29.3.02

Þjóðarmorð í skjóli lyga og blekkinga

Kastljós heimspressunnar beinist þessa dagana einu sinni sem oftar að Miðausturlöndum. Undanfarið hefur Anthony Zinni reynt að miðla þar málum fyrir hönd Bandaríkjastjórnar. Það hefur orðið til þess að allmargir fjölmiðlar fyllast venjubundnum vonum um það að hlutirnir séu að þokast varanlega í friðarátt milli Ísraels og Palestínu. Þetta er hefðbundinn barnaskapur, kannski fremur bundinn óraunhæfum óskum en nokkrum votti af raunveruleikamati. Nú þurfti til dæmis ekki meira til en það að hinn ógeðfelldi fjöldamorðingi Ariel Sharon fékkst til þess að hætta tímabundið að ofsækja og drepa saklaust fólk í palestínskum flóttamannabúðum. Þar að auki greip hann sú góðmennska að hleypa Arafat út úr húsi eftir þriggja mánaða veru í stofufangelsi.

Sharon vill ekki semja
Menn virðast loka augunum fyrir því að Ariel Sharon ætlar ekki að stuðla að friði. Hann hefur ekki nokkurn áhuga á því. Hann ætlar síst af öllu að semja við Palestínumenn eða gefa eftir svo mikið sem einn hektara af Vesturbakkanum, svæði sem Ísraelsmenn hafa í herkví í trássi við allar alþjóðasamþykktir og eiga ekkert tilkall til. Sharon skipar sér hins vegar í hóp flestra þeirra leiðtoga sem Ísrael hefur haft síðan ríkið var stofnað að því leyti að markmið þeirra er ekki friður við nágranna þeirra. Herkænska þeirra hefur falist í því að svíkja samkomulög og ljúga því blákalt að öllum öðrum að þeir fari í friði. Yfirlýsingar þeirra ber því yfirleitt að taka álíka alvarlega og þær sem Stalín sendi frá sér um dýrðina innan hans ríkis meðan á mestu ofsóknunum þar stóð. Þarna tala stríðsherrar sem þjóna annarlegum málstað en alls ekki sannleikanum.

Stjórnarfar við annarlegar aðstæður
Stjórnvöld sem hafa hreina samvisku þurfa ekki að ljúga eða svíkja. Þau stjórna í nafni réttlætis og jafnréttis. Sjálf tilvera Ísraelsríkis er hins vegar frá upphafi byggð á mjög óréttlátum forsendum. Ríkið grundvallast á frekju, ofbeldi og tilhæfulausum yfirgangi. Forsenda ríkisins hefur alla tíð verið sú að hrekja þá sem fyrir voru burt með valdi. Tilvera Ísraels hefur að miklu leyti staðið og fallið með því forgangsverki. Svo einfalt er það í raun. Þess vegna neyðast ísraelsk stjórnvöld ávallt til þess að beita óheiðarlegum og lymskulegum vinnubrögðum. Langtímatakmark flestra leiðtoga Ísraelsríkis er og hefur verið ríki Gyðinga á öllu því svæði sem þeir ráða nú yfir (að herteknum svæðum meðtöldum). Arabar eru ekki inni í framtíðarmynd þessa Gyðingaríkis. Þeir eru talin ógn við öryggi, samstöðu og samkennd þessa draumaríkis.

Raunhæfari lausnir gegn rasískum draumum
Að sjálfsögðu hafa margir skynsamlega þenkjandi Ísraelar beint á raunhæfari leiðir, ekki síst til þess að skapa stöðugleika og friðsamlegt andrúmsloft fyrir Ísraelsmenn sjálfa. Brotthvarf til viðurkenndra landamæra ríkisins og viðurkenning á rétti Palestínumanna væri t.d. ágætt fyrsta skref. Ariel Sharon er hins vegar engan veginn í hópi þessa fólks. Hann gengur mjög framarlega í flokki þeirra skýjaglópa sem deila rasíska draumnum um áðurnefnda framtíðarmynd Ísraelsríkis án Araba. Og hann dreymir ekki bara þessa hástemmdu drauma, stefna hans og öll verk miðast markvisst við þá.

