22.11.02

Týran í svartnættinu?


Það hefur satt best að segja verið sjaldgæft að góðar fréttir komi frá Ísrael og Palestínu undanfarin misseri. Yfirleitt berast aðeins þaðan tíðindi af vitfirrtum voðaverkum skæruliða og einstaklega ógeðfelldum og klunnalegum viðbrögðum fasistans Ariels Sharons við ástandinu sem hann upphóf sjálfur. Fari einhvern tíma fram vafasamt val á lélegasta stjórnmálamanni síðari tíma ætti hann að fara mjög ofarlega á blað enda hefur hann vísvitandi leitt glundroða og hörmungar yfir tvær þjóðir; Palestínumenn og ekki síður sína eigin þjóð.

Góðu fréttirnar
Hinar sjaldséðu góðu fréttir eru hins vegar þær að Verkamannaflokkurinn þarlenski hefur kosið mann til forystu sem ber með sér jákvæða strauma. Sá heitir Amram Mitzna og hefur fram að þessu verið borgarstjóri í Haifa, þar sem nokkur fjöldi Palestínumanna býr. Tillögur hans beinast í friðarátt og stangast í flestu á við áherslur fráfarandi formanns en sá var fremur hallur undir leiðir Sharons og kóna hans.

Afturhvarf til friðarferlis Baraks
Mitzna boðar afturhvarf til friðarferlisins sem skilaði Oslóar-samkomulaginu en beið síðan endanlegt skipbrot eftir að samningar Baraks og Arafats sigldu í strand. Í kjölfarið kom svo vargöld Sharons sem er á góðri leið með að stefna öllu trausti og friðsamlegri umleitan í endanlega glötun.

Mitzna vill m.a. hefja viðræður við Arafat, hverfa með herlið frá Gaza-svæðinu og láta fjarlægja hluta af ólöglegum landnemabyggðum Ísraela. Hann vill byggja á friðartilboði Baraks sem Arafat hafnaði árið 2000. Þar er meðal annars gert ráð fyrir palestínskum landssvæðum á Gaza-svæðinu, Vesturbakkanum og í ákveðnum hverfum Jerúsalem. Sharon hefur aldrei tekið nein slík palestínsk yfirráð í mál.

Friðarferli Baraks var reyndar langt í frá að vera fullnægjandi fyrir Palestínumenn. Þar var hreint ekki um jafn mikla fórnfýsi og góðmennsku að ræða eins og stundum hefur verið látið í veðri vaka. Hins vegar hljóta Palestínumenn að minnsta kosti að binda vonir sínar við mann eins og Mitzna sem þó er tilbúinn að virða þá viðlits og ef til vill koma fram við þá eins og manneskjur.

Slæmu fréttirnar
Aftur á móti eru slæmu fréttirnar þær að fátt bendir til þess í augnablikinu að Verkamannaflokkurinn undir forystu Mitzna fái brautargengi ísraelsku þjóðarinnar. Hatrið og tortryggnin sem hefur gegnumsýrt allt þjóðfélagið á tímum Sharons virðist hafa blindað kjósendur fyrir yfirvegaðri og skynsamlegri lausnum til lengri tíma. Mitzna hefur reyndar þegar gefið það til kynna að hann muni ekki gefa sín ofantöldu stefnumál eftir. Því er nánast útséð um það, eins og staðan er í dag, að Sharon geti myndað álíka breiðfylkingu, nánast þjóðstjórn, um voðaverk sín á næsta tímabili. Hann gæti því átt erfitt verkefni fyrir höndum við hugsanlega stjórnarmyndun með hægri flokkunum í kjölfar kosninganna á næsta ári.

Stjórnarmyndun hægri flokkanna á næsta ári væri líklegt til að leiða til enn meiri hörmungarstjórnar í Ísrael. Því miður er það ekki ólíkleg niðurstaða. Hins vegar er vonin til staðar með tilkomu Mitzna. Hann gæti verið ljóstýran í svartnættinu.

Birtist á Pólitík.is 22. nóvember 2002.

12.11.02

Hetjan Hrönn

Á undanförnum árum hafa sumir viljað halda því fram að hefðbundin kvennabarátta sé orðin úreld þar sem að fullt jafnrétti kynjanna sé í raun komið á. Það þarf þó ekki að týna til mörg dæmi til að sýna fram á að víða er enn pottur brotinn og jafnvel hefur staðan versnað á stöku stað. Þar má nefna klámvæðinguna þar sem óvönduðu fólki hefur tekist að koma þeirri hugmynd á framfæri að klám sé yfirleitt aðeins saklaust og skemmtilegt gaman sem haldist í hendur við aukna víðsýni í kynlífsmálum. Þeir sem voga sér að finna að þessari hræðilegu ranghugmynd fá svo á sig þann stimpil að þeir sýni tepruskap og kveini að óþörfu.

