21.8.06

Þar sem glæpirnir borga sig

Einna syðst á Skánartá Svíþjóðar kúrir smábærinn Ystad með sína 17 þúsund íbúa. Sagt er að hvergi á Norðurlöndum og óvíða í Evrópu sé að finna eins heillega bæjarmynd frá horfnum tíma og í þessum skánska smábæ. Bæinn prýða á fjórða hundrað bindiverkshús, meðal annars það elsta sem enn stendur á Norðurlöndum öllum, byggt árið 1480. Ystad hefur í aldanna rás notið staðsetningar sinnar þegar kemur að samgöngum á sjó norðan úr Svíþjóð og suður í álfu. Höfnin er lífæð bæjarins, ferjur fara með reglulegu millibili frá höfninni í Ystad suður til Póllands og Borgundarhólms og smábátahöfnin er þéttskipuð litríkum fleyjum.

Í þessu snotra umhverfi minnti lítið á verstu hliðar mannlífsins þangað til fyrir um það bil hálfum öðrum áratug. Þá fóru nefnilega að gerast voveiflegir atburðir þar um slóðir; hrottaleg morð voru framin og glæpahyski af verstu sort fór að sveima um bæinn og næsta nágrenni. Á svona löguðu hefur gengið alla tíð síðan og nú er svo komið að það orð sem helst fer af Ystad, bæði í hugum Svía og fólks víða um heim, tengist fremur svívirðilegum afbrotum en friðsælum anda smábæjarins undurfagra.

Atburðirnir eiga það reyndar allir sameiginlegt að þeir eiga ekki upptök sín á þröngum götum Ystad heldur í glæpasögum Henning Mankells um Kurt Wallander lögreglufulltrúa sem starfar við að leysa flóknar morðgátur í skánska smábænum. Bækurnar um Kurt Wallander hafa allt frá upphafi notið mikilla vinsælda, bæði í Svíþjóð sem og víða um lönd. Starfsfólk ferðamannamiðstöðvar Ystad er þess vegna löngu hætt að kippa sér upp við það þó að aðkomufólk vilji miklu frekar vita hvar lögreglustöðin og ýmis skuggaleg stræti eru staðsett innan bæjarmarkanna í stað þess að vilja leita uppi gamlar kirkjur og fagrar byggingar.

Ferðamálayfirvöld bæjarins hafa reyndar lengi gert gott betur en að svara spurningum fróðleiksþyrstra unnenda glæpasagna. Þeir hafa komið vel til móts við þennan fjölmenna markhóp með því að gefa út greinargóðan bækling þar sem getið er um söguslóðir Wallander-bókanna innan bæjarmarka Ystad. Merktir eru inn á kort 32 staðir í bænum og nágrenni hans þar sem örlagaríkir atburðir hafa átt sér stað í sögum Mankells um lögreglufulltrúann slynga og lausnir hans á morðgátum í umdæmi sínu.

Vegna smæðar bæjarins eru staðirnir flestallir í auðveldu göngufæri hver frá öðrum og ekki ætti að taka meira en dagpart að heimsækja alla þá sem finnast innan bæjarmarkanna. Í slíkum túr er auðvitað ómissandi að koma við á Mariagatan, þar sem Wallander sjálfur er einn íbúa. Lögreglustöðin ætti einnig að vera fastur liður og svo allir staðirnir sem krökkt er af í miðbænum þar sem misyndismenn hafa haldið sig eða illa útleikin lík hafa legið í dimmu skoti milli húsa.

Ekki er nóg með að bæklingur hafi verið gefinn út til þess að auðvelda ferðamönnum að ramba á réttu söguslóðirnar. Tvisvar í viku yfir sumartímann er líka boðið upp á skipulagðar leiðsöguferðir um markverðustu staðina á nokkuð sérstökum fararskjóta - aftan á gömlum slökkviliðsbíl! Nánast óhætt er að fullyrða að þessi blanda, glæpasöguferðir á gömlum slökkviliðsbíl, hafi hvergi annars staðar verið reynd áður. Þetta gengur þó undurvel upp og ferðirnar eru vinsælar meðal þeirra sem bæinn heimsækja og þónokkuð er um að fólk komi jafnvel langt að í þeim tilgangi einum að leggja í slíka ferð.

Níu bækur hafa komið út um lögreglufulltrúann Kurt Wallander og sögusvið hans í Ystad. Þeirri tíundu, sem nefnist Innan frosten upp á sænsku, má hins vegar vel bæta við þó að kastljós síðustu bókarinnar hafi færst yfir á Lindu, dóttur Wallanders, sem þar er komin til starfa á lögreglustöð föður síns í gamla heimabænum Ystad. Frá útkomu Innan frosten 2002 hefur hins vegar ekkert frést af þeim Wallander-feðginum og allt lítur út fyrir að Mankell hafi hugsað til þeirrar gullnu reglu glæpasagnahöfunda að miða við tug bóka sem algjört hámark um sömu söguhetjuna.

En það er ekki þar með sagt að með því sé sagan um Kurt Wallander öll. Þrátt fyrir að tvísýnt sé um framhaldslíf Wallanders á síðum bóka Mankells þá hefur honum verið tryggt framhaldslíf á hvíta tjaldinu. Þegar hafa flestallar bækurnar um Wallander verið kvikmyndaðar og Ystad og næsta nágrenni hafa þar að sjálfsögðu verið nýtt vel sem tökustaðir. Þar hefur hins vegar ekki verið látið staðar numið því að fyrir tveimur árum var ákveðið að hleypa af stokkunum því sem sagt var vera stærsta verkefni á Norðurlöndum á sviði kvikmyndagerðar fram að því. Verkefnið snerist um þrettán glænýjar Wallander-seríur sem byggja vissulega á sögupersónunum úr bókunum en Henning Mankell kemur samt hvergi að. Verkefnið hefur þó að sjálfsögðu hlotið blessun höfundarins sem nú treystir handritshöfundum algjörlega fyrir framhaldslífi hugarfósturs síns og hefur meira að segja hvatt til þess að höfundar þessara nýju sagna um Wallander fari sínar eigin leiðir og festi sig ekki of mikið í fari bókanna.

Verkefninu umfangsmikla hefur að sjálfsögðu verið fundinn staður í Ystad. Skánski smábærinn þjónar þar ekki einungis hlutverki tökustaðar heldur er hann ein allsherjar miðstöð verkefnisins með kvikmyndaveri og öllu tilheyrandi. Það er því ekki að undra að gárungar séu farnir að nefna bæinn „Hollystad“ í léttum dúr vegna hlutverksins nýtilkomna. Fyrstu seríur þessa verkefnis eru þegar farnar að berast með jöfnu millibili inn í sænsk kvikmyndahús og er þeim þar vitanlega vel tekið.

Allra nýjustu fréttir herma síðan að samningar hafi náðst við breskar sjónvarpsstöðvar um að gera Wallander-seríur á ensku. Bretarnir leggja mikinn metnað í verkefnið og ætla þáttunum ekki minna hlutverk í bresku sjónvarpi en því sem frægar þáttaraðir um Morse, Taggart og fleiri slíka hafa gegnt í fortíðinni. Þrátt fyrir að efnið verði á ensku lítur allt út fyrir óbreytta skipan mála að öðru leyti. Það þýðir það meðal annars að Ystad verður áfram sama sögusviðið og áður og öll vinna við þáttaraðirnar mun fara fram í Ystad. Það þýðir því enn eitt uppgripið fyrir Ystad í tengslum við Kurt Wallander, sem sjálfsagt fer að fá styttu af sér á aðaltorg bæjarins fyrir einstaklega dygga þjónustu í þágu bæjarbúa.

Það lítur því ekkert út fyrir það að orðspor Ystad tengist öðru í bráð en baráttu réttvísinnar við glæpamenn og myrkraverk af svæsnustu sort. Ystad er þó hugsanlega einn af fáum stöðum veraldar sem hefur beinlínis fulla ástæðu til þess að fagna slíku orðspori af heilum hug og vonast helst eftir því að enn þá meira blóði verði úthellt á slóðum bæjarins.

Fyrir fjölmarga íslenska aðdáendur Kurt Wallanders er tilvalið að skella sér í dagsferð á glæpaslóðir til Ystad. Rútur ganga skammt frá aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn og eins fara lestir á milli frá Malmö á klukkutímafresti. Lestarferðin frá Malmö tekur klukkutíma tæpan en rútuferðin frá Kaupmannahöfn örlítið lengri tíma. Bæklinginn glæsilega með korti um söguslóðirnar og allar aðrar upplýsingar um Wallander-sögurnar má nálgast á ferðamannamiðstöð Ystad sem staðsett er rétt við brautarstöðina. Bæklingurinn er ókeypis og hann má raunar líka prenta út af síðu ferðamálayfirvalda í Ystad.