Sharon og Milosevic
Sharon er því álíka trúverðugur í yfirlýsingum sínum og Milosevic hefði verið ef hann hefði ávallt sagst vera að stefna að því að vinna að friðsamlegu samkomulagi við Kosovo-Albana í miðjum þjóðarmorðunum þar. Þar gripu öfl innan alþjóðasamfélagsins að lokum til sinna ráða. Sharon og félögum hefur hins vegar tekist að fá þorra þjóða til að gleypa við því bulli að þeirra þjóðarmorð og ofsóknir séu nauðsynleg og réttlætanleg varnarstefna.

Þeir sem trúa stríðsáróðri Sharons ættu því með réttu líka að kyngja ótuggðum réttlætingum annarra valdagráðugra valdhafa víða um heim þegar þeir framkvæma sín andstyggilegu voðaverk.

Birtist á Pólitík.is 29. mars 2002.

15.3.02

Allt í járnum í Barcelona

Hér í Barcelona varpar fólk öndinni léttar yfir því að stuðningsmenn Liverpool skuli vera farnir að týnast heim á leið eftir markalaust jafntefli þeirra manna á Nou Camp á miðvikudagskvöldið var. Pollo Precht, þekktur blaðamaður og háðfugl hér í borg, komst þannig að orði að lyktin og útgangurinn á Römblunni eftir þessi rauðklæddu fyrirbæri öll sömul hefði verið þannig að það hefði verið eins og að bæjarstarfsmennirnir hafi óvart spúlað breiðgötuna með bjór en ekki vatni að kvöldi dags.

Leiðtogar og misvelkomið fylgdarlið
En önnur innrás vofir yfir, reyndar af nokkuð öðrum toga - og þó. Leiðtogar Evrópusambandsins hefja fundarhöld hér í dag og halda áfram á morgun. Gert er ráð fyrir því að umræðan muni einkum snúast um tvennt, annars vegar einkavæðingu raforkufyrirtækja í aðildarríkjunum og hins vegar áætlun frá árinu 2000 um það að Evrópusambandið verði orðið leiðandi markaðssvæði í heiminum árið 2010. Þessum háu herrum fylgja síðan misvelkomnir fastagestir á alþjóðaráðstefnum undanfarinna ára, aragrúi mótmælenda.

Einkavæðing raforkufyrirtækja
Umræðan um einkavæðingu raforkufyrirtækja er í raun hluti markmiðsins háleita sem á að rætast árið 2010. Hugmyndin er einna líklegust til að stranda á efablendnum sjónarmiðum Frakka sem virðast ekki eins vissir um ágæti einkavæðingar á þessu sviði og hin aðildarríkin. Lái þeim sjálfsagt fáir á Íslandi eftir dæmalaust klúður í einkavæðingarmálum ráðamanna að undanförnu. En líklegasta niðurstaða Leiðtogaráðsins er samt sem áður sú að samkomulag náist þar sem að einhverju leyti verði komið til móts við sjónarmið Frakka.

Lissabon-áætlunin
Evrópusambandið virðist hins vegar í fljótu bragði vera komið í meiri bobba í markmiðum sínum um forystu í efnahagsmálum árið 2010. Áætlunin var samþykkt á fundi Leiðtogaráðsins í Lissabon árið 2000. Í henni fólst meðal annars að tuttugu milljón ný störf yrðu til í aðildarríkjunum. Nú tveimur árum síðar virðist hins vegar allt vera í járnum, lítill skriður er kominn á áformin og margt sem þegar á að vera komið í framkvæmd virðist ekki einu sinni í augsýn. Hins vegar hefur sambandið enn þá átta ár til stefnu.

