26.4.02

Skammsýni og misskilin góðvild

Þjóðernisrembingur hefur um lengri tíma rímað ótrúlega vel við íslenska þjóðarsál. Stjórnmálamenn sem hafa haldið hugmyndum á lofti um það að Ísland sé best og fallegast og að Íslendingar séu frábærastir og duglegastir hafa einatt fengið gott brautargengi. Á nýliðinni öld var þetta órökstudda mont rauði þráðurinn í stefnum allra stjórnmálaflokka, nema ef til vill Alþýðuflokksins. Þeim flokki var líka frá upphafi refsað fyrir of mikla alþjóðahyggju sem líklega er ein ástæða þess að landsmenn sneru baki við honum og að íslenskum krötum tókst ekki að ná svipuðu fylgi og systurflokkarnir fengu í Skandinavíu.

Sem betur fer hafa Íslendingar öðlast ögn meiri víðsýni með tímanum. Fólk þekkir betur til umheimsins en áður var og er opnara fyrir erlendum straumum. Það leiðir flesta yfirleitt að þeim sjálfsögðu sannindum að Íslendingar eru ekkert merkilegri en fólk annars staðar frá, þvert á fyrri kenningar. Hins vegar eimir enn þá eftir af grobbi og þröngsýni hér og þar.

Egill Helgason tók gott dæmi á Strikinu um daginn. Hann gerði þar að umtalsefni þau „slæmu tíðindi“ að samkvæmt dómi frá Evrópu mætti ekki mismuna íslenskum bókum og erlendum bókum innan Evrópska efnahagssvæðisins - ekki einu sinni á Íslandi. Þetta finnst sumum ráðamönnum þjóðarinnar vont að heyra. Íslenskar bókmenntir eiga enda að vera svo miklu merkilegri og betri en bókmenntir annarra þjóða enda erum við svo ofboðslega mikil bókaþjóð.

Slík þröngsýni og boruháttur er hins vegar í anda þeirra sem styst eru komnir í þróuninni. Menningarsamfélögum farnast yfirleitt betur eftir því sem færri höft eru sett og fleiri gáttir þau opna fyrir ferskum straumum úr öllum áttum. Samfélag sem reynir að þvinga næringu heiman frá upp á fólkið sitt er ekki líklegt til að uppskera mikið meira en ómerkilega endurvinnslu af menningu sinni og list.

Alþingismenn halda kannski að þeir séu að gera menningu landsmanna mikinn greiða og að rithöfundar landsins skáni til dæmis við það að bækur þeirra njóti sérkjara. Sé eitthvað í þá varið á annað borð má hins vegar telja nánast fullvíst að þeir séu sprotnir upp einmitt vegna þess að þeir hafi almennt fremur sótt í erlendar bókmenntir og fróðleik utan úr heimi sér til þroska og innblásturs en niðurgreitt innlent efni (þó það geti dugað þokkalega svo langt sem það nær). Enda er ekkert óeðlilegt að heil veröld ali yfirleitt af sér miklu fleiri áhugaverð og góð verk en einstök fámenn samfélög.

Halldórs Laxness er víða minnst þessa dagana. Hann var vissulega hæfileikaríkur maður en hann hefði sjálfsagt strandað fljótlega ef erlendir straumar samtímans hefðu ekki sífellt sogast inn í flestöll verk hans og litað þau sterkum litum. Það sama má segja um fleiri góða íslenska listamenn, t.a.m. Björk og Sigur Rós. Hversu langt ætli þau hefðu náð með því að hlusta bara á innlenda dægurtónlist? Íslensk menningararfleið kann að vera grunnuppsprettan hér og þar en hún drífur ekki langt ein og sér.

„Jákvæð mismunun“ íslenskra og erlendra menningarstrauma er því misskilin góðvild ráðamanna sem heftir eðlilegt flæði þess besta sem er á boðstólnum á hverjum tíma og elur af sér staðnaða og hallærislega samtímamenningu þegar til lengri tíma er litið.