Fegurðardýrkunin
Önnur birtingarmynd, en ekki óskyld, er sú fegurðardýrkun sem síst hefur dregið úr með tímanum. Þar er alið á þeirri hugmyndafræði að mestu skipti að líta óaðfinnanlega út til að komast áfram í lífinu. Þessi hugmyndafræði beinist fyrst og fremst að ungum stúlkum. Á þeim dynja fyrirmyndir sem eru ,fótósjoppaðar‘ og stílíseraðar glansmyndir af fyrirsætum og stjörnum úr skemmtanabransanum. Stúlkurnar fá þannig að vita það beint og óbeint að besta og fljótvirkasta leiðin til frama sé að vera sætur. Fegurðarsamkeppnir hafa lagt þung lóð á vogarskálarnar í því að viðhalda þessari hugmynd. Þangað hafa flykkst stelpur sem einmitt sjá von sína til skjóts frama liggja í því að standa á sundbolum og háhæluðum skóm fyrir framan einhverja dómnefnd sem metur hvort þær samræmist fyrirframgefnum fegurðarstöðlum og hvort þær séu nógu undirgefnar til að láta slíkt yfir sig ganga.

„Nútímalega fegurðarsamkeppnin“
Fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland.is sagðist ætla að gjörbreyta þessu öllu. Nú yrðu stúlkurnar ekki aðeins valdar eftir útliti heldur einnig eftir metnaði og sjálfstæði. Hins vegar breyttist eðli keppninnar auðvitað ekkert við þetta því að áfram var verið að „keppa í fegurð“. Hugmyndafræðin um það að „aðalatriðið væri að vera sætur“ var jafngild og áður. Síðan hefur margkomið í ljós að munurinn á Ungfrú Ísland.is og hinum gamalgrónu fegurðarsamkeppnum er sami og enginn. Undir þetta tekur meira að segja einn af þremur skipuleggjendum fyrstu keppninnar sem hætti einmitt þegar honum varð þetta ljóst í kjölfar hennar.

Nútíminn kvikmyndar fortíðina
Hafi einhver enn þá efast þá verður afhjúpunin alger í heimildarmynd Hrannar Sveinsdóttur, Í skóm drekans, sem nú hefur loks fengist til sýningar. Aðalpersónan Hrönn er nútímakona; sjálfstæð og atorkusöm. Nútímaleg gildi hennar rekast hins vegar á vegg þegar í fegurðarsamkeppnina kemur. Þar mætir hún því viðhorfi að það sé ekki innihaldið heldur útlitið sem skipti máli; stelpur eigi ætíð að vera vel til hafðar, penar og passívar í útliti sem og hegðun. Þær mega tala um að þær vilji stuðla að heimsfriði en þær eiga ekki að vera að blanda sér í deilurnar um kvótakerfið eða hálendismálin. - Þær eiga, með öðrum orðum, að halda kjafti og vera sætar.

Þessu býður Hrönn að sjálfsögðu byrginn á sinn hugrakka en jafnframt sérstæða hátt; hún tekur þátt í leiknum til að sýna áhorfandanum fram á hvernig niðurrif þessa fornaldarhugsanaháttar fegurðarímyndarinnar birtist. Hún sýnir fram á hversu hallærislegt og beinlínis óaðlaðandi það er að leggja meiri áherslu á útlitið en karakterinn. Hrönn er nefnilega töffarinn innan um allar stöðluðu týpurnar sem helst eiga að líta upp til Claudiu Schiffer og finnast ekkert athugavert við það að einhverjir Þorgrímar Þráinssynir góni á þær hálfberar til að meta hvort þær séu nógu slank og fínar á skrokkinn.

Útkoman er skemmtileg og hvöss heimildarmynd sem hittir beint í mark. Hún á í raun gríðarlega mikið erindi við alla, en einkum ungt og ómótað fólk, og þá sérstaklega stúlkur, sem fengju þar með að berja augum hina heilbrigðu, sterku og eðlilegu fyrirmynd; manneskju með sjálfsvirðingu sem lifir eftir þeim sjálfsögðu sannindum að mestu máli skipti að vera eitthvað - ekki líta út eins og eitthvað.

Húrra fyrir þér Hrönn, þú ert hetja!

Birtist á Pólitík.is 12. nóvember 2002.