30.1.03

Af sorglegum úrslitum í Ísrael

Niðurstöður þingkosninganna í Ísrael eru sorglegar. Þar lutu friðsamar skynsemisraddir í lægra haldi fyrir glórulausri stefnu stríðsæsingamannsins og rasistans Ariels Sharons. Kjósendur í Ísrael virðast þannig halda að lausnin úr þeim hörmungum sem Sharon hefur dembt yfir sína þjóð (svo ekki sé talað um Palestínumenn) sé að halda áfram á sömu braut og ganga helst lengra. Það er auðvitað undarleg hugmyndafræði, svona eins og að lækna þynnku með því að fara bara á annað fyllerí og helst svæsnara.

Illræmdur og óhæfur forsætisráðherra
Voðaverk Ariels Sharons á Palestínumönnum á undanförnum misserum hafa gert hann að einhverjum illræmdasta leiðtoga lýðræðisríkis á síðari tímum (ef Ísrael á þá að heita lýðræðisríki). Sharon er þó ekki aðeins illræmdur heldur líka afskaplega lélegur stjórnmálamaður. Að minnsta kosti hlýtur sú niðurstaða að blasa við sé gengið út frá þeim kröfum til stjórnmálamanna að þeir eigi að vinna að almannaheill þegna sinna.

Hann er nefnilega langt kominn með að rústa eigin ríki. Sjálfur átti Sharon upptökin að því að egna til stríðsástands í landi sínu þannig að borgarar hans hugsa nú um það eitt að komast í gegnum hvern dag fyrir sig óhultir. Hann sýnir friðarferli og sáttatillögum engan áhuga þrátt fyrir að vinátta og gagnkvæmt traust sé vitanlega það eina sem geti þokað málum í rétta átt. Þessu til viðbótar hefur efnahagsástand versnað mikið í tíð Sharons auk þess sem samúð alþjóðasamfélagsins með málstað Ísraels er að miklu leyti á bak og burt.

Augum beint frá innri vanda
Ástæðan fyrir því að ísraelskir kjósendur vilja þó fara þessa stríðshrjáðu leið er gamalkunn. Hana hafa þeir farið margoft áður og segja má að hún hafi að mörgu leyti komið sér vel fyrir ísraelska ráðamenn, allt frá stofnun Ísraelsríkis 1949. Það að hafa einn sameiginlegan óvin hefur þjappað hinni afar sundurlausu Ísraelsþjóð saman og beint augunum frá þeim brýna vanda sem stafar að margbrotnu samfélaginu og djúpstæðum innri klofningi.

Þá er auðvitað ekki minnst á stærsta vandamálið sem er hvernig eigi í raun að útfæra það að byggja upp lýðræðisríki sem grundvallist á trú. Sú hugmynd er auðvitað afskaplega þverstæðukennd í öllum grundvallaratriðum. Tilurð ríkisins er því rasísk í eðli sínu, Gyðingar eru öðrum rétthærri. Út úr slíku getur aldrei komið eðlilegt lýðræðislegt fyrirkomulag.

Draumalausnin um Gyðingaríkið
Að því er heldur ekki stefnt í Ísrael. Þess vegna eiga sáttahugmyndir hins hófsama (en þó langt frá því saklausa) Amrams Mitzna alls ekki upp á pallborðið hjá þorra Ísraela. Hugur fylgir nefnilega ekki máli í Ísrael þegar sagt er að stefnt sé að sáttum í Ísrael og hefur sjaldan gert. Draumalausn Gyðingaríkisins er nefnilega ekki land þar sem Ísraelar og Palestínumenn búa saman í sátt og samlyndi. Draumalausnin er ríki þar sem bara Gyðingar búa og allir hinir verða flæmdir í burtu. Þessi draumalausn er sú sem Sharon og kónar hans hafa unnið markvisst eftir við góðar undirtektir.

