31.5.02

Þið svindluðuð!!!

Það hefur verið nokkuð hjákátlegt að horfa upp á það hvernig sjálfstæðismenn hafa tekið tapinu í borginni undanfarna daga, eiginlega bara aumkunnarvert. Þeir hafa svolítið minnt á tapsára krakka í boltaleik sem öskra að hinir hafi svindlað en samt ekki fyrr en tapið blasir við og niðurlægingin er orðin staðreynd. Slík framkoma er nú yfirleitt talin mönnum til nokkurrar minnkunar. Þeir halda hins vegar höfði sem einfaldlega viðurkenna ósigur sinn og reyna að gera betur næst. Flestir temja sér slíka hegðun með aldrinum og auknum þroska - en kannski ekki allir.

Maður hefði til dæmis haldið að reyndur pólitíkus eins og Björn Bjarnason myndi labba upp á sviðið á kosningavöku D-listans, viðurkenna ósigur sinn, óska andstæðingum sínum til hamingju og þakka svo stuðningsmönnunum öllum fyrir sig. Þannig hefði hann komist skammlaust og bara alveg þokkalega frá tapinu. En þess í stað sneri hann ræðu sinni upp í óumbeðið skemmtiatriði fyrir andstæðinga sína.

Allt í einu var Ólafur F. Magnússon orðin stóra sökin. Ólafur F. Magnússon! Maðurinn sem sjálfstæðismenn losuðu sig pent við á einkar smekklegan hátt, eða hitt þó heldur. Þá var hann talíbani og gott ef ekki einhvers konar terróristi líka. Þá hefði öllum rétttrúuðum sjálfstæðismönnum þótt fáránlegt að tala um klofning við brotthvarf hans enda þótti þeim flestum hreinsun af manni eins og honum sem dirfðist að vera ósammála Flokknum í ákveðnum málum. Fram að hinu sérstaka skemmtiatriði Björns hafði enginn, að mér vitandi, talað um Ólaf F. Magnússon eða F-listann sem klofningsafl úr Sjálfstæðisflokknum, enda var hann það ekki. Stefnumálin ein og sér eiga til að mynda lítið sameiginlegt með orðum og gerðum Sjálfstæðisflokksins. En Ólafur gat sjálfsagt glott góðlátlega eftir allt saman.

Og eins og Björn og félagar væru ekki búnir að grafa sig á bólakaf ofan í sína eigin gröf þá bættu þeir því við að fjölmiðlarnir hefðu þar að auki verið ótrúlega ósanngjarnir. Björn fór að kenna Agli Helgasyni um það að leyfa Sjálfstæðismönnum ekki að tala nógu mikið. Til að bæta svo gráu ofan á svart skaut hann því inn í að Egill væri nú heldur ekkert spes þáttastjórnandi. Það vill svo einkennilega til að sú gagnrýni kemur líka fram í kjölfar taps Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ég man ekki til þess að Björn hafi áður haft mikið við þætti Egils að athuga, frekar að hann hafi hrósað þeim hástert og verið þar nokkuð reglulegur gestur.

Súrustu sjálfstæðismönnunum hefði eflaust verið fyrir bestu að anda djúpt og komast yfir mestu tapsárindin og svekkelsið áður en þeir fóru að skýra kosningatapið á svona líka uppbyggilegan og málefnalegan hátt. Þá hefðu þeir kannski séð að sökin á tapinu liggur óþægilega nærri þeim sjálfum.

Birtist á Pólitík.is 31. maí 2002.

24.5.02

Kosningar í Reykjavík

Ungir Reykvíkingar hafa sterkar og ákveðnar skoðanir á borginni sinni. Þeir vilja búa í kraftmiklu og framsæknu borgarsamfélagi sem tryggir tækifæri til góðs og fjölbreytts lífs, starfsframa og hamingju.

Ungt fólk er ekki jafnbundið átthögunum og áður var. Tækifærin bjóðast víða og standi Reykjavíkurborg sig ekki í samkeppninni er allt eins víst að íbúar leiti á aðrar slóðir. Því er mikilvægt að borgin komi til móts við kröfur komandi kynslóða um nútímalegt og spennandi borgarsamfélag í höfuðborginni.

Þar er þéttari byggð ein grunnforsenda blómlegs borgarmannlífs. Það lögmál gildir alls staðar, enda felur sjálft orðið þéttbýli það í sér. Ásókn fólks í húsnæði í miðborg Reykjavíkur sýnir líka að þar er langeftirsóknarverðast að búa. Þar slær hjarta borgarinnar. Ungt fólk sækist ekki eftir því að búa í hálfdauðum svefnbælum einhvers staðar í upphlíðum borgarlandsins.

