20.6.03

Íslenski laxinn í stórhættu

Lítil klausa á forsíðu Morgunblaðsins um daginn varð til þess að rifja upp mál sem hefur eðlilega oft komist í hámæli hér á landi á undanförnum árum. Þar var vitnað í grein breska fræðiritsins New Scientist þar sem rætt var um laxeldi í sjókvíum og þau umhverfisslys sem slíkur búskapur hefur valdið víða um heim. Litla klausan leiddi enn rök að hættu þessarar iðju á vistkerfið, einkum á ómetanlega villta laxastofna. Sagt var frá rannsókn vísindamanna við Oxford-háskóla sem leiddi það í ljós að eldislax er mun meiri ógnun við villta laxastofna en áður hefur verið talið. Nóg óttuðust menn þó fyrir.

Niðurstöður þessara rannsókna varða okkur Íslendinga því miður með beinum hætti. Þannig er nefnilega að austur á landi eru menn byrjaðir að stunda þennan áhættusama búskap. Stjórnvöld hafa veitt tilskilin leyfi með ótrúlega fáum og lítilvægum skilyrðum og hafa litlu skeytt um viðvaranir og bitra reynslu alls staðar frá um stórslys á vistkerfi íslenskra vatna og áa.

Eldislaxinn eins og Keikó í íslensku vistkerfi
Hin bráða hætta felst í mörgu. Hún felst t.a.m. í blöndun eldislax og villts lax. Í löndunum víða í kringum okkur hefur eldislax sloppið úr kvíunum í stórum stíl og valdið óbætanlegu tjóni á villta stofna. Ástæðan er einkum sú að hængar úr eldiskvíum eru hæfari til frjóvgunar á hrognum en villtir hængar. Afkvæmin verða því úrkynjuð sem leiðir til þess að eiginleikar hins villta stofns glatast. Afleiðingar þessarar genablöndunar geta m.a. orðið þær að laxinn hætti að rata upp íslenskar ár enda kann sloppinn eldislax svona jafnvel á íslenskt vatnavistkerfi og Keikó!

Sjúkdómahætta
Önnur hætta felst í því að eldislaxarnir sem hafðir eru í sjókvíum í íslenskum fjörðum eru ekki einu sinni af íslensku kyni heldur norsku! Á Íslandi eru reglurnar þannig að ekki má flytja inn einn einasta smáhvolp án þess að hann fari í gegnum heljarinnar sóttkví vikum saman og alls konar athuganir. Hins vegar virðast íslensk stjórnvöld litlar áhyggjur hafa af norska laxakyninu og þeim sjúkdómum sem það kann að bera með sér ef og þegar að fiskarnir sleppa. Slíkir sjúkdómar gætu þó auðveldlega leitt til algers hruns á villta íslenska laxastofninum.

Íslenskt eftirlit einna slakast
Haldi menn að íslensku sjókvíarnar séu öruggar er það öðru nær. Í nýlegri skýrslu umhverfissamtakanna Worldwide fund for nature er Ísland lægst á blaði yfir aðgerðir til að sporna við áreiti frá fiskeldi. Stjórnvöld létu hvorki fara fram umhverfismat í Mjóafirði og Berufirði né þolpróf á þeim útbúnaði sem til staðar er. Í öðrum löndum gilda strangar reglur um þessa hluti en jafnvel þar hafa stórslys orðið.

Norðmenn halda t.a.m. mun fastar utan um þessa hluti en við en búa samt við þann veruleika í dag að bróðurpartur þess lax sem kemur á land úr þarlendum ám er upphaflega ættaður úr fiskeldiskvíum. Þar hafa tugþúsundir eldislaxa sloppið í einu úr kvíum og það ekki bara einu sinni eða tvisvar.

Ekki þarf nema eitt svoleiðis slys til að hinn víðfrægi villti laxastofn á Íslandi heyri jafnvel sögunni til. Varla þarf að tjá það með orðum þvílíkt áfall það yrði fyrir íslenskt lífríki. Það er hins vegar áhætta sem íslensk stjórnvöld eru meira en tilbúin til að taka.