Rödd friðarins er hjáróma í Ísrael. Þó hljómar hún nú þokkalega úr einni átt – frá Amram Mitzna, leiðtoga Verkamannaflokksins. Hann hefur valdið pólitískri pattstöðu í Ísrael með því að neita að sitja í skjóli illvirkja Sharons í þjóðstjórn. Viðspyrna Mitzna er virðingarverð og nú er að vona að hún haldi út. Hún er þó ekki líkleg til að verða til mikils þegar til lengri tíma er litið enda virðist stefnan vera ansi einörð í þá átt að viðhalda, og jafnvel auka, geðshræringu og stríðsólgu í landinu helga.

Birtist á Sellunni 30. janúar 2003.

20.1.03

Rök fyrir stríði rakin - og hrakin

Um þessar mundir reyna Bandaríkjamenn allt hvað þeir geta að sannfæra þjóðir veraldar um nauðsyn þess að segja Saddam Hussein stríð á hendur. Það gengur upp og ofan enda virðist mörgum erfitt að sjá þá afgerandi hættu sem á að stafa af harðstjóranum í Írak fram yfir hættuna af mörgum öðrum álíka leiðtogum ýmissa annarra landa víðs vegar um heiminn. Rökin sem George Bush og fylgismenn hans hafa notað hafa verið æði fjölbreytt og ekki öll jafn sannfærandi. Í úttekt tveggja virtra bandarískra prófessora í stjórnmálafræði eru rök Bandaríkjastjórnar rakin - og flestöll hrakin.

Prófessorarnir eru þeir John J. Mearsheimer, við háskólann í Chicago, og Stephen M. Walt, við Harvard-háskóla. Úttekt þeirra er frá því í nóvember á síðasta ári og birtist á virtu vefsvæði um alþjóðastjórnmál á vegum Columbia-háskólans. Fjallað er um hvort að stríð sé nauðsynlegt til að hafa hemil á Saddam Hussein. Á málflutningi bandarískra stjórnvalda má skilja að svo sé. Mearsheimer og Walt eru hins vegar á allt öðru máli.


Rök þeirra fyrir því að ekki þurfi til stríðs að koma eru yfirleitt afar sannfærandi. Allir þeir sem láta sig málin varða ættu að gefa úttektinni gaum. Hér er lítið dæmi um málflutning tvímenninganna gegn áróðri bandarískra stjórnvalda:

Stundar Saddam Husseins útþenslustefnu sem ógnar heimsfriði?
Því hefur verið haldið fram að Saddam Hussein hafi stundað útþenslustefnu og herjað á nágranna Íraks í sinni valdatíð. Þar er einkum bent á stríð Íraka og Írana 1980-88 og síðan Persaflóastríðið og því haldið fram að Saddam Hussein sé í báðum tilvikum valdur ófriðarins.

Í tilviki stríðsins við Íran benda prófessorarnir á að þar hafi Hussein verið að bregðast við þeirri raunverulegu og sívaxandi ógn sem stafaði af Ayatollah Khomeini og áætlunum og aðgerðum hans við að breiða út islamska stjórnarhætti sína til landanna í kring. Þessu sjónarmiði voru Bandaríkjamenn hjartanlega sammála á sínum tíma og studdu Íraka af dyggilega í stríðinu gegn nágrönnum sínum.

Í Persaflóastríðinu fer álíka tvennum sögum af atburðarásinni. Hussein leitaði eftir afstöðu Bandaríkjastjórnar til hugsanlegrar innrásar í Írak áður en að henni kom. Bandaríkjamenn sögðust þá ekki myndu hlutast til um í deilu Íraka og Kúveita. Að því svari fengnu taldi Saddam Hussein sér óhætt að ráðast inn í Kúveit. Afstaða Bandaríkjastjórnar reyndist hins vegar önnur í raun.

Það er því afar villandi að draga upp þá mynd að Saddam Hussein hafi í raun ætlað sér í stríð við Bandaríkin og hafi þar með ætlað sér einhvers konar heimsyfirráð með því að reyna að knésetja stórveldið sjálft. Hann taldi sig hafa samþykki þeirra. Hann ætlaði sér einungis að seilast til valda í auðuga smáríkinu Kúveit til að rétta af fjárhag eigin lands. Hann átti hins vegar lítið sökótt við Bandaríkin og hafði þess vegna enga ástæðu til þess að ógna veldi þeirra.