Slóðin er: http://ystad.se/Ystadweb.nsf/AllDocuments/BB304A3B6D259B9DC1256ED600260956

Birtist í Tímariti Morgunblaðsins 20. ágúst 2006.

28.5.06

Hrópað á heimilistölvuna

Við KR-ingar erum af misjöfnu sauðahúsinu. Sumir okkar eru kotrosknir og sjá ekki nokkuð í vegi þess á vori hverju að okkar menn rúlli upp bæði Íslandsmóti og bikar. Aðrir fylgjast hins vegar angistarfullir með og vilja helst byrja á því að tryggja sig gegn falli áður en þeir fara að vonast eftir einhverju meiru. Ekkert af þessu hefur neitt með metnað að gera - báðir hópar eru jafnmetnaðarfullir fyrir hönd KR. Taugar hópanna eru hins vegar misþandar.

„Við skulum nú bara bíða og sjá“
Gullaldarleikmaðurinn Hörður Felixson hefur í hópi KR-inga stundum verið nefndur sem erkidæmi um hinn síðarnefnda hóp, þeirra stressuðu í stúkunni. Ekki skal ég um það segja hversu sanngjörn slík skilgreinig á Herði kann að vera. Þó man ég eftir að hafa staðið í námunda við hann á leik okkar manna í Grindavík fyrir nokkrum árum. Staðan var þá afar vænleg fyrir KR, við vorum 3-4 mörkum yfir og skammt til leiksloka. Þá vatt sér einhver að Herði og sagði að nú hlyti hann að vera rólegur yfir stöðunni. Við skulum nú bara bíða og sjá, sagði Hörður og sýndi engin merki þess að blóðþrýstingur hans væri nokkuð á niðurleið í bráð. Já, allur er varinn góður!

Óli að sóla, vítaklúður og Keflavíkurbömmerar
Ég vil halda því fram að ég sé ef til vill ekki alveg á sama stress-stiginu og títtnefndur Hörður, ég var til dæmis orðinn afslappaður í stöðunni góðu í Grindavík þarna um árið. Þrátt fyrir það er ég dæmi um nógu slæmt tilfelli af stressaða KR-ingnum. Ég lít á það sem hálfgerða storkun við örlögin að spá KR sigri, sé alveg eins fram á tvísýna leiki í bikarnum þó að við drægumst gegn b-liði Gróttu (ef það væri þá til) og hræðist fall og katastrófur alveg þangað til að slíkt er tölfræðilega útilokað. Ég vona það besta en býst við hinu versta.

Mér finnst ég líka hafa næg tilefni til þess. Ég horfi undan í vítum af því að á tímabili heyrði það til undantekninga að við skoruðum úr þeim, ég gríp um höfuð mér þegar að Stjáni fær boltann og kemur honum ekki strax aftur í leik, enn ekki búinn að ná mér eftir trámað þegar að Óli var sólaður hér um árið, og ég vil að leikirnir í Keflavík séu blásnir af að minnsta kosti tuttugu mínútum fyrir leikslok af því að í minningunni finnst mér við alltaf missa sigurleiki þar niður í jafntefli eða tap í lokin.

Æpandi út í tómið
Eitt er þó að engjast um á vellinum í angist og stressi en hitt er öllu verra; að vera fjarri góðu gamni á leikdegi og komast ekki á völlinn. Á einhvern öfugsnúinn hátt finnst manni maður nefnilega geta ráðið einhverju um gang leiksins ofan úr stúku með bráðskynsamlegum tillögum, í formi örvæntingarfulls góls, um hvað leikmenn KR eiga að gera og hvað þeir eiga alls ekki að gera inni á vellinum. Allt það fer hins vegar fyrir lítið þegar að maður getur í mesta lagi hrópað á útvarpstækið með KR-útvarpið í botni, eins hvers staðar fjarri sjálfum atburðunum.

Angist og gleði
Ég man bæði eftir augnablikum mikillar angistar og gleði við slíkar kringumstæður. Ég man eftir að hafa hringt heim af bakpokaferðalagi frá Grikklandi þegar að ég var 18 ára, í og með til að láta vita af mér, en fyrst og fremst til að fá fréttir af því að Gummi Ben. átti stórleik á móti Breiðablik kvöldið áður. Ég man eftir að hafa yfirgnæft hljóðin í sláttuorfinu þegar að ég sló blettinn og hlustaði á þegar að Móði - af öllum mönnum - smellti honum af fáránlega löngu færi á móti KA fyrir norðan hér um árið. Ég man líka eftir að hafa gengið í hringi um gólf í Stokkhólmi, þannig að slitlag var að myndast í gólfmottuna, og rekið svo frá mér einhver spangól til marks um létti eftir að liðið bjargaði sér frá falli með því að vinna KA afar naumlega haustið 2004.

En ég man líka eftir áföllum. Komandi úr veiðiferð 2001 og uppgötva að við höfðum legið fyrir ÍBV á meðan og sokkið enn dýpra í falldýkið, tapi á móti Fram sem við máttum ekki við sumarið 2004 sem ég fylgdist með frá Stokkhólmi. Svipuð töp upplifði ég svo í sömu borg í fyrra og eftir eitt þeirra í viðbót spurði ég mig þeirrar spurningar enn einu sinni: „Af hverju er maður endalaust að kvelja sig yfir þessu?“

Ég hef svo sem ekkert svar við þeirri spurningu.

Bullandi magasýrur og hraður hjartsláttur
Síðustu tvö árin hef ég verið búsettur erlendis og því ekki getað skotist nema á nokkra leiki meðan að ég hef dvalist á Íslandi yfir hásumarið. Þar sem gengið undanfarin tvö ár hefur ekki beint verið hagstætt hinum stressaða KR-ingi þá hefur þetta ekki verið neitt sérstaklega auðveldur tími við netútvarpið. Sjálfsagt er sjónin ekki lítið spaugileg fyrir utanaðkomandi: Íslendingur úti í heimi sem situr stjarfur fyrir framan tölvu með heyrnartól á sér og andvarpar annað veifið, tekur fyrir andlit sér en stekkur síðan allt í einu upp úr stólnum og sendir frá sér ótamin fagnaðaróp eða öskrar af illsku yfir óförum.

Og nú er ballið að byrja aftur. Magasýrurnar eru farnar að bulla og hjartslátturinn er farinn að aukast. Svefninn verður gloppóttari og andvökurnar snúast um það hvernig þetta fari nú allt saman þetta árið. Á sunnudagskvöldið verður heimilistölvan síðan hertekin og tilfinningarússíbaninn fer á fullt og þeysist væntanlega milli vonar og ótta, eins og lög gera ráð fyrir.

Stressaði KR-ingurinn ætlar hins vegar að brjóta odd af oflæti sínu og reyna að tileinka sér kokhreysti hinna rólegu og sigurvissu og segja að nú tökum við FH-ingana loksins. Og sumarið verður gott. Sérstaklega ef að þið í stúkunni öskrið ykkur hás fyrir hönd okkar sem verðum annars staðar en á besta stað í veröldinni á sunnudaginn kemur.

Bestu kveðjur frá útlandinu.

Áfram KR!

Birtist á vefsíðunni KRReykjavik.is, stuðningsmannasíðu KR-inga, 12. maí 2006.

1.3.06

Þögnin um Palme

Svíar minnast þess um þessar mundir að tuttugu ár eru síðan sænska sjónvarpið rauf dagskrá sína á tólfta tímanum að kvöldi 28. febrúar 1986 til þess að skýra löndum sínum frá þeim hörmungartíðindum að forsætisráðherra landsins hefði fallið fyrir hendi morðingja á Sveavägen í miðborg Stokkhólms skömmu fyrr um kvöldið.

Þjóðin var harmi lostin. Enginn trúði því að nokkuð þessu líkt gæti hent í því opna og friðsæla samfélagi sem Svíar töldu sig búa í. Í kjölfar morðsins á Palme fylgdi síðan morðrannsókn sem ekki gerði nema að auka á óró fólks. Röð alvarlegra mistaka átti sér stað sem leiddi til þess að enn þann dag í dag hefur ekki tekist að færa sönnur á það hver myrti Olof Palme þó að böndin hafi hingað til vissulega beinst í eina átt öðrum fremur.

Þessi óvissa og endalausa bið eftir því að morðmálið verði leitt til lykta hefur að mörgu leyti orðið til þess að umræðan í kringum Olof Palme hefur á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá voðaverkinu fremur snúist um hina óupplýstu morðgátu en að rætt sé um stjórnmálamanninn Olof Palme. Sjálfsagt hefði enginn trúað því meðan að Olof Palme lifði og starfaði að umræða um skoðanir og verk hans yrðu hálfgert laumuspil í sænsku samfélagi en sú hefur engu að síður verið raunin síðan Palme hvarf á braut.