Fastagestirnir
Hinn fjölskrúðugi hópur mótmælenda, sem boðað hefur komu sína til borgarinnar, er af ýmsum sauðahúsum. Flestir sameinast þeir hins vegar í því að vera andstæðingar ríkjandi kerfis kapítalismans, mishatrammir að vísu. Sem fyrr eru mótmælin oft og tíðum ansi hreint slagorðakennd og úrlausnirnar sem lagðar eru til í staðinn gjarnan nokkuð innihaldslausar við nánari athugun. Lögreglan hefur lagt út mikinn viðbúnað til að geta mætt sama herskáa ástandi og ríkt hefur fyrir utan fundarsali á mörgum undanförnum ríkjaráðstefnum, ekki síst þar sem óttast er að meðlimum aðskilnaðarhreyfingar ETA gæti dottið í hug að láta af sér vita. Spænskar löggur eru ekki þekktar fyrir að taka óeirðarseggjum neinum vettlingatökum þannig að hér gætu mæst stálin stinn.

Það vonast því allir eftir giftusamlegri úrlausn mála. Leiðtogar ESB vonast til þess að ganga vongóðir og upplitsdjarfir frá samningsborðum annað kvöld og íbúar Barcelona vonast til þess að geta komið að borginni sinni tiltölulega ómarinni að morgni messudags.

Birtist á Pólitík.is 15. mars 2002.

5.3.02

Takk, strákar!

Jæja, þá er íslenskt útvarp endanlega dautt, týnt og tröllum gefið. Tvíhöfði, eina ljósið í myrkrinu, virðist vera hættur. Eftir stendur samansafn af drasli; ömurlegri og steingeldri tónlist á öllum vígstöðvum og aumkunarverðum þáttastjórnendum sem eru skárstir þegar þeir hafa vit á því að tala sem minnst eða sleppa því bara alfarið.

Tvíhöfði hefur stytt manni stundirnar í næstum því heilan áratug eða allt frá því að hið stórkostlega útvarpsleikrit Hótel Volkswagen fór að heyrast á milli atriða í Heimsenda, þætti Sigurjóns Kjartanssonar og Möggu Stínu á Rás 2, fyrir bráðum tíu árum síðan. Veturinn eftir hvarf Magga Stína á braut en sæti hennar í þættinum tók ein af röddunum úr útvarpsleikritinu frá árinu áður. Jón Gnarr - nafnið hljómaði undarlega og fáir vissu hver maðurinn var. Fljótlega var þó dyggum hlustendum ljóst að nýja tvíeykið væri fært um að framkalla grín í hæsta gæðaflokki, sígildir dagskrárliðir eins og Smásálin urðu til, áheyrendur fengu vikulega að hlusta á brot af því „besta” úr söngleikjalífi Lundúnaborgar og svo mætti lengi telja.

Að lokinni þessari helgarupphitun á Rás 2 byrjaði ballið fyrir alvöru. Tvímenningarnir fluttu sig yfir á Aðalstöðina og X-ið, fóru að kalla sig Tvíhöfða og sendu út óborganlegt efni á hverjum sumarmorgni frá 9-12. Haustið 1998 lífguðu þeir upp á skammdegið með því að byrja að grínast líka yfir vetrartímann. Upp frá því hafa þeir verið í loftinu alla virka morgna frá 7-11 með nokkurra vikna óbærilegum pásum af og til.

Og þvílík snilld alltaf hreint. Litla lagið okkar þar sem Jón Gnarr söng um gamla menn sem fóru niður í bæ til að fá sér pylsu. Ferskeytluhornið þar sem félagarnir kváðust á í bullvísum og hlógu síðan sama uppgerðarhlátri og hljómar á öllum vísnamótum í einhverjum héruðum úti á landi. Halldór Hauksson með klassíska hornið, nördinn sem svaraði fyrir sig. Eineltið gegn Selmu og Eyþóri Arnalds. Símtölin til útlanda. Drykkfelldi yfirkennarinn sem svaf með unglingsstelpum, grenjukerlingin, hrekkjalómafélaginn rasíski úr Vestmannaeyjum, leiðindakarlinn sem leiðrétti málvillur og allt hitt fólkið í Smásálinni. Gífurleg stórfrétt á staðnum, Sjálfstætt fólk, Tvíhleypan, Ástir á Borgarspítala, Kennedy-sjónvarpsstöðin, Grillhornið, Kaffitilfinningar og allt hitt sem var líka frábært.

