23.8.02

Upptaka dauðarefsinga


Sorg og reiði hefur einkennt breskt þjóðlíf síðan að tveggja vikna leit að vinkonunum Jessicu Chapman og Holly Wells endaði í hryllilegri aðkomu nálægt heimabæ þeirra á laugardaginn var. Bretar eru samhuga í hryggð sinni. Hins vegar er það auðvitað misjafnt í hvaða mynd sorgin birtist. Hjá sumum hefur hún birst í hatri og hefndarþorsta sem hefur leitt til þess að mun fleiri geta nú réttlætt fyrir sjálfum sér að dauðarefsingar gætu á ný orðið hentug neyðarúrræði gagnvart glæpamönnum sem fremja sérlega viðurstyggilega og kaldrifjaða glæpi.

Þessi bræði er að flestu leyti skiljanleg enda munu þeir sjálfsagt vera fáir sem finna mikið til með þeim sem fremja glæpi líka þeim sem um er rætt. Það verður hins vegar að hafa það í huga að þarna er um að ræða tilfinningar fólks í uppnámi sem ekki er í ástandi til þess að leggja yfirvegað mat á hlutina frá öllum hliðum.

Yfirvegun og skynsemi
Sem betur fer hefur flestum ríkjum Evrópu að mestu lánast að láta yfirvegun og skynsemi ráða ríkjum í réttarkerfi sínu í stað hefndarþorsta og múgæsingar. Þar hefur afnám dauðarefsingar þótt bera upplýsingu og framþróun merki. Rík áhersla Evrópuríkja á mannréttindi hefur einnig átt stóran þátt í þessari almennu sannfæringu þjóða álfunnar. Því til stuðnings má benda á að Tyrkir neyddust á dögunum til að afnema dauðarefsingu úr sínu réttarkerfi til að komast frekar í náðina hjá samningamönnum ESB. Það reyndist þeim nauðsynlegt enda er bann við dauðarefsingu í aðildarríkjum ESB ófrávíkjanleg grundvallarregla. Vegna þessarar reglu þarf heldur enginn að óttast að skiljanleg reiði margra Breta leiði til flótfærinnar reglubreytingar sem einungis myndi leiða af sér þjóðfélag þar sem tortryggni og hefndarfýsn sæktu á á kostnað skynsemi og skilnings.

Ótti leiðir til reiði...
Evrópubúar ættu að minnsta kosti að hafa dæmin ljóslifandi fyrir sér í nýja heiminum hinum megin við hafið. Þarlendur þjóðfélagsandi verður varla talinn öfundsverður en hann einkennist einmitt af hefndarhug og hörku. Lögmál Gamla testamentisins um auga fyrir auga eru í fullu gildi og hefur vaxið ásmegin frekar en hitt. Þar er alið á neikvæðum tilfinningum í réttarkerfinu, s.s. heift, reiði, hatri og hefnd. Bandaríkjamenn halda að með slíkt að leiðarljósi fari menn nær „réttlátri niðurstöðu“ og að öllum líði betur á eftir.

Því miður fyrir þá er hins vegar líklegt að lífsspeki Yoda, hins aldna Star Wars-spekings, hafi farið nær hinu sanna og rétta: nefnilega að ótti leiði til reiði, reiði leiði til haturs og að hatur leiði aðeins til hins illa. Eða var það ekki einhvern veginn svoleiðis?

Birtist á Pólitík.is 23. ágúst 2002.

9.8.02

Stærri og smærri ríki innan ESB


Andstæðingum aðildar Íslands að ESB hefur verið gjarnt að hamra á meintum hagsmunaárekstrum stærri ríkja innan sambandsins og minni ríkja, þar sem hinir fyrrnefndu eiga að ráðskast með þá síðarnefndu í flest öllum tilvikum. Þessi tálbeita reynist við frekari skoðun hafa jafnlítið á bak við sig og flestar þeirra staðlausu upphrópana sem beitt er gegn hugmyndinni um hugsanlegar aðildarviðræður Íslendinga við Evrópusambandið. Í sömu andrá er ætíð rætt um að áhrif smærri ríkja innan ESB fari minnkandi. Sú staðhæfing stenst einnig tæplega nánari skoðun.