Skekkti alla umræðu
Félagar Palme í sænska jafnaðarmannaflokknum hafa margoft lýst því hvaða hneykslan þeir uppskáru ef þeir leyfðu sér að vitna í orð eða dyggðir Olofs Palme fyrstu árin eftir að morðið var framið. Pólitískir andstæðingar töldu slíkar tilvitnanir misnotkun á minningu fallins leiðtoga sem þeir jafnaðarmenn sem á eftir komu reyndu að nota sér til framdráttar. Að sama skapi var erfitt fyrir andstæðinga Palme að snúa aftur til þeirrar beittu og oft miskunnarlausu gagnrýni sem dundi á honum enda þótti slíkt hvorki við hæfi né líklegt til mikilla vinsælda.

Við þetta bætist sú staðreynd að fræðimenn, blaðamenn og rithöfundar hafa líka verið ótrúlega hljóðir um arfleifð Olofs Palme sem stjórnmálamanns. Aðeins hefur komið út ein ævisaga sem eitthvað kveður að á þessum tíma og sú er frá árinu 1989. Síðan er einungis um að ræða fáeinar minningabækur náinna samstarfsmanna og lausbeislaðar athuganir á einstökum þáttum í fari Palme sem stjórnmálamanns. Margt af því sem þegar hefur komið út er auk þess því miður haldið þeirri hetjukenndu og gagnrýnislausu mynd sem oft einkennir umfjöllun um þá sem voru umdeildir í lifanda lífi en falla frá í blóma lífsins.

Vakti sterkar tilfinningar
Þrátt fyrir að stjórnmálamenn séu alltaf umdeildir þá vakti Olof Palme sterkari tilfinningar hjá fólki en stallsystkin hans gera yfirleitt. Hann átti það til dæmis sameiginlegt með Jónasi frá Hriflu að hafa verið sakaður um geðsýki af andstæðingum sínum. Auk flökkusagna um geðsýki Palme gengu einnig sögur af svipuðum sannleikstoga um að hann væri háður heróíni eða ópíumi. Honum bárust fjölmargar berorðar morðhótanir gegnum árin og áróðri var dreift, meðal annars með myndum af honum í líki djöfulsins sjálfs.

Hið mikla hatur sem Olof Palme varð fyrir úr annarri áttinni var engan veginn einungis bundið við öfgafulla og hugsanlega geðtruflaða einstaklinga. Mikið af þessari óbeit átti sér þvert á móti stað í fáguðustu hópum ríkra athafnamanna og meðal háttsettra einstaklinga innan stjórnkerfisins og hersins.

Tage G. Peterson, einn nánasti samstarfsmaður Palme, gefur dæmi um þetta í endurminningum sínum um samstarf sitt við Palme: Hann segir frá því að Jón Baldvin Hannibalsson hafði hitt Palme að máli og rætt við hann um bók sem sendiherra Svía á Íslandi hafði fengið honum í hendur með þeim orðum að í henni væri að finna gagnlegan fróðleik um forsætisráðherra Svía. Bókin reyndist vera frægt áróðursrit gegn Palme og dreifing hennar fór fram í sænskum sendiráðum víðar um heim, að sögn Petersons.

Ástæður þessa öfgakennda viðmóts fólks í garð Palme í báðar áttir mátti að mörgu leyti rekja til þess hversu grátt hann átti það til að leika pólitíska andstæðinga sína með harðorðum og miskunnarlausum málflutningi. Slíkt kallaði vitanlega á stundum á jafn hörð og óvægin viðbrögð á móti. Tvennum sögum fer af því hversu nærri sér Palme tók þann óhróður sem að honum beindist meira og minna allan hans pólitíska feril. Opinberlega virtist hann láta sér fátt um finnast en þeir sem næst honum stóðu hafa hins vegar sagt að hann hafi tekið sumt af því afar nærri sér.

Lítil umræða um stefnu Palmes
Vegna þagnarinnar sem ríkt hefur um stjórnmálamanninn Olof Palme síðan morðið var framið fyrir tuttugu árum hefur ekki mikil umræða átt sér stað um þá stefnu sem Olof Palme stóð fyrir í stjórnmálum. Þó má ljóst vera að Olof Palme stóð nokkuð til vinstri við núverandi stefnu sænska jafnaðarmannaflokksins og fjölda systurflokka hans víða um veröld í mörgum mikilvægum málaflokkum nútímans. Þegar hlustað er á gamla ræðubúta og gluggað í gamlar greinar eftir Palme er til að mynda ljóst að hann talar mun verr um lögmál markaðshagkerfisins en nokkrum sósíaldemókrata nú í upphafi 21. aldar myndi nokkurn tíma detta í hug.

Hins vegar hefur það auðvitað alltaf þótt fremur vafasöm iðja að herma stefnur og gjörðir genginna stjórnmálamanna upp á nútímann og ætla sér að setja eitthvert samasemmerki þar á milli. Við fráfall Olofs Palme ríkti enn kalt stríð í heiminum, Svíar stóðu enn utan þess sem nú heitir Evrópusambandið, hnattvæðing var ekki komin á þann skrið sem síðar varð og efnahagskreppan í upphafi tíunda áratugarins og fleiri utanaðkomandi þættir höfðu ekki kallað á enn frekari endurskoðun á aðalsmerki Svía: "Folkhemmet" - velferðarkerfinu víðfeðma sem sænskir kjósendur höfðu haldið að myndi haldast óbreytt og óskert um aldur og ævi.

Víða um hinn vestræna heim komu upp svipaðar aðstæður og það kallaði meðal annars á allsherjar endurskoðun jafnaðarmanna víða um lönd á stefnu sinni. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar var meðal annars sú meðal sænskra jafnaðarmanna að ýmsir sem höfðu á sínum tíma talað á svipaðan hátt og Olof Palme fikruðust nær miðju stjórnmálaássins.

Ómögulegt er að komast að niðurstöðu um það hvort Palme hefði fylgt þessum straumi flokksfélaga sinna eða ekki. Þó að sjálfsagt megi færa rök fyrir hvoru tveggja má benda á að Olof Palme hefur af mörgum samherjum sínum og andstæðingum verið lýst sem raunhyggjustjórnmálamanni sem átti það til að skipta um skoðun í veigamiklum málum ef hann skynjaði að skoðanir meirihluta kjósenda væru að breytast.

Þó má eins gera ráð fyrir þriðja möguleikanum: Það er að segja að Olof Palme hafi þegar örlögin gripu inn í þegar verið farinn að huga að því að hætta afskiptum af sænskum stjórnmálum. Mörgum af þeim sem umgengust Palme sem mest á síðustu árunum fannst margt benda til þess að hann hygðist draga sig í hlé frá og með þingkosningunum 1988. Þetta hafa hins vegar synir Palme ekki viljað kannast við og segja þeir ekkert fararsnið hafa verið á föður sínum úr sænsku stjórnmálavafstri. Þriðji möguleikinn er því jafn óræður og hinir tveir þegar kemur að þeirri marklausu iðju að spá í hvað hefði getað orðið.

Samviska heimsins
Olofs Palme er hins vegar ekki síður minnst fyrir framlag sitt til alþjóðastjórnmála. Þar var hann réttnefndur fulltrúi "heimssamviskunnar", eins og hin hlutlausa sænska utanríkisstefna var stundum nefnd á þessum árum. Palme nýtti sér hlutleysið til þess að skjóta föstum skotum í allar áttir á alþjóðavettvangi. Hann gagnrýndi Víetnamstríðið harkalega allt frá árinu 1965 og sú gagnrýni reis ef til vill hæst þegar hann tengdi loftárásirnar á Hanoi rétt fyrir jólin 1972 við staðarnöfn þar sem mörg af verstu illvirkjum í sögu 20. aldarinnar voru framin. Þetta olli miklu uppnámi vestanhafs. Nixon kallaði Palme "the Swedish asshole" og samskipti Bandaríkjamanna og Svía voru í töluverðu uppnámi um nokkurn tíma eftir þetta.

Önnur markverð ummæli hans á svipuðum tíma voru þegar hann fordæmdi innrás Sovétmanna inn í Tékkóslóvakíu 1968 harkalega og aftur í kjölfar innrásar hinna sömu inn í Afganistan rúmum áratug síðar. Francoista á Spáni kallaði hann "morðingja skrattans" og aðskilnaðarstefnu kallaði hann sérstaka birtingarmynd hins illa. Hins vegar þótti hann ekki alltaf jafnberorður og stundum jafnvel ekki alveg samkvæmur sjálfum sér við það að verja lítilmagnann. Dæmi um þetta er þegar að hann fór undan í flæmingi þegar hann var spurður hvort hann ætlaði sér ekki að beita sér gegn mannréttindabrotum á Kúbu og Austur-Þýskalandi á sama hátt og hann gerði annars staðar.

