Tony alveg búinn að missa það

Allt í lukkunnar standi
Ekkert virtist bíta á Tony og Cool Britannicu-fólkið í Verkamannaflokknum. Jafnaðarmenn um alla álfu, meðal annars hér á Íslandi, litu upp til kollega sinna á Bretlandi. Ungir jafnaðarmenn héldu meira að segja héðan til Bretlands og gerðust sjálfboðaliðar í kosningabaráttu Verkamannaflokksins og reyndu í leiðinni að læra sigurformúluna til að henni mætti beita heima á Íslandi.
Hin ófyrirgefanlega ákvörðun
Eftir því sem misserin liðu fór hins vegar að tínast úr hópi stuðningsmanna bresku ráðamannanna. Ýmsar ákvarðanir sem ekki hafa beint þótt í anda félagshyggju eða jafnaðarmennsku hafa orðið til þess. Engin ákvörðun hefur þó reynst Blair-stjórninni eins afdrifarík og sú að taka einarða afstöðu með haukunum í Washington og taka þátt af öllum mætti í innrásinni á Írak.
Vinsældir Blairs hröpuðu og fullyrða má með nokkurri vissu að jafnaðarfólk, sem áður horfði með velþóknun til margs sem Blair-stjórnin stóð fyrir, hafi endanlega snúið við honum baki. Ekkert réttlætir það að þetta fólk ætti eftir að veita honum náð í framtíðinni enda er allur tilbúnaðurinn í kringum Íraksstríðið ófyrirgefanlegur í augum flestra vinstri manna í heiminum.
Hægri sinnuð paranojupólitík
Ekki bendir nú reyndar margt til þess að Blair sitji sveittur við að reyna að vinna hylli vinstri fólks á ný þó honum veitti svo sannarlega ekki af því. Þvert á móti virðist hann verða hrifnari af hægri sinnuðu paranojupólitíkinni hjá vinum hans í Hvíta húsinu með hverjum deginum sem líður.
Nýjasta útspilið hans er persónuskilríki sem hann ætlar að skylda alla Breta til að bera á sér öllum stundum. Þetta á að gera allt miklu betra og öruggara og tryggja það að hægt sé að hafa eftirlit með öllum. Lausnin sem sagt að herða eftirlit með fólki, tortryggja alla. Skuggalega líkt aðferðafræði vopnabróðurins í vestri.
Valið milli vonds og verra
Þó er ekki fullreynt með að hægri beyjur Tonys muni ríða honum að fullu. Andstæðingar hans í öðrum flokkum hindra það að mestu með jafnslakri og oft verri frammistöðu. Kannski einhverjir kjósi því Blair og hans menn aftur eftir tvö ár, með óbragð í munni þó, einfaldlega af því að aðrir kostir gætu verið enn þá ókræsilegri.
Breskir kjósendur verða því varla öfundaðir þegar þeir standa frammi fyrir því að velja á milli vonds og verra á kjörseðlinum í kosningunum 2005. Kannski þeir ættu bara að skila auðu.
Birtist á Sellunni 12. nóvember 2003.
1 Comments:
brazzers porno
Skrifa ummæli
<< Home