Áhrif smærri ríkja frekar að aukast
Þetta er rifjað upp vegna heimsóknar Jari Vilén til Íslands fyrr í vikunni, en hann er utanríkisviðskiptaráðherra Finnlands og fer einnig með Evrópumál í finnsku ríkisstjórninni. Hann kvartar ekki undan áhrifaleysi smærri ríkja innan ESB. Þvert á móti heldur hann því fram að áhrif smærri ríkjanna innan ESB (Finnland er í hópi þeirra) séu sífellt að aukast. Engin ástæða er til þess að rengja þessa fullyrðingu hans enda hlýtur það meðal annars að vera hlutverk ráðherrans að gæta þess að ekki sé gengið á rétt þjóðar sinnar til aðkomu að ákvarðanatökum innan ESB.

Þar að auki má færa ýmis rök fyrir auknum áhrifum smærri ríkja innan stækkaðs ESB framtíðarinnar. Sé gengið út frá því að Nice-sáttmálinn verði samþykktur mun hlutur stærri ríkja í stækkuðu ESB t.a.m. minnka innan stofnana sambandsins frá því sem nú er. Atkvæðavægi stærri ríkjanna í Ráðherraráðinu fer þannig væntanlega úr rúmum 55% í rúm 49% eftir stækkun. Svipaða sögu má segja um Evrópuþingið, þar sem pólitískar flokkslínur ráða reyndar meiru en þjóðerni um hvernig þingmenn skipa sér í hópa. Framtíðarskipan Framkvæmdastjórnarinnar er óskrifaðra blað. Þar er þó engin ástæða til að halda að niðurstaðan verði smærri ríkjum frekar í óhag enda er lokasamkomulagið háð samþykki allra aðildarríkjanna, stórra sem smárra.

Átök sem ekki eiga sér stað
Að vísu er í raun engin ástæða til að vera að karpa um samanburð á áhrifum smærri og stærri ríkja innan ESB. Ástæðan er sú að það er ekki um neina hagsmunabaráttu milli þessara afla að ræða, og hefur aldrei verið þegar til sjálfra kastanna hefur komið. Hagsmunir ríkja innan ESB fara að sjálfsögðu í aðalatriðum eftir einstökum málefnum en ekki eftir íbúatölu. Þar má benda á að aldrei nokkurn tíma í allri sögu ESB hafa stærri ríkin og smærri aðildarríkin myndað „blokk“, hvor fylkingin gegn hinni. Efist menn má benda á blákaldar staðreyndir þessu til staðfestingar, sem m.a. birtust í fræðilegri úttekt á smærri ríkjum innan ESB fyrir fáeinum misserum (sjá tilvitnun neðanmáls).

Átök smærri og stærri ríkja eru því stórlega ofmetin klofningslína í samskiptum ríkja, innan ESB, sem og annars staðar. Hræðsla við einhverja fyrirframtapaða málefnabaráttu við stórveldi Evrópu eru því ómerk rök og hræðsluáróður sem ekki ættu að fæla Íslendinga frá því að velta aðild að ESB alvarlega fyrir sér.

Vitnað er til eftirfarandi úttektar í greininni:Manners, Ian. 2000. „Small States and the Internal Balance and the European Union: Institutional Issues.” Enlarging the European Union. The Way Forward, bls. 123-135. Ritstj. Jackie Gower og John Redmond. Ashgate, Aldershot. (Ritið má nálgast á Þjóðarbókhlöðunni og á Borgarbókasafninu.)


Birtist á Pólitík.is 9. ágúst 2002.