Birtist á Pólitík.is 26. apríl 2002.

23.4.02

Reiðarslag!

Óhætt er að fullyrða að úrslit fyrri umferðar frönsku forsetakosninganna séu reiðarslag fyrir lýðræðisleg öfl í Frakklandi sem og víðar. Flestir litu á það sem formsatriði að Lionel Jospin og Jacques Chirac, tveir valdamestu menn Frakklands, myndu keppa sín á milli í síðari umferð kosninganna, sem fram fer eftir tæplega tvær vikur. Ein óvæntustu kosningaúrslit síðari ára leiddu hins vegar í ljós að keppinautur Chiracs verður ekki forsætisráðherrann Jospin heldur martröð flestra Frakka - hægri-öfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen.

Einhverjir kynnu sjálfsagt að spyrja sig hvað kjósendum gengur til þessi misserin í vali á fulltrúum sínum. Í Ísrael fer Ariel Sharon hamförum í nafni þjóðar sinnar og helgar sig útrýmingu annarrar, í Bandaríkjunum er forseti sem virðist helst vera að einbeita sér að því að rifja upp Reagans-tímabilið og nú tekur tæpur fimmtungur franskra kjósenda sig til og veitir Le Pen brautargengi.

Skýringuna í Frakklandi er sjálfsagt víða að finna. Frakkar gáfu margir hverjir lítið fyrir loforðaflaum Jospins og Chiracs enda hafa þeir báðir verið við völd í Frakklandi undanfarin ár. Mörgum fannst þeir því hafa haft nógan tíma til að sanna sig með verkum sínum án mikils sýnilegs árangurs. Samt sem áður koma niðurstöðurnar á óvart.

Frelsi, jafnrétti og bræðralag eru kjörorð Frakka. Jean-Marie Le Pen stendur fyrir andstæður alls þrenns. Hann vill búa til stéttaþjóðfélag þar sem að hvítt fólk gengur fyrir alls staðar þannig að fólki af öðrum uppruna sé skýrt gert grein fyrir því að nærveru þess sé ekki óskað í Frakklandi, jafnvel þótt fjölskyldur þess hafi dvalist þar kynslóð eftir kynslóð. Fleiri fá sína sneið, þannig hefur hann lýst Helförinni sem „smámunum í Heimsstyrjöldinni síðari“ og sagt útbreiðslu Alnæmis vera „hommaplágunni“ að kenna. Le Pen er ekki mikill aðdáandi lýðræðis en hann hefur ósjaldan talað hlýlega um alræðisstjórnarfar, t.a.m. í anda nasisma og fasisma. Málflutningur hans einkennist af sleggjudómum, rangtúlkunum og illa úthugsuðum og arfavitlausum nálgunum að lausnum þeirra vandamála sem steðja að nútímasamfélögum á Vesturlöndum.

Hinar ógeðfelldu og hatursfullu skoðanir ríma vel við innrætið. Hann er ekki ókunnur frönskum réttarsölum og var meðal annars kærður fyrir líkamsáras á mótframbjóðanda sínum, konu úr Sósíalistaflokknum, í kosningabaráttunni 1997. Hann á vingott við þjóðernisöfgamanninn rússneska Vladímír Zírínovskíj og stóð dyggilega við bakið á Saddam Hussein forseta Íraks í Persaflóastríðinu. Minnir óneitanlega á spakmælið: „Sýndu mér vini þína og ég skal segja þér hvaða mann þú hefur að geyma.“

Sá sem þetta skrifar bjóst aldrei við því að vona innilega að Jacques Chirac hlyti glæsilega kosningu í síðari umferð frönsku forsetakosninganna, enda er sitjandi forseti að mörgu leyti fremur ómerkilegur pappír og ógeðugur kostur. En í uppkominni stöðu bindur maður allar sínar vonir við að franska þjóðin bæti fyrir áfallið og sýni það í verki að hún standi undir kjörorðum sínum þremur, fylki liði á kjörstað og styðji við bakið á lýðræðinu í baráttu við myrkraöflin lengst til hægri.