Þess virði að gagnrýna Vesturlönd
Í slíkum tilvikum þótti andstæðingum hans sem hann gerðist sekur um tvöfeldni, þar sem hann væri tilbúinn til þess að ráðast harkalega að því sem honum þótti miður fara í Bandaríkjunum og leppríkjum þess í kalda stríðinu en að hann tæki hins vegar Sovétríkin og leppríki þess vettlingatökum. Þessu var Olof Palme sjálfur mjög ósammála. Hann orðaði það svo í eyru Henrys Kissinger, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í tíð Nixons og Fords, að hann talaði ef til vill harkalegar til Vesturveldanna en ástæðan fyrir því væri að í Sovétríkjunum og leppríkjum þess ríktu einræðisstjórnir sem ekki hlustuðu á gagnrýni en vestan megin járntjalds væru rökræður rétta leiðin og þess vegna fyndist honum frekar þess virði að standa í slíku gagnvart Bandaríkjunum og öðrum Vesturveldum.

Sagt er að Kissinger hafi glaðst við þessi orð og það staðfestist ef til vill í eftirmælum hans um Palme: "Þegar allt kom til alls stóðu skoðanir Palme fyrir það sem mest er um vert af vestrænum gildum: Hvar sem friði var ógnað, ranglæti ríkti, frelsi var teflt í tvísýnu eða rætt var um kjarnorkuvopn þá gekk Palme fremstur í flokki þeirra sem létu sig málið varða."

Framganga Olofs Palme á alþjóðavettvangi varð til þess að til hans var leitað um samstarf á ýmsum sviðum alþjóðastjórnmála og eins var honum treyst fyrir hinum og þessum ábyrgðarstöðum. Hann sat í alþjóðlegri nefnd undir stjórn Willys Brandt sem leggja átti til leiðir til þess að minnka bilið milli ríkra landa og fátækra og stuðla að friðsamlegum samskiptum þjóða á milli. Palme hélt svo sjálfur svipaðri alþjóðlegri vinnu áfram í nefnd undir eigin stjórn. Afrakstur þeirrar vinnu var sá að hin stríðandi öfl í Kalda stríðinu ættu sameiginlegra hagsmuna að gæta í öryggismálum og þau þyrftu því að vinna sameiginlega, en ekki hvort í sínu lagi, að afvopnun ef árangur ætti að nást. Palme var síðan einn þeirra þjóðarleiðtoga sem tóku þátt í framtaki sex þjóðhöfðingja frá fimm heimsálfum sem bundust samtökum um miðjan níunda áratuginn, ásamt alþjóðlegum þingmannasamtökum, um að hvetja kjarnorkuveldin til aukinnar afvopnunar.

Þá var honum einnig falið hlutverk sáttasemjara Sameinuðu þjóðanna árið 1980 í stríðinu milli Íraka og Írana. Tilraunir hans til þess að miðla málum milli hinna stríðandi afla báru þó ekki árangur en skipan hans sem sáttasemjara í þeirri erfiðu deilu sýnir hversu mikla virðingu hann hafði áunnið sér um allan heim sem hlutlaust afl sem ósjaldan talaði máli suðursins á alþjóðavettvangi. Mårten, sonur Olofs Palme, sagði meira að segja frá því í viðtali við Svenska dagbladet á dögunum að árið 1979 hefði faðir hans spurt hann dag einn við eldhúsborðið í raðhúsinu í Vällingby hvernig honum myndi lítast á það ef pabbi hans yrði skipaður aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Það skal ósagt látið hvort Palme spurði son sinn að þessu út í loftið eða hvort það bjó raunverulega undir að honum kynni að bjóðast staðan.

Hvað sem því líður hafa fáir seinni tíma stjórnmálamenn á Norðurlöndum haft meiri áhrif á leiðtoga og þegna þjóða um veröld alla. Svíinn Jan Eliasson, sem nú er forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, gerði þetta að umtalsefni í nýlegri grein um Palme og utanríkisstefnu hans. Þar sagði hann alþjóðleg áhrif Olofs Palme best sjást á öllum þeim skólum, götum og torgum um allan heim sem nefnd hafa verið í höfuðið á honum.

Mikill Íslandsvinur
Thage G. Peterson segir frá því í minningum sínum um félaga sinn Olof Palme að hann hafi sýnt mjög takmarkaðan áhuga á norrænu samstarfi. Þó hafi á því verið undantekningar sem ekki síst hafi sýnt sig í viðhorfum hans til Íslands. Peterson lýsir Palme sem miklum Íslandsvini sem fannst mikið til íslenskrar náttúru koma - þótti sérstaklega gaman að ganga um Þingvelli - og var mikill aðdáandi íslenskra bókmennta þar sem honum þótti bæði mikið til hins forna bókmenntaarfs koma svo og verka Halldórs Laxness.

Peterson þótti það lýsandi fyrir þær sterku taugar sem hann bar til Íslands að þegar hann frétti af gosinu í Heimaey í ársbyrjun 1973 voru hans fyrstu viðbrögð þau að segja: "Við skulum færa þeim sænsk tréhús til að búa í." Þrjátíu milljónir sænskar voru síðan sendar til Íslands og Olof Palme pakkaði niður í tösku og flaug þangað.

Olof Palme bast mörgum Íslendingum sterkum böndum og á viðbrögðum íslenskra stjórnmálamanna eftir morðið á forsætisráðherranum mátti sjá að fréttirnar voru mörgum hér í landi mikið reiðarslag. Harmurinn kom ekki bara til af því áfalli sem í því fólst að forsætisráðherra norrænnar frændþjóðar væri veginn á götu úti heldur var missirinn líka persónulegs eðlis fyrir marga þá sem kynnst höfðu Olof Palme. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafði kynni af honum gegnum störf sín í þingmannasamtökum þeim sem unnu með sex þjóða leiðtogahópnum að afvopnunarmálum sem þegar er getið um í þessari umfjöllun.

"Eini heimsstjórnmálamaður Norðurlanda"
Í viðtali við Morgunblaðið í kjölfar morðsins lýsti hann Palme sem "eina heimsstjórnmálamanni Norðurlanda". Hann lét auk þess eftirfarandi orð falla um persónuleg einkenni Olofs Palme: "[Þ]essi maður, sem sumum fannst vera hvass í orðræðu og stundum háðskur og kaldur rökhyggjumaður, [var jafnframt] mjög viðkvæmur og jafnvel stundum feiminn og hlédrægur. Hann hafði til að bera ríka kímnigáfu, sem einkum kom fram í hópi vina og kunningja. Í heild var hann einstaklega leiftrandi persónuleiki." Þessi persónulega lýsing Ólafs Ragnars á sænska forsætisráðherranum rímar nokkuð vel við þá mynd sem fólk yfirleitt hafði af einstaklingnum Olof Palme sem manni andstæðna, út á við annars vegar og inn á við hins vegar.

Morðið á Olof Palme situr enn þá í sænsku þjóðinni þrátt fyrir að á þeim tuttugu árum sem liðið eru hafi önnur og ekki síðri áföll dunið yfir sænsku þjóðina: Estoníu-sjóslysið, morðið á Önnu Lindh og náttúruhamfarirnar í Suðaustur-Asíu fyrir rúmu ári þar sem hundruð Svía létu lífið. Hið voveiflega fráfall forsætisráðherrans hefur auðvitað sett sitt mark á mynd Svía af Olof Palme og þann hetjukennda blæ sem hún hefur fengið. En kannski má líka segja að mynd Svía af Olof Palme tengist ákveðinni fortíðarþrá sænsku þjóðarinnar til þess tíma þegar Svíar voru óháðir á alþjóðavettvangi og gátu leyft sér að vera með uppsteyt, velferðarkerfið blómstraði og engin meiriháttar áföll skóku þjóðina.

Eins og yfirleitt gildir um fortíðarþrá styðst hún að mestu fremur við fegraða mynd af ímyndaðri gullöld heldur en raunsætt mat á liðinni tíð. Þrátt fyrir það er ekkert sem bendir sérstaklega til þess að Svíar hætti í bráð að líta með draumkenndum hætti til fortíðar sinnar þar sem Olof Palme ríkir sem eins konar táknmynd. Líkt og morðið á John F. Kennedy markaði ákveðin endalok ameríska draumsins eftir seinni heimsstyrjöld má ef til vill segja að morðið á Olof Palme hafi markað lokin á sænska drauminum um öruggt og gott samfélag þar sem allir voru óhultir og allir voru vel haldnir.

