Allt betra en íhaldið?

Gísli Marteinn hefur í vikunni fengið tvö gullin tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum og sinna manna á framfæri; fyrst í Kastljósþætti í upphafi vikunnar og síðan í forsíðuviðtali Blaðsins við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í gær. Í báðum tilvikum kom skýrt í ljós munur á málefnalegri afstöðu og framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins og Reykjavíkurlistans.
Borgarbragur eða bílastæðaflæmi
Reykjavíkurlistinn vill búa til borgarbrag með því að leggja áherslu á þéttingu byggðar þar sem sterkur og þéttur borgarkjarni leikur lykilhlutverk. Sú þétting helst svo í hendur við eflingu almenningssamgangna og það markmið að gera þær að raunhæfum valkosti fyrir borgarbúa. Fyrirmyndin er evrópskar borgir með iðandi mannlífi og hagkvæmu og mannvænu borgarskipulagi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar borg í anda bandarískra bílastæðaborga, flæmi á borð við Houston eða Los Angeles. Í hans framtíðarskipan er flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni, almenningssamgöngur eiga aðeins að vera fyrir lífeyrisþega og börn en annars á hver einstaklingur að aka um á sínum einkabíl og borgaryfirvöld eiga fremur að auka þá ofurþjónustu sem fyrir er við einkabílinn heldur en hitt. Það á sem sagt að vera alveg gulltryggt að allir geti örugglega bætt þriðja eða fjórða bílnum á bílskúrsplanið sitt og ekið á honum um alla borg án þess að lenda nokkurs staðar í umferðarteppu - ekki einu sinni á álagstímum. Það er algjört forgangsatriði í bílaborg Sjálfstæðisflokksins.
Stuðningsfólk bættrar borgarmenningar og þéttingar byggðar hefur vissulega oft gagnrýnt R-listann réttilega fyrir það að standa sig oft og tíðum fremur illa í því að framkvæma stefnu sína um breytt og betra borgarskipulag og stundum virðist farið í þveröfuga átt, samanber hina fjarstæðukenndu tilfærslu Hringbrautarinnar. Hins vegar hefur ýmsu verið þokað í rétta átt og stefnan er í það minnsta fyrir hendi.
Áframhald á ógöngum
Hjá Sjálfstæðisflokknum er hins vegar engin heildarstefna í þessa átt og málflutningur borgarfulltrúa hans gengur beinlínis í berhögg við hugmyndir um bættan borgarbrag og viðsnúning frá þeim ógöngum sem borgarskipulag Reykjavíkur hefur verið í um áratugaskeið. Í þeirra borgarstjórn munu almenningssamgöngur einungis snúast um þarfir 4% núverandi viðskiptavina þeirra - hvernig svo sem þær áherslur eiga að tryggja þeim áframhaldandi grundvöll og tekjur. Áfram verður peningunum svo fyrst og fremst sóað í fleiri mislæg gatnamót, sem bráðum verða þá upp á fimm hæðir ef fram heldur sem horfir og halda áfram að háma í sig dýrmætt byggingarland allt í kringum sig.
Stuðningshvatning úr óvæntri átt
Um nokkurt skeið hef ég borið sífellt minni hug til Reykjavíkurlistans sem eitt sinn var mér svo kær. Það samstarf virðist óðum vera að breytast í flokkseigendaklúbb og hræðslubandalag þar sem hlutföll flokkanna endurspegla þar að auki á engan hátt stuðning við þá flokka sem að R-listanum standa.
En Gísli Marteinn Baldursson má þó eiga það að hann á heiðurinn af því að vera fyrsti maðurinn í langan tíma sem fær mig til þess að íhuga stuðning við R-listasamkrullið allt saman í kosningum á næsta ári - þó ekki væri nema að forða Reykjavík frá áframhaldi á skipulagsslysi í stað viðsnúnings frá því. Kannski það sé bara ekki innantómur frasi eftir allt saman að allt sé betra en íhaldið?
Best væri nú samt að fá bara góðan þriðja valkost til þess að losna við þá bölvun að neyðast til þess að kjósa slappan lista bara til þess að forðast eitthveð enn þá verra.
Hvað með Höfuðborgarsamtökin? Kannski maður setji bara traust sitt á að þau reyni aftur - í þetta sinn ekki bara með frábæran málstað, heldur einnig frambærilega fulltrúa til að tala fyrir honum.
Birtist á Sellunni 29. júlí 2005.