Borgarbragur undir stjórn R-listans
Fulltrúar Reykjavíkurlistans hafa gert sér grein fyrir þessu. Öll stefna undanfarinna ára hefur enda miðast við það að auka borgarbrag Reykjavíkur. R-listinn lagði drög að því að flugvöllurinn mun víkja úr Vatnsmýrinni fyrir blómlegri byggð. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar hins vegar að draga þessi áform í land komist hann til valda, ætlar kannski „að setjast niður“ og hugsa málið. Reykjavíkurlistinn áformar hins vegar að þar verði til 2000 íbúðir strax í fyrsta áfanga. Reykjavíkurlistinn ætlar auk þess að styrkja bakland miðborgarinnar með uppfyllingu vestur í bæ. Sjálfstæðisflokkurinn vill það ekki heldur því að þeir sjá fyrir sér eitthvað ímyndað umhverfisslys, sjálfsagt á uppfyllingargrjótinu sem er þar fyrir. Þá ætlar Reykjavíkurlistinn að bæta 950 nýjum íbúðum við í miðborginni á allra næstu árum. R-listinn hefur trú á miðborginni sem vaxtarbroddi Reykjavíkur.

Sveitadraumar Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn heldur hins vegar að fólk muni streyma út á Geldinganes, enn eitt hrútleiðinlegt úthverfið einhvers staðar hinum megin við Grafarvog. Það á að vera vaxtarbroddur Reykjavíkur. Þeir ætla þannig að auka á kotungsbraginn með því að púkka upp á landssvæði sem fáir sýna nokkurn áhuga utan kannski þessara þrjátíu frambjóðenda á D-listanum. Þeir geta kannski myndað lítið sveitaþorp á þessu paradísarlandi langt frá hinni raunverulegu borg þegar fram líða stundir.

Til að bíta svo höfuðið af skömminni hafa þeir þannig ekki einungis veðjað á kolvitlausan hest heldur leiðir valdagræðgin þá líka út í að ljúga því að kjósendum að öllu þessu draumalandi á Geldinganesi eigi bókstaflega að sturta niður í sjóinn vestur í bæ gangi hin hræðilegu plön R-listans eftir. Kosningaáróður sem í besta falli getur flokkast undir seinheppni.

„Miðbæjarsvollurinn“
Það er kannski ekkert skrýtið að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins vilji helst allir fela sig bak við Grafarvog því að þeir eru einir fárra haldnir einhverri undarlegri gremju í garð miðborgarinnar. Engu líkara en að þar séu komnir aldnir framsóknarbændur frá síðustu öld nauðbeygðir til bæjarferðar í „Reykjavíkursvollinn“. Einn frambjóðendanna kvartaði yfir vondri lykt þar og sá sig nauðbeygðan til að flytja burt. Öðrum finnst einhverra hluta vegna ómögulegt að það séu engir bankar í Bankastræti og öllum finnst þeim hræðilegast af öllu að þurfa að borga í stöðumæli og vilja helst leggja slíkt af. Já, og svo vildu þeir láta banna áfengisdrykkju á Austurvelli!

Það hlýtur að vera einlæg ósk allra framsækinna Reykvíkinga að ótrúleg málefnafátækt og afturhaldssamar áherslur valdaelítunnar í Valhöll láti í minni pokann næstu fjögur árin fyrir fólki sem vill búa til raunverulega borg í Reykjavík.

Birtist á Pólitík.is 24. maí 2002.

13.5.02

Gott framtak

Fylgifiskur flestra borgarstjórnakosninga undanfarin ár hafa verið lítil og oft undarlega samansett framboð með óskýr markmið sem oft gera ekki annað en að drepa málum á dreif með þreytandi útúrdúrum frá alvöru umræðum. Eitt þeirra er þó að þessu sinni, aldrei þessu vant, athyglinnar vert. Þetta eru Höfuðborgarsamtökin. Þau hafa beitt sér af miklum móð og yfirleitt með málefnalegum málflutningi fyrir betra skipulagi í höfuðborginni sem þau segja réttilega vera lykilinn að betri borgarbrag í Reykjavík.

Ekki virðist vanþörf á framboði sem þessu til þess að reka á eftir stóru listunum tveimur í skipulagsmálum en framsækni og djörfung hefur verið sorglega lítil í skipulagsstefnu Reykjavíkur undanfarna áratugi. Reyndar hefur varla verið hægt að tala um stefnu í skipulagsmálum því að þau mál hafa yfirleitt einfaldlega verið leyst með því að löndum hefur verið spreðað í allar áttir í útsveitum borgarinnar sem þenur þannig allt út í hið óendanlega. Þetta hefur haft þær afleiðingar að Reykjavík er gisinn svefnbær á landflæmi sem margra milljóna manna borg gæti komið sér vel og þægilega fyrir á.