Birtist á Pólitík.is 23. apríl 2002.

12.4.02

Framtíðarstefna eða hreppapólitík

Þrátt fyrir að sumir kunni að beita hugtakinu alþjóðavæðing nokkuð frjálslega er það engu að síður staðreynd að hún hefur haft mikil áhrif á líf fólks á undanförnum árum. Hennar vegna hafa afskekktir staðir komist í hringiðuna miðja og markaðir og menningarsvæði hafa opnast og einangrast síður við einstaka lönd eða heimshluta. Þeir sem hafa fylgt þessari þróun eftir hafa yfirleitt uppskorið vel og á það ekki síður við á Íslandi en annars staðar.

Þar sem markaðir opnast og menningarsvæði þenjast út gefur það augaleið að samkeppni er ekki heldur jafn bundin ríkjum eða svæðum. Baráttan um bitana ríkir heimshorna á milli þar sem einstök ríki geta ekki lengur treyst á það að þeirra fjárfestingar og þeirra fólk velji sínar heimaslóðir bjóðist eitthvað betra annars staðar.

Í þessu sambandi hefur því verið haldið fram í tilviki Reykjavíkur að hún eigi nú miklu frekar í bullandi samkeppni við útlönd en önnur íslensk sveitarfélög um fólk og fjármagn. Þessi frasi um það að ungir og menntaðir Íslendingar séu allt eins líklegir til að feta sína framabraut í útlöndum kann að hljóma eins og marklaus klisja. Þetta er hins vegar staðreynd.

Reykjavík verður að gera sér grein fyrir því að hún þarf að vinna fyrir sínu fólki. Það er ekki jafn sjálfsagður hlutur og áður var að þjóðernið ráði því hvar menn ákveða að búa og starfa. Fólk leitar frekar þangað þar sem tækifærin bjóðast best og umhverfið er þeim hentugt. Þessi þróun mun halda áfram og gera samfélögum enn erfiðara fyrir að halda í fólk á forsendum uppruna og þjóðernis. Reykjavík þarf því á öllum sínum mætti að halda til að hún geti reynst góður kostur í alþjóðlegri samkeppni um verðmætt vinnuafl.

Núverandi borgaryfirvöld hafa að nokkru leyti gert sér grein fyrir þessum nýja veruleika. Nokkur stór skref hafa verið stigin, eitt það stærsta þegar ákveðið var Vatnsmýrin skyldi notuð undir annað en fuglahreiður og flugbrautir, reyndar eftir allt of langan tíma og kannski of seint. Aðalandstaðan við uppbyggingu öflugrar og samkeppnisfærrar höfuðborgar hefur hins vegar komið úr óvæntri átt - frá ríkisstjórn Íslands.

Henni er stýrt af íhalds- og framsóknaröflum sem styðja við bakið á úreltri og afturhaldssamri byggðastefnu. Hún miðar að því að draga með valdboði úr krafti og samkeppnisstöðu höfuðborgarinnar með því til dæmis að svifta hana störfum og verkefnum og flytja þau á fábreytilega staði sem fólk vill ekki búa á og er í óðaönn að flýja.

Borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins er fylgjandi þessari fortíðarstefnu. Skemmst er til dæmis að minnast þess að hann lagði til að vinsælasta útvarpsstöð landsins yrði flutt frá höfuðborginni norður yfir heiðar án þess að fyrir því væru nokkrar sýnilegar ástæður. Og nú ætlast hann til þess að fólk telji hann trúverðugan sem nýjan málsvara Reykvíkinga í harðri samkeppni við erlend borgarsamfélög.

Reykjavík má ekki við slíkum fulltrúum gamalla viðhorfa. Hún þarfnast djarfra stjórnenda og ötulla málsvara sterkrar höfuðborgar. Þar er Reykjavíkurlistanum undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur mun betur treystandi eins og er.

Birtist á Pólitík.is 12. apríl 2002.