Slíka táknmynd verður erfitt að brjóta niður og því verður þess sjálfsagt langt að bíða að orð og verk Olofs Palme verði metin eins og hvers annars stjórnmálamanns.

Birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2006.

2.1.06

„Ópólitíski forsetinn“

Fyrir íslenska stjórnmála- og sagnfræðinga er áttundi áratugurinn í íslenskum stjórnmálum afskaplega „girnilegur“ tími. Íslendingar stóðu ekki bara í tveimur Þorskastríðslotum, svæsnustu milliríkjadeilum sínum um áratuga- og jafnvel aldabil, heldur má líka með sanni segja að með reglulegu millibili hafi allt logað stafnanna á milli í íslenskri flokkapólitík. Átökin náðu meira að segja inn í flokkanna, sérstaklega Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk sem báðir háðu erfið innri uppgjör á þessum örlagaríka áratug.

Það var því ekki laust við að hjá manni bærðist nokkur tilhlökkun þegar á haustdögum fréttist af útkomu bókar sagnfræðingsins Guðna Th. Jóhannessonar um stjórnarmyndanir og stjórnarslit og þátt Kristjáns Eldjárns forseta í þeim hildarleikjum öllum. Guðni hefur á undanförnum árum nokkuð sinnt áttunda áratugnum þar sem hann hefur meðal annars fjallað um Þorskastríðin út frá löngu tímabærum sjónarhóli - þ.e. án þeirrar þjóðrembu og þess hlutdræga stríðsæsings sem því miður einkennir mörg fyrri verk íslenskra fræðimanna og rithöfunda um átökin á Íslandsmiðum. Það má því, með vissri einföldun, segja að umfjöllun Guðna um Þorskastríðin sé meðal fyrstu tæku heimildanna á sviði sagnfræðilegra rannsókna á þeim.

Fyrri hugmyndum um Kristján kollvarpað
Trompið sem Guðni hafði í höndunum fyrir ritun þessarar bókar var aðgangur að einstökum heimildum; dagbókarfærslum forsetans frá embættistíð sinni. Mikið hefur verið rætt og ritað um efni bókar Guðna á liðnum haustmánuðum og því þarf vart að geta þess hér enn einu sinni að bókin varpar um margt nýju ljósi á forsetatíð Dr. Kristjáns Eldjárns og kollvarpar um leið að nokkru leyti þeirri ríkjandi hugmynd að Kristján Eldjárn sé eins konar táknmynd hins hlutlausa forseta sem fjarlægur er hinu pólitíska amstri á allan mögulega hátt.

Örlögin höguðu því þannig að Kristján neyddist, þvert á það sem áður hefur verið haldið fram, til þess að verða virkur þátttakandi í hinu pólitíska tafli um völdin og það verður ekki séð af efni þessarar bókar að hann hafi skort vilja eða getu til þeirrar þátttöku þegar að á reyndi. Það sést best á einbeittum ásetningi hans til þess að mynda utanþingsstjórnir bæði haustið 1979 og í ársbyrjun 1980 sem, ef af hefði orðið, hefði vafalaust gert hann, að dómi sögunnar, að pólitískasta forseta af öllum sem setið hafa. Þá má ekki vanmeta umdeildar ákvarðanir sem hann tók, eins og undirskrift við þingrofið 1974 og ákvörðun hans um að veita Lúðvík Jósepssyni, formanni Alþýðubandalagsins, stjórnarmyndunarumboð 1978.

Sanngirni eða ósanngirni?
Varðandi síðara atvikið þá er erfitt fyrir ungan mann eins og þann sem þetta ritar (og sem fæddist sama ár og Lúðvík fékk umboðið) að gera sér grein fyrir þvílíkri hneykslun það mætti meðal hinna borgaralegu afla þjóðfélagsins, einkum inni á ritstjórn Moggans, að formanni sósíalistaflokks skyldi veitt umboð til stjórnarmyndunar. Maður spyr sig, í einfeldni sinni, hvort að það sé ekki að sama skapi merkilegt að forsetanum hafi fundist ástæða til þess fresta því í lengstu lög að veita Lúðvík umboðið og ráðfæra sig sérstaklega við sína persónulegu ráðgjafa og vini áður en hann steig það skref?

Má ekki eins segja að það lýsi ekki beint hlutlausum forseta að hann bíði með það eins lengi og hann telur sér stætt að veita Alþýðubandalaginu umboð til stjórnarmyndunar og þurfi þá meira að segja að láta sannfæra sig sérstaklega um að það sé forsvaranlegt? Hefði Kristján fylgt algjöru hlutleysi hefði átt að koma að Alþýðubandalaginu á undan Alþýðuflokknum í stjórnarmyndunar-goggunarröðinni í kjölfar kosninganna 1978 þar sem flokkurinn hafði meira fylgi á bakvið sig í kosningunum nýafstöðnu. Þannig má alveg eins færa rök fyrir því að forsetinn hafi ekki að öllu hundsað viðvaranir Moggaveldisins heldur líka að mörgu leyti tekið tillit til þeirra og farið eftir þeim með því að fresta því ef til vill óeðlilega lengi að veita Lúðvík Jósepssyni stjórnarmyndunarumboð 1978.

Alþýðubandalagið og Afganistan
Þessu tengt þá er það auðvitað líka merkilegt, og að mörgu leyti hjákátlegt, fyrir kynslóð ungs fólks í dag að lesa um það hversu öfgafull og æsingaróð andstæð öfl á hinum pólitíska ási voru og hversu ómálefnalegur og langsóttur stríðsæsingur litaður af kalda stríðinu fékk að vaða uppi. Vegna efni þessarar bókar eru flest dæmin um slík dæmalaus upphlaup úr röðum sjálfstæðismanna og af síðum Morgunblaðsins. Maður veit til að mynda ekki hvort maður á að nota lýsingarorðið hlægilegt eða sorglegt í sambandi við þær tengingar sem borgaralegu öflin gera á milli þátttöku Alþýðubandalagsins í stjórnarmyndun uppi á Íslandi annars vegar og innrásar Sovétríkjanna í Afganistan og handtöku Sovétmanna á mannréttindafrömuðinum Andrej Sakharov hins vegar í árslok 1979.

Það verður þó að nefna í þessu samhengi að engin ástæða er til að halda að hin sósíalísku öfl eða Þjóðviljinn hafi stundað málefnalegri eða jarðbundnari málatilbúnað. Þá má vera að erfitt sé fyrir ungt fólk sem ekki upplifði þessa tíma að gera sér grein fyrir því andrúmslofti sem allt umlék á tímum stigmögnunar í kalda stríðinu, eins og þeirrar sem hófst með innrásinni í Afganistan og kjöri Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta rétt í kjölfairð. Það kann því að vera að kaldastríðsæsinginn megi skýra á marga lund en erfiðara er hins vegar að ætla sér að réttlæta hann sem vitræna samræðu pólitískra andstæðinga á milli. Þar standa orð Matthíasar Johannessens sem sagði að afloknu kalda stríðinu að það stríð „hefði gert okkur öll að verri mönnum“.

Að ganga óbundinn til kosninga
Margan lærdóm má draga af lestri þessarar bókar. Kannski hann þó helstan hversu varasamt það getur verið fyrir flokka og leiðtoga þeirra að vera búnir að lýsa því yfir í aðdraganda kosninga að þeir útiloki samstarf við ákveðna flokka. Slíkar yfirlýsingar bökuðu öllum flokkum mikil vandræði, sérstaklega á árunum 1978-80, þegar að nánast samfelld stjórnarkreppa ríkti á Íslandi.

Hana hefði ef til vill mátt leysa með auðveldari hætti ef ekki hefðu staðið í vegi yfirlýsingar og upphrópanir um að aðeins einn vegur sé fær og allir aðrir útilokaðir. Þetta ættu forystur stjórnmálaflokkanna að hafa í huga nú bæði í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í vor og alþingiskosninga á næsta ári því það er aldrei að vita í hvaða vanda valdamenn rata, til að mynda þegar að óviðbúin niðurstaða kemur upp úr kjörkössunum.

Það að „ganga óbundinn til þessara kosninga“ er því ef til vill fremur vottur um skynsamlega afstöðu og yfirlýsing um vilja til ábyrgðar og áhrifa en að þar sé um að ræða tækifærismennsku. Það er nefnilega rétt sem Guðni segir í niðurlagi bókar sinnar að þó að Íslendingar hafi upplifað stöðugleika í íslenskri landsmálapólitík undanfarinn hálfan annan áratuginn (og höfuðborgarbúar hafi átt skýra kosti í borgarstjórnarkosningum undanfarinn áratug eða svo) þá er ekkert sem bendir til þess að ringulreið sé að eilífu búin að kveðja íslensk stjórnmál.

