Nýir ,,Ragnarar í Smára"

List og menningu ýtt úr vör
Þetta hefur ekki síst verið áberandi í framlagi þeirra til menningar og lista. Framlög til þess málaflokks eru oftar en ekki skorin við nögl enda virðist skilningur á gildi menningar- og listastarfsemi á stundum vera takmarkaður, bæði hjá stjórnvöldum en einnig hjá þjóðinni sjálfri. En í slíku fásinni er einmitt mikilvægt að til sé burðugt fólk sem hefur þroska og víðsýni til þess að skynja hina miklu þýðingu þekkingar og frjórrar sköpunar fyrir allt samfélagið.
Stærstu listamenn síðustu aldar gátu seint fullþakkað stórmennum eins og Ragnari í Smára og mæðginunum í Unuhúsi fyrir þeirra ómetanlega stuðning. Án þeirra atbeina og fleiri slíkra er alls ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að okkar besta listafólk hefði getað skapað þau listaverk sem við teljum til burðarstoða íslenskrar menningar í dag.
Ómetanlegt framlag
Á sama hátt er framlag Björgólfsfeðga (annars hvors eða beggja eftir tilvikum) til lista- og menningarmála á síðustu misserum ómetanlegt til viðhalds íslensks menningar- og listalífs.
Fyrir þeirra tilstilli fagnar 121 ungur listamaður því nú um helgina að vera kominn með vinnuaðstöðu í stóru húsnæði í Brautarholti 1. Þeir björguðu Eddu útgáfu hf., langstærsta útgáfufyrirtæki landsins, frá þroti snemma árs 2002. Þeir studdu útrás íslenskrar leiklistar þegar þeir hjálpuðu til við Rómeó og Júlíu-ævintýri leikflokksins Vesturports í London á síðasta ári.
Einnig hafa þeir haft hönd í bagga með Frost Activity-sýningu Ólafs Elíassonar, langkostnaðarsömustu sýningu sem Listasafn Reykjavíkur hefur staðið fyrir. Þeir hafa verið íslenskri kvikmyndagerð góðir bandamenn og er þar skemmst að minnast orða Friðriks Þórs Friðrikssonar þar sem hann sagði að Landsbanki Íslands gerði það kleift að hægt væri að búa til kvikmyndir á Íslandi.
Fyrirmyndardæmi um athafnamenn
Ofangreind eru bara nokkur dæmi. Listinn er mikið lengri og nær auðvitað til mikið fleiri málaflokka en þeirra sem heyra beint undir lista- og menningarmál. Þeir feðgar eru því fyrimyndardæmi um athafnamenn sem nota hluta ágóðans til þess að láta gott af sér leiða með því að styrkja og efla samfélagið í kringum sig. Það er góð fjárfesting sem gefur virkilega góða ávöxtun, bæði strax og þegar til lengri tíma er litið. Það vissi Ragnar í Smára vel á sínum tíma og það vita Björgólfsfeðgar nú.
Birtist á Sellunni 6. mars 2004.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home