29.7.05

Allt betra en íhaldið?

Því er stundum haldið fram að hugmyndafræðilegur ágreiningur milli Reykjavíkurlistans og Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur sé sama sem enginn og að deilur þessara afla séu í raun aðeins hlutverkaleikur stjórnar annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar. Síðustu daga hefur innkoma Gísla Marteins Baldurssonar í umræðuna um borgarmál hins vegar orðið til þess að skerpa mjög á þessum hugmyndafræðilega mun fylkinganna tveggja.

Gísli Marteinn hefur í vikunni fengið tvö gullin tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum og sinna manna á framfæri; fyrst í Kastljósþætti í upphafi vikunnar og síðan í forsíðuviðtali Blaðsins við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í gær. Í báðum tilvikum kom skýrt í ljós munur á málefnalegri afstöðu og framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins og Reykjavíkurlistans.

Borgarbragur eða bílastæðaflæmi
Reykjavíkurlistinn vill búa til borgarbrag með því að leggja áherslu á þéttingu byggðar þar sem sterkur og þéttur borgarkjarni leikur lykilhlutverk. Sú þétting helst svo í hendur við eflingu almenningssamgangna og það markmið að gera þær að raunhæfum valkosti fyrir borgarbúa. Fyrirmyndin er evrópskar borgir með iðandi mannlífi og hagkvæmu og mannvænu borgarskipulagi.

Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar borg í anda bandarískra bílastæðaborga, flæmi á borð við Houston eða Los Angeles. Í hans framtíðarskipan er flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni, almenningssamgöngur eiga aðeins að vera fyrir lífeyrisþega og börn en annars á hver einstaklingur að aka um á sínum einkabíl og borgaryfirvöld eiga fremur að auka þá ofurþjónustu sem fyrir er við einkabílinn heldur en hitt. Það á sem sagt að vera alveg gulltryggt að allir geti örugglega bætt þriðja eða fjórða bílnum á bílskúrsplanið sitt og ekið á honum um alla borg án þess að lenda nokkurs staðar í umferðarteppu - ekki einu sinni á álagstímum. Það er algjört forgangsatriði í bílaborg Sjálfstæðisflokksins.

Stuðningsfólk bættrar borgarmenningar og þéttingar byggðar hefur vissulega oft gagnrýnt R-listann réttilega fyrir það að standa sig oft og tíðum fremur illa í því að framkvæma stefnu sína um breytt og betra borgarskipulag og stundum virðist farið í þveröfuga átt, samanber hina fjarstæðukenndu tilfærslu Hringbrautarinnar. Hins vegar hefur ýmsu verið þokað í rétta átt og stefnan er í það minnsta fyrir hendi.

Áframhald á ógöngum
Hjá Sjálfstæðisflokknum er hins vegar engin heildarstefna í þessa átt og málflutningur borgarfulltrúa hans gengur beinlínis í berhögg við hugmyndir um bættan borgarbrag og viðsnúning frá þeim ógöngum sem borgarskipulag Reykjavíkur hefur verið í um áratugaskeið. Í þeirra borgarstjórn munu almenningssamgöngur einungis snúast um þarfir 4% núverandi viðskiptavina þeirra - hvernig svo sem þær áherslur eiga að tryggja þeim áframhaldandi grundvöll og tekjur. Áfram verður peningunum svo fyrst og fremst sóað í fleiri mislæg gatnamót, sem bráðum verða þá upp á fimm hæðir ef fram heldur sem horfir og halda áfram að háma í sig dýrmætt byggingarland allt í kringum sig.

Stuðningshvatning úr óvæntri átt
Um nokkurt skeið hef ég borið sífellt minni hug til Reykjavíkurlistans sem eitt sinn var mér svo kær. Það samstarf virðist óðum vera að breytast í flokkseigendaklúbb og hræðslubandalag þar sem hlutföll flokkanna endurspegla þar að auki á engan hátt stuðning við þá flokka sem að R-listanum standa.

En Gísli Marteinn Baldursson má þó eiga það að hann á heiðurinn af því að vera fyrsti maðurinn í langan tíma sem fær mig til þess að íhuga stuðning við R-listasamkrullið allt saman í kosningum á næsta ári - þó ekki væri nema að forða Reykjavík frá áframhaldi á skipulagsslysi í stað viðsnúnings frá því. Kannski það sé bara ekki innantómur frasi eftir allt saman að allt sé betra en íhaldið?

Best væri nú samt að fá bara góðan þriðja valkost til þess að losna við þá bölvun að neyðast til þess að kjósa slappan lista bara til þess að forðast eitthveð enn þá verra.