Hápólitískt embætti
Að sama skapi er Völundarhús valdsins áminning um það að forsetaembættið er hápólitískt embætti sem ekki einu sinni Kristján Eldjárn, seinni tíma táknmynd og fyrirmynd hins „ópólitíska forseta“, fór varhluta af. Völundarhús valdsins mun eflaust eiga sinn þátt í því að kollvarpa þeim misskilningi síðari ára að forseti Íslands sé einungis puntudúkka á Bessastöðum sem ekkert geti sagt eða gert sem raunveruleg áhrif hefur á íslensk stjórnmál.

Raunar má halda því fram að rannsóknir Guðna gætu allt eins lagt lóð á þær vogarskálar að staða forsetaembættisins breytist og að næstu forsetakosningar taki ef til vill á sig svipaðan blæ og þekktist fyrir tíma Kristjáns Eldjárns, áður en misskilningurinn um hlutleysi og afskiptaleysi forseta Íslands af íslenskum stjórnmálum fór að gerast rótgróinn í þjóðmálaumræðunni á Íslandi.

Skýrir og eyðir misskilningi
Hið mikla og góða verk Guðna Th. Jóhannessonar skýrir því ekki aðeins til mikilla muna liðna atburði í íslenskum stjórnmálum. Völundarhús valdsins dregur einnig fram mikilvægar grundvallarstaðreyndir um sögulega hefð íslenskrar stjórnskipunar, eyðir misskilningi og hjálpar okkur við að greina samtíma okkar með skírskotun til nálægrar fortíðar.

Birtist á Sellunni 1. janúar 2005.

25.12.05

„Aftur til þín, Þröstur...“

Íslensk dagblöð berast manni ansi tilviljanakennt í hendur hingað til mín í Malmö. Ég rakst þó á gamlan Mogga frá upphafi mánaðarins (3. desember) um daginn. Í Lesbók blaðsins var ágætis grein eftir ritstjórann Þröst Helgason um Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þar kallar hann verðlaunin hiklaust „útgefendaverðlaun“ enda séu það stóru útgefendurnir sem standi að verðlaununum og skipa sjálfir dómnefndirnar sem velja eiga á milli verkanna.

Og ekki nóg með það: áskilið er að greitt sé ákveðið þátttökugjald með hverri bók sem tekin er fyrir hjá nefndinni sem getur gert það að verkum að félitlar útgáfur hafa einfaldlega ekki efni á því að senda inn sín framlög. Tímasetning tilnefninganna, við upphaf jólabókaflóðsins, er líka miðuð við þarfir stóru útgáfanna og virðist miða að litlu öðru en að auka sölu í gósentíðinni.

Dómnefndin þarf að stunda mikinn hraðlestur til þess að ná að klára allar þær bækur sem fyrir liggja á þeim örskamma tíma sem líður frá því að bók kemur út og þar til stuttu seinna þarf að tilkynna um tilnefningarnar. Tilnefningarnar geta því ekki talist afrakstur mikillar yfirlegu eða yfirvegaðra vinnubragða. En gott og vel, segir Þröstur, leyfum útgefendum bara að eiga sín útgefendaverðlaun.

Hins vegar veltir Þröstur því upp hvort ekki sé kominn tími á önnur íslensk bókmenntaverðlaun til mótvægis við hin harðsoðnu, markaðsmiðuðu og langt í frá hlutlausu verðlaun sem fyrir eru. Svipaðar vangaveltur mátti raunar einnig heyra hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamanni og bókarýni í síðasta Silfri Egils.

Þröstur stingur upp á eins konar íslenskri akademíu, hópi sérfróðs fólks á sviði bókmennta, sem gæti til að mynda birt lengri lista yfir tilnefndar bækur til verðlaunanna og svo styttri einhvern tíma í kjölfarið. Þessu kerfi myndi þar með svipa til fyrirkomulags Booker-verðlaunanna bresku. Verðlaunin sjálf mætti síðan veita einhvern tíma á sumarmánuðum og yrði það hugsanlega til þess að dreifa umræðu um íslenskar bókmenntir jafnara yfir árið.

Í framhaldi af þessu segir Þröstur að vilji sé allt sem þurfi og ákallar einhver stórfyrirtæki til að styðja verkefnið.

Það er spurning hvort ekki sé rétt að taka Þröst á orðinu og spyrja hvort hann, með sinn fjölmiðil að baki sér, geti ekki einmitt verið rétti maðurinn til þess að koma verkefninu af stað. Hvernig væri að hann ásamt sínu blaði hvetti til þess að þeir fjölmiðlar, sem geta með sanni haldið því fram að þeir sinni menningarmálum af einhverjum mætti, tækju sig saman og stæðu fyrir slíkum verðlaunum - hugsanlega þá með stuðningi einhvers stórfyrirtækis, ef hann er þá nauðsynlegur yfir höfuð.

Þannig mætti hugsa sér að Morgunblaðið, Tímarit Máls og menningar, Rás eitt tilnefndu sína fulltrúa til samstarfsins (aðrir fjölmiðlar munu eiga erfiðara með að halda því fram að þeir sinni menningarmálum af einhverju viti). Framgangi tilnefninga og verðlauna yrði væntanlega fylgt eftir í þessum fjölmiðlum sem allir hafa innanborðs fólk sem treystandi er til þess að standa faglega og yfirvegað að mati á gæðum íslenskra bókmennta hvers árs fyrir sig. Minni hætta væri á hagsmunatengslum þar sem allir, bæði útgefendur og rithöfundar, kæmu jafnir til leiks og markaðsblærinn væri á bak og burt.

Verðlaun fyrir listir eru eftir sem áður umdeilt fyrirbæri og auðvitað myndi þetta hugsanlega fyrirkomulag í raun ekkert komast nær einhverjum stóra sannleik um það hvaða bækur eru góðar og hverjar vondar. En yfirbragðið yrði ef til vill faglegra, yfirvegaðra og hlutlausara en það sem nú gildir í tengslum við Íslensku bókmennta(útgefenda)verðlaunin.

Þannig að ég segi:

„Aftur til þín, Þröstur. Vilji er allt sem þarf!“


Birtist á Sellunni 22. desember 2005.

19.12.05

Samband ljóss og manns

Um þessar mundir stendur yfir samsýning listasafnanna í Malmö og Lundi á verkum Ólafs Elíassonar undir heitinu The Light Setup. Sýningarnar tvær eru ólíks eðlis. Í Malmö er til sýnis tvískipt verk þar sem samspil dagsljóss og tilbúins ljóss er annars vegar í brennidepli og hins vegar er rými baðað gulu ljósi þar sem aðeins einn litaskali er sýningargestum greinilegur. Í Lundi eru til sýnis ýmis konar líkön og skissur af stærri verkum. Þar er líka að finna fullbúin verk Ólafs af ólíku tagi og frá ýmsum tímabilum en margt af því sem fyrir augu ber í Lundi var einnig til sýnis á Frost Activity-sýningu Ólafs í Listasafni Reykjavíkur í upphafi síðasta árs.

Samsýning Ólafs hefur vakið mikla athygli hér á Skáni, fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hana auk þess sem hún hefur verið vel auglýst á svæðinu. Engan þarf svo sem að undra enda þykir þessum söfnum tveimur mikill fengur af því að hafa fengið það tækifæri að fanga krafta hins mjög svo eftirsótta listamanns. Sérstaklega hrósar forstöðufólk safnanna happi yfir því að hafa nælt í Ólaf með svo skömmum fyrirvara en það er tiltölulega stutt síðan að söfnin áttuðu sig á því að Ólafur var ofarlega á óskalista þeirra beggja og því ákváðu þau að taka höndum saman í að sýna verk Ólafs á samtengdri sýningu í Lundi og Malmö.

Ólafur hefur sagt frá því í viðtölum við skánska fjölmiðla að margt hafi auðveldað honum þá ákvörðun að ganga til samstarfs við listasöfnin tvö. Fyrir utan að þekkja forstöðufólk safnanna tveggja frá fyrri tíð af góðu einu þótti honum einnig hentugt að setja upp sýningu á báðum stöðum þar sem söfnin hafa á vissan hátt keimlíkt yfirbragð enda er arkitekt þeirra beggja sá sami. Á sama tíma mynda þau hins vegar ákveðnar andstæður bæði í stærð og lögun. Í listasafninu í Malmö eru stór rými þar sem að umfangsmikil verk njóta sín vel á meðan að listasafninu í Lundi er skipt upp í mörg minni rými og útskot sem henta vel fyrirferðarminni verkum.

