25.2.02

Lífsnauðsynlegir merkimiðar

Um þessar mundir verja alþingismenn dýrmætum tíma sínum í frumvarp sem mælir með því að líma eigi miða á allt áfengi á íslenskum markaði. Á þessum miðum á að standa að það sé ekki hollt að drekka of mikið vín. Sniðugt. Með þessum þarfa aukakostnaði er þar með tryggt að áfengisverð muni nær örugglega hækka, tegundir detta út úr ríkinu vegna þessa aukna kostnaðar og svo er auðvitað fátt huggulegra en falleg rauðvínsflaska með steikinni þar sem búið er að líma yfir merki vínframleiðandans með viðvörun um að maður geti orðið fullur af víni. Mjög sniðugt.

Auðvitað er um frábært og mjög þarft framtak að ræða. Raunar ætti líka að setja miða á allt sælgæti þar sem kemur fram að sykur skemmir tennur, að hætta sé á magaverk ef maður borðar of mikil sætindi í einu og að börn verði óþolandi við of mikið sykurát. Þá ætti að setja miða í öll mælaborð á bílum sem koma til landsins þar sem bílstjórar eru varaðir við að keyra of hratt og þeir minntir á að spenna beltin. Maður getur líka fengið magasár af því að drekka of mikið kaffi þannig að það er ekki seinna að vænna en að klína líka miða utan á allar kaffiumbúðir í landinu. Fleiri dæmi um bráðar hættur hér og þar mætti nefna til sögunnar þar sem merkimiðar myndu stórlega draga úr slæmum afleiðingum hins og þessa.

Þingmenn eru að sjálfsögðu hvattir til að halda áfram að stuðla að svona bráðnauðsynlegum lagasetningum enda eru þegnarnir svo miklir vitleysingar að það þarf að hafa endalaust vit fyrir þeim á öllum sviðum. Svo höfum við heldur ekkert betra við peningana að gera. Eða hvað?

Birtist á Pólitík.is 25. febrúar 2002.

15.2.02

Tilgerðarlegur gerviglamúr

Um síðustu helgi voru þessi íslensku tónlistarverðlaun afhent á árlegri samkomu tónlistargeirans. Fréttir af hátíðinni hafa verið rækilega tíundaðar í vikunni, þar sem menn hafa verið missáttir við vinningshafa í einstökum flokkum.

Það er svo sem lítil ástæða til að fara að fjargviðrast mikið yfir úrslitum í einstökum flokkum þó maður fallist reyndar treglega á það að XXX Rotweilerhundar hafi átt öll þessi verðlaun skilið. Hinn áberandi markaðskeimur sem sveif yfir vötnum hefur væntanlega átt mikinn þátt í sigri þeirra sem og öðrum útnefningum kvöldsins, til dæmis virtist enn og aftur algjörlega gengið framhjá afurðum Thule-útgáfunnar sem væntanlega býður þó upp á það ferskasta og besta í íslensku tónlistarlífi um þessar mundir. Nægir þar að nefna frábærar plötur hljómsveitanna The Funerals og Trabant sem báðar komu út á síðasta ári. Þessar sveitir virðast vera að upplifa það nákvæmlega sama og Sykurmolarnir hér í eina tíð, þ.e. að enginn er spámaður í eigin föðurlandi og að upphefðin virðist þurfa að koma að utan til þess að heimafólk kveiki á perunni.

Annars skiptir kannski ekki öllu hverjum hlotnast hvaða verðlaun á hátíð sem þessari. Aðalmálið er eiginlega hversu yfirgengilega hallærisleg og tilgerðarleg þessi samkoma er, ásamt reyndar annarri og verri sem er serímónían í kringum Eddu-verðlaunin. Báðar þessar hátíðir eru haldnar eftir bandarískri fyrirmynd, einkum að því er virðist Grammy- og Óskarsverðlaunanna. Á þeim hátíðum baða helstu stjörnur bransans sig í sviðsljósinu, allt er grand og flott og í viðeigandi glamúrstíl. Þegar þetta er hins vegar heimfært upp á Ísland verður útkoman hins vegar afskaplega einkennileg svo ekki sé meira sagt, sérstaklega vegna þess að á Íslandi eru ekki til neinar stjörnur, þetta er bara venjulegt fólk sem stendur fyrir aftan okkur í röðinni úti í búð og drekkur bjórinn sinn á næsta borði á barnum án þess að fá yfirleitt einhverja sérstaka stjörnumeðferð. Það verður því hálfhjákátlegt að sjá þetta sama fólk síðan ganga galaklætt eftir einhverjum rauðum dregli látandi eins og það sé á sama stigi og heimsfrægir og forríkir leikarar eða tónlistarmenn.

Edduverðlaununum hefur nú reyndar tekist að toppa tónlistarverðlaunin hingað til. Snobbið þar hefur verið yfirgengilegt en slíkt á einkar illa við í hinu svo til stéttlausa íslenska samfélagi og kom það t.a.m. skýrt í ljós þegar verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti hér um árið. Þá var boginn spenntur hátt, öllum stærstu nöfnum bransans var smalað saman og svo var almenningi gefinn kostur á þátttöku í samkomunni með því skilyrði að hann mætti kjólfataklæddur á staðinn og borgaði einhverjar fimmþúsund krónur fyrir að fá að vera með. Fólk sýndi þessu hins vegar eðlilega lítinn áhuga og útkoman var grátbrosleg; hálftómur salur í Borgarleikhúsinu þar sem enginn nennti að mæta nema einmitt þeir sem tilnefndir voru, allir klæddir í sitt fínasta algjörlega úr takti við raunveruleikann og stemninguna, svona eins og þegar maður lendir í því koma jakkafataklæddur í partí þar sem allir hinir eru bara í gallabuxum og bol.

