Veruleikafirrt forréttindastóð

Þeir trúa sem sagt á það að til sé svo göfug og vel af Guði gerð fjölskylda í hverju landinu fyrir sig, að hvaða bjálfi þaðan sem er sé fullhæfur til þess að verða þjóðhöfðingi þeirra einn daginn. Ekki bara það, heldur öðlast hann háheilagleik og virðist yfir mestalla gagnrýni hafinn.
Kóngurinn ver harðstjórann
Í Svíþjóð höfðu menn þó vit á því fyrir þrjátíu árum síðan að svipta konung sinn mestöllum þeim litlu völdum sem hann þá stóð eftir með. Kannski sem betur fer, ef marka má gloríur Karls Gústafs Svíakonungs um daginn. Þá mótmælti þjóðhöfðingi Svía því að Soldáninn í einræðisríkinu Brúnei stýrði ríki sínu með harðri hendi. Karl Gústaf sagði Brúnei þvert á móti opnara þjóðfélag en nokkuð annað sem hann hefði kynnst.
Þetta fór auðvitað þveröfugt ofan í Svía og sænska stjórnmálamenn sem um árabil hafa gagnrýnt einvaldinn í Brúnei fyrir stjórnarfar hans, mannréttindabrot og algjöran skort á lýðræði. Þar voru kosningar síðast leyfðar 1962 og aðeins einn stjórnmálaflokkur má starfa.
Kominn í pössun
Í kjölfar þessa hefur ríkisstjórnin ákveðið að kóngurinn sé ekki einu sinni hæfur til þess litla sem honum þó var áður treyst fyrir, þ.e. að koma fram fyrir hönd þjóðar sinnar á alþjóðavettvangi. Frá og með þessari ferð verður fulltrúi úr ríkisstjórninni ávallt með konunginum í för þegar hann fer í opinberar heimsóknir og konungurinn skal bera allt sem hann segir undir fulltrúann.
Er því nú fokið í flest skjól fyrir Karl Gústaf og eðlilegt ætti að vera að menn spyrðu sig af hverju í ósköpunum er þá verið að eyða skattpeningum borgaranna í tildurrófur sem fæðast til æðstu virðingar í ríkinu.
Venju fremur vitagagnslaus
Eins og á Íslandi tiltekur fólk fyrst og fremst rökin um sameiningartákn þjóðarinnar þegar það á að færa rök fyrir tilvist konungdæmisins. Ingrid Hedström, dálkahöfundur sænska dagblaðsins Dagens Nyheter, gefur hins vegar lítið fyrir þau rök í grein um málið. Hún nefnir konungdæmi nokkurra landa þar sem fólkið hefur ástæðu til þess að líta upp til þjóðhöfðingja síns.
Hún nefnir það að Jóhann Karl, konungur Spánverja, hefði reynst traustur varðhundur lýðræðis frá því að einveldi Francos lauk, einkum þegar hann átti þátt í því að kæfa byltingartilraunir francoískra herforingja 1981. Í Belgíu og í Hollandi má konungsfjölskyldan e.t.v. heita sameiningartákn þeirra ólíku þjóðarbrota sem þau lönd byggja. Í Noregi reyndist konungsfjölskyldan þjóð sinni vel sem andspyrnuafl í Síðari heimsstyrjöldinni.
En Svíar hafa ekkert slíkt dæmi.
Efni í slúðurblöð og hugðarefni einmana sálna
Konungsfjölskyldan er því venju fremur óþörf í Svíþjóð. Hennar eina hlutverk virðist í fljótu bragði vera að halda slúðurblöðunum á floti og vera hugðarefni einmana sálna sem dreymir prinsa- og prinsessudrauma.
Eins og áður sagði hefur konungurinn ekki haft nein teljandi völd frá stjórnarskrárbreytingum 1974. Hann er því ekki „öryggisventill þjóðarinnar“, eins og stundum er sagt að forseti Íslands og fleiri slíkir þjóðhöfðingjar séu. Og sannarlega er hann ekki varðhundur lýðræðisins í heimalandi sínu, raunar þvert á móti ef marka má síðustu vitleysuna sem hann lét út úr sér.
Það ætti því að vera löngu kominn tími til að Svíar verðu fé sínu í eitthvað viturlegra og nytsamlegra en þetta veruleikafirrta forréttindastóð. Á því eru hins vegar afar litlar líkur enda sér meirihluti þjóðarinnar svart ef slíkt er svo lítið sem fært í tal. Hugmyndin um upplýsta leiðtogann og guðlega forsjá hans mun því áfram lifa góðu lífi í fyrirmyndarlýðræðisríkjunum skandinavísku. Því miður fyrir þau.
Birtist á Sellunni 18. febrúar 2004.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home