,,...og aðeins betur ef það er það sem þarf!"

Íslendingar fylgjast spenntir með sem fyrr, enda fáar ef þá nokkrar aðrar íþróttir til þar sem við höfum staðið í fremstu röð um árabil (jú, í sveitaglímu og svo vitanlega á heimsmeistaramóti íslenskra hesta!). Ein regla hefur verið nokkuð gild og hún er að miklar væntingar leiða til mikilla vonbrigða en litlar vonir leiða til óvæntrar gleði.
,,Við gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar bestaaa!"
Þannig var það með íslenska handboltalandsliðið sem við sem nú erum á þrítugsaldri ólumst upp við að dá og dýrka á níunda áratugnum. Eins og í Júróvisjón þá vorum við yfirleitt með svo sigurstranglegt lið aðaláhyggjuefnið var hvar ætti að geyma bikarinn þegar (ekki ef) við yrðum Ólympíumeistarar og heimsmeistarar. Æsingurinn náði hámarki fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988. „Strákarnir okkar“ lofuðu því að gera sitt besta besta, og aðeins betur ef það væri það sem þyrfti.
Allir krakkar söfnuðu myndum af Kristjáni Ara, Geira Sveins, Alfreði Gísla, Þorgils Óttari og öllu hinum hetjunum. HSÍ og Skáksambandið gáfu út Fjarkann, skafmiða þar sem maður gat unnið glæsilega vinninga ef nafnið á einhverju handboltagoðinu eða stórmeistaranördi kom þrisvar fram. Og Valgeir Guðjónsson samdi lag og strákarnir mörðu hina gjörsamlega ósigrandi Sovétmenn á Flugleiðamótinu í smekkfullri Laugardalshöll rétt fyrir Ólympíuleika. Þetta bara gat ekki klikkað.
Rosalega góð B-þjóð
En það klikkaði nú samt. Bogdan og liðið fór á taugum og „strákarnir okkar“ töpuðu HM-sæti í Tékkóslóvakíu 1990 í vítakastkeppni við Austur-Þjóðverja. Enginn hafði brugðist þjóðinni jafnilla síðan að Icy-tríóið skreiddist niðurlútt heim frá Bergen tveimur árum áður.
Íslendingar féllu niður í nokkurs konar 2. deild og þurftu að fara til Frakklands ári síðar og reyna að tryggja sér HM-sæti þar. Skemmst er frá því að segja að við unnum þá keppni og létum í kjölfarið eins og við værum orðnir heimsmeistarar þrátt fyrir að það eina sem hefði gerst var það að við hefðum komist upp í 1. deildina aftur. Meira var það nú ekki. Samt fékk Bogdan fálkaorðuna og Alfreð var kosinn Íþróttamaður ársins. Af litlu varð Vöggur feginn.
Og aftur féll þjóðin í sömu gryfjuna ári síðar fyrir HM í Tékkó. Við hlytum að rúlla þessu upp - sjálfir B-heimsmeistarnir. Er líka nokkuð erfiðara að ná á verðlaunapall á A-móti en B-móti? Alls ekki, sögðu íslenskir handboltaspekingar. Bókstafirnir A og B öðluðust skyndilega mjög svipaða merkingu í hugum Íslendinga og táknuðu báðir „bara svona mjög svipaða styrkleikaflokka“. En allt kom fyrir ekki. Hinir ósigrandi snillingar féllu aftur niður í B-flokk.
Þegar vonin er minnst...
Þannig gekk þetta svo næstu árin. Við vorum svona „jójó-lið“, eins og sagt er í fótboltanum. Annað hvort rosagóð B-þjóð eða hrikalega slöpp A-þjóð. Meira að segja það að halda HM á Íslandi dugði okkur ekki til þess að ná á pall og töldu þá margir að í flest skjól væri fokið.
Svo gerðist það, alveg óvænt og þegar enginn hafði búist við neinu, að við fórum á heimsmeistaramót í Japan og náðum fimmta sætinu, okkar besta HM-árangri frá upphafi. Menn glöddust mikið og lærðu í leiðinni þá lexíu að búast við litlu fyrirfram því að það gæti lofað góðu. Upp frá þessu hefur þessari hógværu kenningu verið fylgt svona í meginatriðum og árangurinn hefur oft verið með ágætasta móti.
Bogdan-lúserarnir samt bestir
Þrátt fyrir það fylgir þessu Bogdans-tímabili einhver fortíðarglýja, menn monta sig frekar af sjötta sætinu í Sviss 1986 heldur en fimmta sætinu í Japan 1997 eða fjórða sætinu á ÓL í Barcelona 1992. Og tala frekar um Bogdansliðið sem gullaldarlið en það sem hefur verið í eldlínunni undanfarin ár jafnvel þó að skandalarnir séu miklu færri nú en þá.
En nú er það sem sagt EM og þá kemur enn og aftur í ljós hvort að íslenska landsliðið stendur undir nafni sem „strákarnir okkar“ eða hvort þeir falla í tign og verða bara „handboltalandsliðið“ þegar að yfir lýkur.
Birtist á Sellunni 22. janúar 2004.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home