Annað sem tengist þessu hálfgerða mikilmennskubrjálæði hjá skipuleggjendum þessara hátíða er allur aragrúinn af flokkum sem veitt eru verðlaun fyrir. Oft hefur það komið fyrir að svo fáir koma til greina í einstökum flokkum að fólk hefur verið verðlaunað án þess að hafa nokkuð sent frá sér á árinu eða komið fram. Þeir hafa mætt hálfskömmustulega upp á svið og jafnvel minnt á að þeir ættu nú kannski ekki verðlaun skilið fyrir ekkert.

Bæði íslensku tónlistarverðlaunin og Edduverðlaunin mættu gjarnan taka til dæmis Hin íslensku bókmenntaverðlaun sér til fyrirmyndar hvað sem svo annars má um þau segja. Þar hafa aðstandendur þó gætt hófs og haft samkomuna meira í stíl við íslenskan raunveruleika, veitt fá verðlaun og haft athöfnina sjálfa látlausa. En menn mega auðvitað halda áfram að halda þessar íslensku tónlistar- og kvikmyndahátíðir í sama stíl og hingað til ef þeir halda að þær geri þá meiri í augum fjöldans.

Birtist á Pólitík.is 15. febrúar 2002.

1.2.02

Chirac eða Jospin?

Það eru kosningar framundan hér í Frakklandi - ekki einar, heldur tvennar. Þingkosningar verða haldnar í vor en áður en að þeim kemur kjósa Frakkar um forseta. Kosningaskjálfti er þegar vel mælanlegur, sérstaklega fyrir forsetakosningarnar og kannanir eru farnar að birtast æ tíðar sem draga upp nokkuð eindregna mynd af því hverjir eiga raunhæfa möguleika í baráttunni og hverjir munu nánast örugglega heltast úr lestinni. Þannig eru nær allar líkur á því að þeir sem heyja munu lokabaráttuna um forsetaembættið verði tveir valdamestu menn Frakklands; þeir Lionel Jospin forsætisráðherra og Jacques Chirac forseti.

Kosningakerfið í forsetakosningum í Frakklandi er þannig upp byggt að kosið er í tveimur umferðum. Rétt til þátttöku í seinni umferðinni öðlast tveir efstu frambjóðendur úr fyrri umferð. Raunar segir það sig sjálft að ekki þarf að boða til seinni umferðar ef einn frambjóðendanna fær hreinan meirihluta strax í fyrri umferð.

Í þetta sinn hefur hátt á annan tug frambjóðenda boðið sig fram. Þetta fólk allt saman endurspeglar nokkurn veginn litróf franskrar flokkapólitíkur, allir flokkar á þingi eiga sína fulltrúa meðal frambjóðenda allt frá kommúnistum til hægri öfgamanna. Niðurstöður kannana sýna, svo ekki verður um villst, að hinir pólitísku fjendur Jospin og Chirac standa langbest að vígi. Samkvæmt könnun, sem vikuritið Le Nouvel Observateur birti nýlega, er fylgi Jacques Chiracs 27% en fast á hæla honum kemur Lionel Jospin með 24%. Fylgi beggja sveiflast reyndar um fjögur til fimm prósent til og frá eftir könnunum svo að staðan er langt í frá endanleg. Þar að auki eru enn þrír mánuðir til stefnu. Það skiptir hins vegar litlu hvor verður númer eitt og hvor númer tvö. Það eitt að tryggja sér annað tveggja efstu sætanna dugir til þátttöku í sjálfum úrslitaleiknum.

Þrátt fyrir þetta er það ekki þannig að aðrir frambjóðendur komi ekki við sögu. Þeir og kjósendur þeirra geta haft mikið að segja þegar til stuðnings við efstu frambjóðendurna tvo kemur í seinni umferð kosninganna. Meðal þessara minni spámanna má tvo helsta nefna; Jean-Pierre Chevènement, miðsækinn leiðtoga klofningsafls frá Sósíalistaflokknum, og Jean-Marie Le Pen, leiðtoga öfgahægriflokksins Front National. Báðir eru þeir líklegir til að fá rétt tæp tíu prósent atkvæða í fyrri umferðinni. Aðrir frambjóðendur þykja í dag líklegir til að uppskera frá hálfu og upp í sjö prósent atkvæða.

Baráttan í síðari umferð kosninganna á eftir að verða fjörug ef marka má síðustu kannanir. Þar er munurinn á Jospin og Chirac ekki marktækur, þeir sveiflast á víxl niður og upp fyrir þau fimmtíu prósent sem til þarf. Báðir hamast þeir nú við að höfða til miðjunnar og eru atkvæði kjósenda miðjumannsins Chevènements talin sérstaklega dýrmæt, en fyrrnefnd könnun Le Nouvel Observateur leiðir það í ljós að kjósendur hans virðast frekar ætla að fylkja sér á bak við Jospin í síðari umferðinni. Heildarfjöldi óákveðinna er hins vegar enn þá töluverður en um það bil fjórðungur kjósenda hefur ekki enn gert upp hug sinn.

Það lítur því út fyrir að háspennuúrslitarimma fylgi í kjölfar nokkuð fyrirsjáanlegra undanúrslita í slagnum um embætti forseta Frakklands.

Meira síðar...

Birtist á Pólitík.is 1. febrúar 2002.