Stjórn listasafnsins í Malmö hafði legið undir ámæli ýmissa í sumar fyrir að taka allt safnið undir einn einstakan hljóðskúlptúr skosku listakonunnar Susan Philipszs og því hefur sjálfsagt hinum sömu gagnrýnendum ekki litist betur á blikuna þegar að sami leikurinn var leikinn aftur og allt safnið enn á ný tekið undir verk sem ekki er mjög áþreifanlegt og virðist, við fyrstu sýn, ekki vera annað en ljós í lofti og á veggjum. Fulltrúar listasafnsins hafa snúist þessu til varnar og segja að eins megi færa rök fyrir því að þvert á móti hafi rými safnsins aldrei verið eins gjörnýtt og á yfirstandandi sýningu þar sem hin mismunandi hvíta birta og sú gula fylli upp í hvert skúmaskot sýningarsala safnsins. Nýtingin sé því algjör! Reyndar stakk Ólafur sjálfur upp á því í gríni í viðtali við skánska fjölmiðla að næsta sýning listasafnsins í Malmö yrði einn stór lyktarskúlptúr. Þar með væri ákveðinni heilagri þrenningu skynfæranna náð meðal sýningargesta.

Þegar gengið er inn á listasafnið í Malmö blasir stærra verk Ólafs strax við. Verkinu má lýsa sem stóru rými: hvítum veggjum og lofti og hvítlökkuðum gólffjölum. Fyrir miðju lofti eru svo tveir jafnstórir flekar þar sem annar varpar dagsljósi inn í rýmið í gegnum hvítar plastplötur sem hleypa birtunni í gegn. Hinn flekinn er klæddur sams konar plastplötum en undir honum er birta hundruða flúorljósaröra sem líður smám saman frá einu blæbrigði til annars. Sams konar andstæður náttúrulegs og tilbúins ljóss eru svo á hliðarveggjum salarins. Það er svo sýningargesta sjálfra að reyna að komast að því hvor birtan er tilbúin og hvor er náttúruleg. Sýningargesturinn er virkur þátttakandi í verkinu, eins og svo oft áður hjá Ólafi Elíassyni, og eftir sem áður á það sérstaklega vel við um verk Ólafs þegar sagt er um listaverk að þau verði ekki til fyrr en til kemur skynjun áhorfandans.

Til að tæma rýmið algjörlega af öllu öðru en ljósinu hvíta þá hefur birtan verið jöfnuð út og stillt þannig að nánast engir skuggar myndast af sýningargestum. Þetta leiðir hugann að sambandi ljóssins og mannsins. Í því samhengi er það nefnt í tengslum við sýninguna að skuggaleysi rýmisins myndar skýra andstæðu við samband norrænna manna við birtuna sem 70% ársins þurfi að draga á eftir sér lengri skugga en sem samsvarar hæð þeirra sjálfra. Af þeim sökum er þungu fargi af gestum létt þegar þeir nú á haustdögum ganga inn í skuggaleysið á sýningunni í Malmö.

Hvíti hluti The Light Setup getur aukinheldur nýst ágætlega sem birtumeðferð þegar að skammdegisþunglyndis fer að gæta um slóðir sýningarinnar eftir því sem frekar hallar að vetri. Raunar var merkilegt að sjá það strax nú meðal sýningargesta, einkum barna, að mörg hver drógu þau bastmottur fram á gólfið og lögðust niður til að njóta birtunnar. Varla er hægt að saka blessuð börnin um lærða hegðun eftir að hafa þrællesið allt um sömu viðbrögð fólks við sýningu Ólafs í Tate Modern hér um árið þannig að enn og aftur má sjá sterk og óvenjuleg viðbrögð sýningargesta við verkum Ólafs.

Þegar gengið er inn í hliðarsal sýningarinnar blasir við algul birta reglulegra flúorljósaröra í loftinu. Ólafur hefur um nokkurt skeið leikið sér að gulu birtunni og oftar en ekki nýtt sér hana við inngang sýninga sinna til þess að „hreinsa“ huga sýningargesta af utanaðkomandi skynjunum áður en lengra er haldið. Guli liturinn virkar vel til „hreinsunar“ þar sem að birtan sem af honum stafar sýnist aðeins í gráskala en skerpist hins vegar jafnframt. Hver flekkur á húð manns verður því allt í einu ofurgreinilegur í þessum svarthvíta heimi gulu birtunnar. Verkið byggir jafnvel enn frekar á sýningargestum þegar þarna er komið sögu. Listaverkið verður í raun fyrst til þegar að gengið er inn í rýmið og sýningargestir, sem allt í einu eru orðnir eintóna í útliti, eru helst til skoðunar.

Ekki minni verða áhrifin hins vegar þegar aftur er komið út í hvíta rýmið. Þá verður maður allt í einu fyrir árás alls litaskalans sem beinlínis æpir á mann í sínum skærustu blæbrigðum. Eftir örlitla aðlögun dofnar allt aftur og hlutirnir fara í svipað far og maður er vanur en eftir stendur sú skynjun sem sýningargesturinn verður fyrir þar sem samspil birtu og lita og áhrif þess á skynjun fólks verða manni allt í einu mjög greinileg. Upp í hugann kemur aftur staðreyndin um norræna skuggann langa sem við hér á úthjara heimsins drögum á eftir okkur bróðurpart ársins og þau sálrænu og líkamlegu áhrif sem samspilið milli birtu og lita almennt hefur á líf mannfólksins.

Sá hluti sýningarinnar sem til sýnis er í Lundi er að nokkru leyti kunnuglegur þeim íslensku listunnendum sem lögðu leið sína á sýningu Ólafs í Hafnarhúsinu á síðasta ári. Hér, eins og þar, getur að líta líkön og skissur Ólafs að stærri verkum sem ýmist hafa orðið að fullsköpuðum verkum eða dagað uppi einhvers staðar á leiðinni. Meðal annars eru til sýnis líkön sem nýttust við gerð hins stóra og mikla titilverks Frost Activity-sýningarinnar. Að sama skapi er fjöldi ljósmyndasería á sýningunni, til dæmis myndröðin Reykjavík sem einnig var með á Frost Activity-sýningunni svo og aðrar myndraðir sem flestar eiga það sameiginlegt að hafa Ísland sem myndefni. Ýmis önnur fullkláruð verk af ýmsum stærðum og gerðum frá mismunandi tímum eru þar einnig til sýnis. Öll eiga þau það sameiginlegt með verkinu stóra í Malmö að reyna á skynjun sýningargestsins og takast á við form og lögun.

Hafi það farið framhjá einhverjum gesti annarrar hvorrar sýningarinnar að honum er ætlaður mikill hlutur í verkum Ólafs þá verður það væntanlega öllum ljóst á efri hæð sýningarsalarins í Lundi en þar fer mest fyrir tækjum og tólum sem sýningargestum eiga að nýtast til þess að búa sjálfir til sín listaverk. Fólki gefst kostur á að leggja blað undir tæki sem teiknar hringi, misjafna í laginu eftir því hvernig sýningargesturinn - sem nú er orðinn listamaðurinn - ýtir við því. Einnig er hægt að byggja heilu hallirnar úr legókubbum sem allir eru hvítir að lit og loks er á hæðinni einnig að finna sams konar leikföng og gestir Frost Activity - ekki síst þeir yngstu - muna væntanlega vel eftir.

Ástæða er til að hvetja fólk til að skilja Lundarhluta sýningarinnar ekki útundan, jafnvel þó að sitthvað þar kunni að hafa komið reykvískum unnendum Ólafs fyrir sjónir áður á sýningunni í Hafnarhúsinu. Sýningarhlutarnir tveir í Malmö og Lundi mynda nefnilega heildarmynd þar sem hvorugt má með góðu móti án hins vera. Svo tekur það ekki nema um það bil stundarfjórðung að fara í lest á milli byggðarlaganna tveggja þannig að það ætti ekki að vefjast fyrir fólki að heimsækja báða hluta sýningarinnar samdægurs.

Íslendingar sem staddir eru á Eyrarsundssvæðinu þetta haustmisserið ættu því ekki að hafa nokkra ástæðu til þess að láta framhjá sér fara sýningu Ólafs Elíassonar - listamannsins áhugaverða sem við Íslendingar viljum ávallt eigna okkur sem allra mest af. The Light Setup-sýning safnanna stendur yfir fram í byrjun janúar. Söfnin eru opin alla daga vikunnar og aðgangur inn á þau bæði er ókeypis.

Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 3. desember 2005.