Sagan sýnir því að Saddam Hussein hefur hingað til einungis seilst til valda til að tryggja stöðu Íraks gagnvart nágrönnum sínum. Það hefur hann ekki gert til að ógna Bandaríkjunum eða til að seilast til áhrifa á heimsvísu.

Hér er svo úttekt Mearsheimers og Walts í heild sinni.


Birtist á Sellunni 20. janúar 2003.

8.1.03

Ljót sjón lítil hjá forsætisráðherra

Davíð Oddsson hefur verið sjálfum sér líkur undanfarna daga. Margir sáu hann missa stjórn á skapi sínu í Kryddsíld Stöðvar tvö á Gamlársdag þar sem hann talaði um fráfarandi borgarstjóra á afar niðrandi hátt í orðasennu við Össur Skarphéðinsson og virtist síðan ekki finna aðra leið út úr ógöngum eigin skapofsa en að reyna að koma dónalegri og hranalegri framkomu sinni yfir á andmælandann. Sama dag fékk hann miðopnuna í Mogganum undir eigin predikanir þar sem atburðarásin í kringum brotthvarf borgarstjóra var afgreidd sem „ljót sjón lítil“.

Tvískinnungur Davíðs
Davíð hafði í því samhengi verið að ræða traust og virðingu stjórnmálamanna. Þar hefði hann ef til vill átt að líta fyrst í eigin barm áður en hann fór að hefja sig yfir aðra og láta stór og óviðeigandi orð falla um andstæðinga sína. Ekki síst verður tvískinnungur forsætisráðherrans áberandi þegar haft er í huga að á sama tíma er hann ábyrgur fyrir máli sem ekki er beint til þess fallið að auka álit eða traust almennings á honum sjálfum. Þar er átt við klúðurslega lokalausn deilunnar í kringum prófkjörssvindl sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi síðastliðið haust.

Hinn strangheiðarlegi stjórnmálamaður Davíð Oddsson fer þar nefnilega ekki þá leið að leysa lögbrot innan síns eigin flokks með réttlátum hætti eftir lögum og reglum. Þess í stað lætur hann skattgreiðendur borga fyrir ódýr og ólögmæt endalok málsins og tekur þar með bráðabirgðalausn flokks síns fram yfir sannarlega hagsmuni þjóðarinnar.

Klúður og spilling
Væntanlega efast reyndar fáir um að Vilhjálmur Egilsson, sá sem í hlut á, er hæfur í það starf sem hann hefur nú verið ráðinn til þess að sinna. Vilhjálmur hefur doktorspróf í hagfræðum og á víðtæka reynslu að baki í heimi viðskiptanna sem meðlimur í stjórn ýmissa fyrirtækja, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands. Hins vegar tengist spillingin aðferðinni við ráðninguna.

Ástæða ráðningar Vilhjálms er nefnilega sú ein að bjarga ógöngum sjálfstæðismanna vegna eigin lögbrota. Það var í það minnsta engin ástæða til að rýma Ólaf Ísleifsson úr stöðunni fyrir Vilhjálm og það stóð heldur ekki til. Það hafði heldur enginn talað um að hans væri sérstaklega þörf sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

Það blasir því við hverjum heilvita manni að ráðgjafastaða Ólafs Ísleifssonar er ekkert annað sárabætur til hans vegna þess að honum var bolað frá sínu starfi. Það var gert til að hægt væri að stinga dúsu upp í sjálfstæðismann sem búinn var að koma flokksforystu sinni í óþægilega stöðu. Þær sárabætur borga síðan skattgreiðendur. Ljóta sjónin litla sem forsætisráðherrann taldi sig hafinn yfir snýst því sannarlega upp á hann sjálfan.

Birtist á Sellunni 8. janúar 2003