En síðast en ekki síst, það langfyndnasta og besta af öllu; samtölin þeirra á milli þar sem enginn naut friðhelgi, allir voru aðhlátursefni og yfirleitt líka hálfvitar. Oftar en ekki hittu þeir líka naglann á höfuðið enda er fólk fífl upp til hópa.

Og nú er það búið og eftir standa fíflin. Auðvitað vonar maður innilega að einhvern tíma snúi Tvíhöfði aftur, vonandi þá hjá fyrirtæki sem hendir þeim ekki út í horn og lætur þá lúta lögmálum og heimspeki einhverra fugla sem vilja helst endurverkja Tvo með öllu með Jóni og Gulla út um allt og láta hryllinginn á Bylgjunni og FM 957 hljóma margfalt á öllum tíðnum.

En takk, Tvíhöfði. Takk kærlega, Jón og Sigurjón. Þið voruð undantekningin í andleysinu.

Birtist á Pólitík.is 5. mars 2002.

1.3.02

Ástríðufullur forseti

„Ástríða. Það er ástríða sem drífur mig áfram í störfum mínum fyrir Frakkland og frönsku þjóðina.” Á þessu hefur Jacques Chirac, forseti og forsetaframbjóðandi, hamrað í ræðu og riti undanfarið í takt við herferð sína þar sem að kjörorðið er einmitt ástríða (passion). Forsetinn þykir hafa örlítið sterkari stöðu eins og stendur í baráttunni við Jospin forsætisráðherra, hann hefur yfirhöndina í flestöllum þeim könnunum sem hafa birst að undanförnu, þó að sú forysta sé ansi hreint hverful og sveiflist frá einni úttekt til annarrar.

Chirac hefur ýmis tromp á hendi sér sem hann er nú þegar farinn að spila út gegn Jospin og bandamönnum hans í vinstri stjórninni. Þar ítrekar hann tölur sem sýna fram á aukna glæpatíðni, meira atvinnuleysi og versnandi frammistöðu Frakklands í samkeppni við aðrar Evrópuþjóðir. Allt saman eru þetta innanríkismál sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa haft á sinni könnu en forsetinn hefur ekki komið beint að.

Andstæðingar Chiracs hafa samt sem áður úr nógu að moða. Ýmis spillingarmál, sem tengjast forsetanum beint eða óbeint, skjóta upp kollinum reglulega og margir spyrja hvort ekki sé hræsni að forseti sem sjálfur hirðir ekki um að svara til saka sé að hneykslast á aukinni glæpatíðni og fara fram á hertar refsingar. Dómari, sem farið hefur með rannsókn fjölda mála þar sem forsetinn kemur við sögu, sagði fyrir skemmstu að Chirac ætti með réttu að vera í margfalt verri málum en Nixon var þegar hann flækti sig í vef Watergate-hneykslisins alls og neyddist í kjölfarið til að segja af sér. Reyndar ber að geta þess að forsetinn er fjarri því einn um að vera vændur um spillingu. Vinstri menn þykja t.a.m. líka hafa ýmislegt óhreint í sínu pokahorni. Það er því ekki endilega víst að þeir hætti á það að rúlla boltanum í spillingarumræðunni á mikla ferð, þeir gætu nefnilega lent undir honum sjálfir.

Þá heldur forsetinn upp á sjötugsafmæli sitt í lok þessa árs og hafa menn honum mótfallnir bent á að hann muni þá ljúka komandi kjörtímabili hálfáttræður (kjörtímabil forseta verður héðan í frá fimm ár í stað sjö ára til þessa). Honum, og frönsku þjóðinni, sé því hollara að hleypa yngri mönnum að sem eiga það ekki á hættu að vera farnir að kalka á miðju kjörtímabili.

Það á eftir að koma í ljós hvort fólkinu finnst yfirlýsingar forsetans um ástríðufulla köllun til þjónustu við frönsku þjóðina trúverðugar í ljósi þeirra spjóta sem standa á honum og benda í mörgum tilvikum fremur til ástríðufullra starfa í eigin þágu og flokks síns en í þágu þjóðarinnar og ríkisins.

Birtist á Pólitík.is 1. mars 2002.