(Myndin er birt með góðfúslegu leyfi Veiðifélagsins Kolbeins)

Birtist á Sellunni 20. júní 2003.

11.6.03

Ársáskrift að síðasta blaðinu

Ekki verður annað sagt en að hún sé einstaklega óheppileg heilsíðuauglýsingin sem blasir við lesendum TMM (sem nú heitir víst aftur Tímarit Máls og menningar) á fyrstu opnu í nýútkomnu tölublaði þess. Þar er fýsilegt tilboð til lesenda TMM um ársáskrift að blaðinu. Meinið er bara að blaðið er að hætta, líklega kemur ekki út nema eitt tölublað í viðbót. Ætli geti verið að samskiptaleysið innan Edduveldisins sé svona mikið, að ritstjórinn hafi ekki haft hugmynd um endanleg örlög ritsins áður en næstsíðasta hefti þess kemur út? Alla vega er nokkuð ljóst að áskrift að TMM verður ekki fljót að borga sig úr þessu, þó að því sé hátíðlega lofað í auglýsingunni.

Rammpólitísk menning
Það eru reyndar sorgleg tíðindi að þetta rótgróna tímarit sé nú að leggja upp laupana. Allt frá árinu 1940 hefur það gegnt veigamiklu hlutverki í bókmennta- og menningarumræðu þjóðarinnar. Í upphafi var inntak þess raunar ekki síður rammpólitískt en menningarlegt, kannski má tala rammpólitíska menningu. Vinstri sinnaðir menningarpostular komu þar sínu efni að, birtu eigin skáldskap og þýddu annars staðar frá, skrifuðu mælskar hugvekjur um alræði öreiganna og skömmuðust út í auðvaldið. Halldór Laxness var meðal þeirra sem mikið lét til sín taka enda ófeiminn við að blanda sér af fullum krafti í þjóðfélagsumræðuna og siða menn til, jafnt háa sem lága.

Kalda stríðs-ofsann lægir
Smám saman lægði kalda stríðs-ofsann og síðustu áratugi tuttugustu aldar varð æ erfiðara að greina pólitíska strauma í ritstjórnarstefnu tímaritsins. Blaðið varð helst þekkt sem mikilvægur vettvangur skáldskapar og vandaðra skrifa um listir og menningu. Mörgum brá því í brún þegar það var ákveðið fyrir tveimur árum síðan að umbylta formi og inntaki blaðsins. Breytingin var raunar svo mikil að margir litu svo á að dagar Tímarits Máls og menningar væru í raun taldir.

Skammlíft nýtt TMM
Upp merki þess tók þynnra tímarit í stærra broti. Gömlu TMM-skammstöfuninni var haldið en nú stóð hún fyrir Tímarit um menningu og mannlíf. Eins og nafnið bendir til átti nýja blaðið að sigla einhvers staðar mitt á milli gamla TMM og tímarita í anda Mannlífs og Nýs lífs. Tilraunin heppnaðist ekki nógu vel, blaðið varð lengstum hvorki fugl né fiskur og virtist hvorki höfða nógu vel til almennings né menningarvitanna sem sáu á eftir gamla TMM.

Það verður nú samt að segjast að oft hefur nýja TMM skartað mjög áhugaverðu og innihaldsríku efni sem alveg eins hefði átt heima í forvera sínum. Hins vegar vantaði alltaf eitthvað upp á. Verðið hefur svo ábyggilega fælt ófáa áhugasama frá, 1290 krónur er bara of hátt verð fyrir ekki meira rit sama hvað hver talar um kostnað.

Og nú eru dagar Tímarits Máls og menningar sem sagt endanlega taldir. Það er skarð fyrir skildi. Nú er bara að vona að einhverjir framtakssamir taki sig til og tefli fram á auðu reitina sem TMM skilur eftir sig.

Birtist á Sellunni 11. júní 2003