Hvað með Höfuðborgarsamtökin? Kannski maður setji bara traust sitt á að þau reyni aftur - í þetta sinn ekki bara með frábæran málstað, heldur einnig frambærilega fulltrúa til að tala fyrir honum.

Birtist á Sellunni 29. júlí 2005.

15.7.05

Vonarneistar

Þess var minnst í vikunni að tíu ár eru liðin frá hrikalegustu fjöldamorðum í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar að sveitir Bosníu-Serba drápu þúsundir bosnískra múslima með aðstoð hollenskra friðargæsluliða í bosníska bænum Srebrenica. Fjöldamorðin voru viðurstyggilegasti atburður borgarastríðsins alls á Balkanskaganum og hvöttu alþjóðasamfélagið til mun meiri íhlutunar og harðari aðgerða gagnvart Bosníu-Serbum en beitt hafði verið fram að því.

Enn þá logar hatur
Ekki er að undra þó að enn þá logi hatur á milli þjóðarbrota í Bosníu enda ekki hlaupið að því að græða þau sár sem fjöldamorðin í Srebrenica og önnur illvirki stríðsins í Bosníu ollu. Enn þá gætir fjölmennt alþjóðlegt herlið friðarins í landinu og yfirstjórn Bosníu er að miklu leyti í umboði fjölþjóðlegra stofnana – einkum Sameinuðu þjóðanna.

Bjartsýni og svartsýni
Nú á vordögum vann ég að mastersritgerð um frammistöðu Sænsku þróunarsamvinnustofnunarinnar (Sida) í ákveðnum uppbyggingarverkefnum í Bosníu. Í samtölum mínum við málkunnugt fólk fór það mikið eftir því við hvern var rætt hvernig þeir hinir sömu skynjuðu ástandið á milli þjóðfylkinga í Bosníu. Sumir vildu halda því fram að allt myndi fara í bál og brand aftur um leið og friðargæsluliðar myndu hverfa úr landi en aðrir þóttust sjá merki friðar og sátta í samskiptum fólks á milli í landinu.

Friðsamleg samskipti og gagnkvæm virðing
Ein vísbending um það að ástæða væri til bjartsýni var króatísk viðhorfskönnun sem ekki enn hefur verið gerð opinber en ég fékk í hendur frá Sænsku þróunarsamvinnustofnuninni og verður notuð í mati á starfi stofnunarinnar í Bosníu sem kemur út nú síðar í sumar. Þar var meðal annars kannað viðhorf meginþjóðarbrotanna þriggja í landinu (Bosníu-Serba, Bosníu-Króata og bosnískra múslima) hvers til annars.

Niðurstöður könnunarinnar voru meðal annars þær að nánast allir svarendur (87-97% aðspurðra) sögðust annað hvort bera virðingu fyrir eða hafa ekkert á móti fólki af öðrum þjóðarbrotum í landinu. Langflestir þátttakenda sögðust einnig koma friðsamlega fram við fólk af öðrum þjóðarbrotum og þegar spurt var hvort fólk tryði því að þjóðarbrotunum í Bosníu myndi takast að búa saman í sátt og samlyndi þá var 83-90% úrtaksins á því að svo myndi vera.

Örlar þó enn á tortryggni
Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður örlar þó greinilega enn á tortryggni sumra. Enn þá er allt að fjórðungur og upp í helming aðspurðra – breytilegt eftir þjóðarbrotum – á því að þeir finni einungis til öryggistilfinningar ef þeir búa á svæðum þar sem þeirra þjóðarbrot er í ráðandi stöðu.

Stríðsæsingur elítunnar eða kraumandi hatur?
Allt í allt studdi könnunin frekar við bakið á því mati að borgarastyrjöldin hefði frekar byggt á stríðsæsingi leiðtoganna fremur en innibyrgðu hatri meðal alþýðu fólks. Vonandi gefur hún rétta mynd af stöðu mála nú áratug eftir að stríðinu í Bosníu lauk þó að þess beri vissulega að geta að þetta var aðeins ein könnun og að hinn virkilegi prófsteinn á það hversu vel fólki myndi ganga að eiga friðsamleg samskipti kæmi ekki fyrr en friðargæsluliðið hyrfi úr landi og landsmenn sjálfir þyrftu að slíðra sverðin án utanaðkomandi hjálpar.

Því miður virðist sú stund ekki enn þá vera upp runnin þrátt fyrir einstaka vonarneista sem vonandi fjölgar með árunum.

Birtist á Sellunni 15. júlí 2005.

10.7.05

Punktar um hryðjuverkin í Lundúnum

Hér er fjallað um óvönduð vinnubrögð á RÚV, mismikinn náungakærleik og réttlætingu ofbeldisverka í punktum um hryðjuverkin í Lundúnum í vikunni.