Haldi einhver að hugmyndir Höfuðborgarsamtakanna byggi á óraunhæfum draumórum skal dæmi nefnt sunnan úr Evrópu. Undirritaður er nýkominn heim frá nokkurra mánaða dvöl í Barcelona. Sú borg hefur vaxið og dafnað ótrúlega hratt á mjög skömmum tíma. Hún er að verða einn vinsælasti áfangastaður í Evrópu hjá ferðamönnum í svonefndum borgarferðum og fyrirtæki og „verðmætt“ fólk flykkist til borgarinnar. Ástæðan er að um nokkurt skeið hefur sú meðvitaða stefna verið rekin hjá borgaryfirvöldum þar að búa til mannvæna borg. Þar hafa menn ekki látið innihaldslausa tískufrasa nægja heldur hafa þeir látið verkin tala.

Niðurnídd hverfi hafa verið jöfnuð við jörðu og ný byggð í staðinn. Þar má nefna Ólympíuhverfið sem reist var við höfnina fyrir Ólympíuleikana fyrir tíu árum síðan. Þar var fyrir sóðalegt hafnarhverfi sem enginn hætti sér inn í eftir að skyggja tók. Þar blómstrar nú viðskiptalíf borgarinnar og engin merki eru um þá fráhrindandi sýn sem áður blasti við. Annað dæmi er Raval-hverfið sem er þessi misserin að gangast undir svipaða upplyftingu.

Allar framkvæmdir í Barcelona miða markvisst að þörfum borgarbúa og því markmiði að þeir kunni vel við sig í borginni og að það sé eftirsótt að búa þar. Borgaryfirvöld gera þetta vegna þess að þau eru að reyna að ná til sín fjármagni og fólki, sem hefur eitthvað fram að færa, annars staðar frá. Það er líka yfirlýst stefna. Barcelona ætlar ekki að verða undir í þessari samkeppni og þess vegna fór hún af stað og það hefur skilað árangri. Hins vegar verður vinnan að halda áfram og það veit borgarstjórnin í Barcelona líka. Þess vegna er nú þegar búið að ákveða næstu stórhuga plön og þess er einungis beðið að röðin komi að þeim.

Reykvísk yfirvöld vita e.t.v. að þau eiga í samkeppni við borgarsamfélög annars staðar. Hins vegar eru aðgerðirnar til þess að laða að sér fólk og búa til alvöru borg allt of varfærnar og miðast oft við eitthvað sem á mögulega, kannski að gerast eftir einhverja áratugi. Þá er hins vegar hætt við því að ungir Reykvíkingar verði jafnvel flognir úr hreiðrinu eitthvert annað þar sem betur er komið til móts við kröfur þeirra og lengra er seilst til að búa gróskurík borgarsamfélög.

Birtist á Pólitík.is 13. maí 2002.

2.5.02

Millilent í Haag

„The Palestinians must be hit and it must be very painful. We must cause them losses, victims, so that they feel the heavy price.“ (Ariel Sharon við fjölmiðla, 5. mars 2002. Vitnað er til ummælanna í skýrslu Amnesty Int.)

Svo mörg voru þau orð. Í þeim opinberast einu sinni sem oftar áætlun ísraelsku stjórnarinnar sem yfirleitt er þó aðeins sögð beinast gegn hryðjuverkastarfsemi gegn ísraelskum borgurum en beinist að sjálfsögðu gegn palestínsku þjóðinni allri og hefur alltaf gert í stjórnartíð rasistans Ariels Sharons og skósveina hans.

Nú er það síðast að frétta að Sharon vill hætta við að hleypa sendinefnd SÞ inn í rústirnar í Jenín þar sem Ísraelsher er vændur um fjöldamorð og útrýmingu á flestöllum merkjum um samfélag fólks. Á sama tíma heldur Ísraelsstjórn því fram að hún hafi ekkert að fela. Hver trúir slíkum þvættingi?

Fái þessi sendinefnd SÞ einhvern tíma að stunda sínar rannsóknir óáreitt er nánast öruggt að hún mun hafa hryllilegar fréttir að færa af innrás Ísraelshers og svipmyndir líkar þeim sem blöstu við heimsbyggðinni af fórnarlömbum stríðsins í fyrrum Júgóslavíu eru því miður líklegar til að blasa aftur við í fjölmiðlum.

En kannski koma þær aldrei fyrir nokkurra manna sjónir og atburðirnir að undanförnu á Vesturbakkanum verða þá aldrei meira en óstaðfestar fullyrðingar sem eru þaggaðar niður með skipulögðum hætti. Það er nefnilega ekki sama hver fremur glæpinn og í hvaða löndum stjórnandi morðanna á vini.

Bandaríkjaforseti er sjálfum sér líkur sem fyrr. Hann beitir því herbragði að kenna Arafat um allt og treystir sem fyrr á viðhald heilaþvottarins sem fjölmiðlar og áhrifamenn halda skipulega að almenningi. Svo ætlar hann að taka á móti Sharon í Bandaríkjunum á næstunni til að ræða friðartillögur. Óskandi væri þá að vélin hans Sharons millilenti í Hollandi þannig að hægt væri að skutla ísraelska forsætisráðherranum til Haag þar sem hann yrði settur í járn og látinn svara fyrir stríðsglæpi sína.

Birtist á Pólitík.is 2. maí 2002.