander hafa allt frá upphafi notið mikilla vinsælda, bæði í Svíþjóð sem og víða um lönd. Starfsfólk ferðamannamiðstöðvar Ystad er þess vegna löngu hætt að kippa sér upp við það þó að aðkomufólk vilji miklu frekar vita hvar lögreglustöðin og ýmis skuggaleg stræti eru staðsett innan bæjarmarkanna í stað þess að vilja leita uppi gamlar kirkjur og fagrar byggingar.
Ferðamálayfirvöld bæjarins hafa reyndar lengi gert gott betur en að svara spurningum fróðleiksþyrstra unnenda glæpasagna. Þeir hafa komið vel til móts við þennan fjölmenna markhóp með því að gefa út greinargóðan bækling þar sem getið er um söguslóðir Wallander-bókanna innan bæjarmarka Ystad. Merktir eru inn á kort 32 staðir í bænum og nágrenni hans þar sem örlagaríkir atburðir hafa átt sér stað í sögum Mankells um lögreglufulltrúann slynga og lausnir hans á morðgátum í umdæmi sínu.
Vegna smæðar bæjarins eru staðirnir flestallir í auðveldu göngufæri hver frá öðrum og ekki ætti að taka meira en dagpart að heimsækja alla þá sem finnast innan bæjarmarkanna. Í slíkum túr er auðvitað ómissandi að koma við á Mariagatan, þar sem Wallander sjálfur er einn íbúa. Lögreglustöðin ætti einnig að vera fastur liður og svo allir staðirnir sem krökkt er af í miðbænum þar sem misyndismenn hafa haldið sig eða illa útleikin lík hafa legið í dimmu skoti milli húsa.
Ekki er nóg með að bæklingur hafi verið gefinn út til þess að auðvelda ferðamönnum að ramba á réttu söguslóðirnar. Tvisvar í viku yfir sumartímann er líka boðið upp á skipulagðar leiðsöguferðir um markverðustu staðina á nokkuð sérstökum fararskjóta - aftan á gömlum slökkviliðsbíl! Nánast óhætt er að fullyrða að þessi blanda, glæpasöguferðir á gömlum slökkviliðsbíl, hafi hvergi annars staðar verið reynd áður. Þetta gengur þó undurvel upp og ferðirnar eru vinsælar meðal þeirra sem bæinn heimsækja og þónokkuð er um að fólk komi jafnvel langt að í þeim tilgangi einum að leggja í slíka ferð.
Níu bækur hafa komið út um lögreglufulltrúann Kurt Wallander og sögusvið hans í Ystad. Þeirri tíundu, sem nefnist Innan frosten upp á sænsku, má hins vegar vel bæta við þó að kastljós síðustu bókarinnar hafi færst yfir á Lindu, dóttur Wallanders, sem þar er komin til starfa á lögreglustöð föður síns í gamla heimabænum Ystad. Frá útkomu Innan frosten 2002 hefur hins vegar ekkert frést af þeim Wallander-feðginum og allt lítur út fyrir að Mankell hafi hugsað til þeirrar gullnu reglu glæpasagnahöfunda að miða við tug bóka sem algjört hámark um sömu söguhetjuna.
En það er ekki þar með sagt að með því sé sagan um Kurt Wallander öll. Þrátt fyrir að tvísýnt sé um framhaldslíf Wallanders á síðum bóka Mankells þá hefur honum verið tryggt framhaldslíf á hvíta tjaldinu. Þegar hafa flestallar bækurnar um Wallander verið kvikmyndaðar og Ystad og næsta nágrenni hafa þar að sjálfsögðu verið nýtt vel sem tökustaðir. Þar hefur hins vegar ekki verið látið staðar numið því að fyrir tveimur árum var ákveðið að hleypa af stokkunum því sem sagt var vera stærsta verkefni á Norðurlöndum á sviði kvikmyndagerðar fram að því. Verkefnið snerist um þrettán glænýjar Wallander-seríur sem byggja vissulega á sögupersónunum úr bókunum en Henning Mankell kemur samt hvergi að. Verkefnið hefur þó að sjálfsögðu hlotið blessun höfundarins sem nú treystir handritshöfundum algjörlega fyrir framhaldslífi hugarfósturs síns og hefur meira að segja hvatt til þess að höfundar þessara nýju sagna um Wallander fari sínar eigin leiðir og festi sig ekki of mikið í fari bókanna.
Verkefninu umfangsmikla hefur að sjálfsögðu verið fundinn staður í Ystad. Skánski smábærinn þjónar þar ekki einungis hlutverki tökustaðar heldur er hann ein allsherjar miðstöð verkefnisins með kvikmyndaveri og öllu tilheyrandi. Það er því ekki að undra að gárungar séu farnir að nefna bæinn „Hollystad“ í léttum dúr vegna hlutverksins nýtilkomna. Fyrstu seríur þessa verkefnis eru þegar farnar að berast með jöfnu millibili inn í sænsk kvikmyndahús og er þeim þar vitanlega vel tekið.
Allra nýjustu fréttir herma síðan að samningar hafi náðst við breskar sjónvarpsstöðvar um að gera Wallander-seríur á ensku. Bretarnir leggja mikinn metnað í verkefnið og ætla þáttunum ekki minna hlutverk í bresku sjónvarpi en því sem frægar þáttaraðir um Morse, Taggart og fleiri slíka hafa gegnt í fortíðinni. Þrátt fyrir að efnið verði á ensku lítur allt út fyrir óbreytta skipan mála að öðru leyti. Það þýðir það meðal annars að Ystad verður áfram sama sögusviðið og áður og öll vinna við þáttaraðirnar mun fara fram í Ystad. Það þýðir því enn eitt uppgripið fyrir Ystad í tengslum við Kurt Wallander, sem sjálfsagt fer að fá styttu af sér á aðaltorg bæjarins fyrir einstaklega dygga þjónustu í þágu bæjarbúa.
Það lítur því ekkert út fyrir það að orðspor Ystad tengist öðru í bráð en baráttu réttvísinnar við glæpamenn og myrkraverk af svæsnustu sort. Ystad er þó hugsanlega einn af fáum stöðum veraldar sem hefur beinlínis fulla ástæðu til þess að fagna slíku orðspori af heilum hug og vonast helst eftir því að enn þá meira blóði verði úthellt á slóðum bæjarins.
Fyrir fjölmarga íslenska aðdáendur Kurt Wallanders er tilvalið að skella sér í dagsferð á glæpaslóðir til Ystad. Rútur ganga skammt frá aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn og eins fara lestir á milli frá Malmö á klukkutímafresti. Lestarferðin frá Malmö tekur klukkutíma tæpan en rútuferðin frá Kaupmannahöfn örlítið lengri tíma. Bæklinginn glæsilega með korti um söguslóðirnar og allar aðrar upplýsingar um Wallander-sögurnar má nálgast á ferðamannamiðstöð Ystad sem staðsett er rétt við brautarstöðina. Bæklingurinn er ókeypis og hann má raunar líka prenta út af síðu ferðamálayfirvalda í Ystad.
Slóðin er: http://ystad.se/Ystadweb.nsf/AllDocuments/BB304A3B6D259B9DC1256ED600260956
Birtist í Tímariti Morgunblaðsins 20. ágúst 2006.