• Óvönduð vinnubrögð á RÚV
Hvurslagt fréttamennska er það hjá Ríkissjónvarpinu (lesist: hjá Ólafi Sigurðssyni) að þrástagast á því í skjátexta og frétt af sökudólgum árásanna að „Múslimar séu að verki“? Á þetta að stuðla að auknum skilningi menningarsvæða á milli eða að slá á þá fordóma að fólk ákveðinnar trúar eigi í eðli sínu til að grípa til jafn villimannslegra hluta og fjöldamorða á saklausum borgurum? Man einhver til þess að hafa lesið fyrirsögnina „Kristnir að verki“ þegar að fólk kristinnar trúar hefur framið viðurstyggilega glæpi? Ekki ég, að minnsta kosti.

• Um mismikinn náungakærleik
Er það óeðlilegt að athygli okkar beinist frekar að hryðjuverkum sem framin eru í Lundúnum en til að mynda í Írak? Svarið er sjálfsagt bæði; já og nei. Auðvitað er ákveðin hræsni og tvöfeldni í því fólgin að mörg okkar hrökkvi frekar við þegar að sprengjur springa í Lundúnum en í Bagdað. Það segir vitanlega ákveðna sögu um skeytingarleysi okkar gagnvart örlögum þeirra sem búa utan hins verndaða forréttindasamfélags hins Vestræna heims.

Hins vegar er þetta ekki alveg svona einfalt. Það þarf ekki endilega að vera óeðlilegt að okkur varði frekar það sem gerist í London en annars staðar. Ekki hefur okkur Íslendingum til að mynda þótt það óeðlilegt að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafi fyrst og fremst látið það sig varða að aðstoða okkur þegar yfir okkur hafa dunið náttúruhamfarir. Að sama skapi þarf það ekki endilega að vera merki um botnlausa hræsni að okkur bregði frekar við þegar að sprengingar verða í heimsborginni Lundúnum.

Fyrir utan það að borgin sé innan okkar seilingar landfræðilega þá dvelst ávallt fjöldi Íslendinga í borginni, margir Íslendingar þekkja þar að auki vel til borgarinnar og borgarbúa og samskipti Íslands og Bretlands eru þar að auki mikil og góð. Það er einfaldlega í mannlegu eðli að óttast fremur um þá sem manni eru nákomnir en aðra - sama hversu einhverjum kann að þykja það hljóma hráslagalega. Íslendingar höfðu því fulla ástæðu til þess að veita árásunum mikla athygli. Hitt er annað mál að við mættum svo sannarlega standa okkur betur í því að setja okkur inn í aðstæður stríðshrjáðra þjóða í fjarlægari löndum og álfum.

• Ofbeldi réttlætt
Hverju sætir þegar sum okkar hér á Vesturlöndum hafa gengið svo langt í sjálfsgagnrýni sinni að þau eru farin að kenna okkur sjálfum og leiðtogum okkar um hryðjuverkaárásir eins og þær sem dundu yfir Lundúnir í vikunni? Vissulega má segja að bræðralag hinna viljugu (eða vígglögðu, eins og Steingrímur J. Sigfússon hefur stundum kallað það) eigi sinn þátt í því að gefa öfgafullum öflum tilefni til þess að nota innrásina í Írak sem átyllu fyrir voðaverkum eins og þeim í Lundúnum í vikunni. Vissulega var búið að vara við því að aðferðir hins viljuga bræðralags í baráttunni gegn hryðjuverkum myndu leiða til þveröfugrar niðurstöðu.

En þrátt fyrir þetta allt saman er einum of langt gengið þegar að ákveðnir aðilar eru farnir að sýna því fullan skilning og leggja jafnvel sumir blessun sína yfir að það megi stunda miskunnarlaus fjöldamorð á saklausu fólki - bara ef manni er nógu mikið niðri fyrir. Þeir sem slíku halda fram eru ekkert betri en Bush og aðrir öfgafullir hægri-extremistar sem finnst að ofbeldisfull hefnd jafngildi réttlæti. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt og þeir sem því beita eru alltaf í órétti.

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að benda á ádrepu blaðamannsins Nicks Cohen Guardian í dag í dag þar sem hann gerir einmitt þetta að sínu umtalsefni. Vert er að benda á að Nick Cohen stendur til vinstri við Tony Blair og er, þrátt fyrir þessa grein, einhver harðasti og þekktasti gagnrýnandi forsætisráðherrans sem fyrirfinnst á Bretlandi. Hann verður því ekki sakaður um að tala þarna eftir einhverri flokkslínu eða af fylgispekt.

Birtist á Sellunni 10. júlí 2005.