18.12.05

Framsækin samfylking í Reykjavík

Ekki verður annað sagt en að senan hafi verið sjálfstæðismanna í borgarmálunum síðan síðsumars þegar að hvort tveggja hélst í hendur að baráttan um leiðtogasætið hófst fyrir alvöru og andstæðingurinn R-listinn leystist upp í frumeindir sínar. Svo mikill hefur gusturinn verið með Sjálfstæðismönnum á köflum að engu hefur verið líkara en að einungis formsatriði sé fyrir flokkinn að sigla hraðbyri til valda í Ráðhúsinu næsta vor.

Sjálfstæðismenn skyldu hins vegar ekki fagna of snemma. Sé vika langur tími í pólitík, eins og stundum er sagt, þá jafnast veturinn framundan á við heila eilífð. Raunar var engu líkara en að Stefán Jón Hafstein hefði haft skeiðklukku við höndina til þess að byrja prófkjörsbaráttu sína nákvæmlega á þeim tímapunkti þegar að úrslitin voru ljós á hægri kantinum. Við þetta bættist svo að ekki var annað að heyra á Birni Inga Hrafnssyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, í Silfri Egils á sunnudaginn var en að það eina sem óljóst væri varðandi framboð hans fyrir framsóknarmenn á næsta ári væri hvenær nákvæmlega því yrði lýst yfir. Við sama borð sat svo Össur Skarphéðinsson sem gat ómögulega útilokað það að hann kynni að gefa kost á sér líka. Það er því varla lognmolla framundan.

Undanfarnir mánuðir hafa verið sjálfstæðismanna í borgarpólitíkinni en nú má sem sagt búast við því að við taki tímar framsóknar- og samfylkingarfólks fram að prófkjörum þessara flokka snemma næsta árs. Í því ljósi er vert að velta því fyrir sér hvers vegna þessir tveir samstarfsaðilar innan R-listans (samstarfið ríkir enn fyrir þá sem voru búnir að gleyma því!), tveir miðsæknir félagshyggjuflokkar í borgarmálunum, hafa ákveðið að heygja sína baráttu í sitt hvoru lagi.

Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn hafa um eitt og annað ólíkar áherslur í landsmálapólitíkinni. En hvaða málefnalega himingap er á milli þessara tveggja miðsæknu félagshyggjuafla í borgarmálunum sem réttlætir að þeir bjóði fram í sitt hvoru lagi? Hverju munar yfirhöfuð? Spyr sá sem ekki veit. Er það ekki einungis barnalegur þvergirðingsháttur og hugsanlega persónulegar þrætur örfárra sjálfskipaðra „flokkseigenda“ á milli sem hafa valdið því að tveir flokkar með sömu stefnu og sömu markmið innan borgarinnar ætla að fara fram næsta vor í sitt hvoru lagi, báðum aðilum til fylgismissis?

Flokkunum tveimur hefur gengið svo vel að stilla saman strengi sína málefnalega undanfarin ellefu ár í borgarstjórn að mörkin milli borgarfulltrúa þeirra eru með öllu ógreinanleg. Enn þann dag í dag hafa engar málefnalegar þrætur komið upp milli framsóknarmanna og samfylkingarfólks sem gefa tilefni til þess að halda að framboð undir sameiginlegum fána þeirra næsta vor ætti að vera nokkrum vandkvæðum bundið.

Þess vegna væri það hyggilegt af flokkunum tveimur að láta af allri einþykkni og þrjósku og huga þess í stað að hag þeirra sjálfra og borgarbúa sem í undanförnum þremur kosningum hafa skýrt sýnt þann vilja sinn í verki að þeir vilja félagshyggjustjórn í Ráðhúsinu. Báðir flokkarnir hyggja á opin prófkjör í sinni mynd í upphafi næsta árs. Hægðarleikur væri að slá prófkjörum flokkanna saman á þeim tíma og leyfa borgarbúum að velja til orrustu sterkan lista til að skora íhaldið á hólm. Framsóknarmenn þyrftu ekki að hafa áhyggjum af rýrum hlut sínum frá því prófkjöri með fólk eins og Björn Inga í fremstu víglínu enda nánast fullvíst að fjölmörgum öðrum en heitustu frömmurum þætti gríðarlega góður liðsauki í Birni Inga, einum efnilegasta stjórnmálamanni landsins um þessar mundir. Gott ef í honum gæti ekki leynst framtíðarleiðtogaefni innan borgarinnar.

Slík breiðfylking miðsækins félagshyggjufólks ætti góðan möguleika á því að slá öll þau vopn úr höndum sjálfstæðismanna sem þeir halda á þessa stundina. Ákveði fólk af einhug og krafti að hella sér í slíka samvinnu þá er allt eins víst að vörn vinstri manna í Reykjavík geti breyst í nýja stórsókn á næstu mánuðum sem jafnvel gæti skilað hreinum meirihluta næsta vor.

Nú er lag!

Birtist á Sellunni 11. nóvember 2005.

26.8.05

Drögum söguna fram í dagsljósið

Það þurfa ekki allar aðgerðir sem miða að því að draga fólk að miðbæ Reykjavíkur að kosta mikinn pening eða fyrirhöfn. Í sumar hafa söfn Reykjavíkurborgar til að mynda staðið fyrir sameiginlegri dagskrá undir yfirheitinu Kvöldgöngur í Kvosinni þar sem boðið hefur verið upp á göngur um miðbæ Reykjavíkur undir leiðsögn öll fimmtudagskvöld. Það er skemmst frá því að segja að mæting í þessar göngur hefur verið langt yfir væntingum og þátttakendur hafa verið mjög áhugasamir um þær hliðar borgarlífsins sem dregnar hafa verið fram í hverri göngu fyrir sig. Í kjölfarið hefur hins vegar vaknað sú spurning hvers vegna ekki sé gert meira af svo góðu til þess að draga fram menningu og sögu miðbæjarins og gera hana sýnilegri almenningi oftar en bara eina og eina kvöldstund?

Sjálfur naut ég þeirrar gæfu að skipuleggja og fara með leiðsögn í einni af þeim göngum sem farnar voru í sumar. Efni þeirrar göngu var slóðir karlkyns skálda í miðborg Reykjavíkur frá árdögum kaupstaðarins til okkar daga (svipuð „kvenkyns“ ganga var farin fyrr um sumarið). Við skipulagningu þessarar göngu opnaðist fyrir mér heill heimur merkilegra frásagna af Reykjavíkurskáldum allra tíma og á mig fór að leita sú spurning hvers vegna því er ekki haldið betur á lofti hversu merkilega sögu ýmis hús og staðir í miðbæ Reykjavíkur hafa að geyma.

Það eru til að mynda fordæmi fyrir því í borgum erlendis að utan á merkisstöðum séu skilti þar sem vegfarendur geta fræðst um þá miklu sögu sem tengist viðkomandi byggingu eða viðkomustað. Í Stokkhólmi eru til dæmis skilti á víð og dreif um borgina þar sem staðir sem hafa verið notaðir sem sögusvið bókmennta eru sérstaklega merktir og með fylgir textabrot úr viðkomandi bókmenntaverki. Annað dæmi er París þar sem markverðir staðir úr sögu borgarinnar eru einnig merktir á svipaðan máta.

Það ætti að vera hægðarleikur að leika þetta eftir í Reykjavík. Borgin þyrfti ekki einu sinni að leggja í kostnað við það að semja efni á skiltin eða að skilgreina efnisflokka því að þegar liggur fyrir mikil vinna starfsfólks safna borgarinnar sem undanfarin ár hefur bæði sett saman efni fyrir bæklinga og göngur undir leiðsögn sem einkum snýr að miðbænum. Það efni hefur snúið að miðbænum sem sögusviði skáldsagna, miðbæjarljóðum, ljósmyndasögu borgarinnar, styttum bæjarins og skáldaslóðum – svo að eitthvað sé nefnt.

Það þyrfti þess vegna ekki annað en að taka einfaldlega þann texta sem þegar er fyrir hendi (og aðlaga örlítið ef þarf), grafa hann á skilti og koma þeim svo fyrir á íslensku og ensku við merka staði í miðbænum. Þar með gætu vegfarendur um miðbæinn til dæmis fræðst um hvar Steinn Steinarr hafði fyrir venju að sitja inni á Hressó, hvar á Spítalastígnum skáld komu saman og Vefarinn mikli og Bréf til Láru voru hvort tveggja lesin upp í fyrsta skipti í handriti og hvar á Grundarstígnum Einar Benediktsson hírðist á sínu versta niðurlægingarskeiði. Eins mætti til að mynda hafa textabrot úr Tímaþjófi Steinunnar Sigurðardóttur við sögusviðið Menntaskólann í Reykjavík og annað við Tjarnarbakkann þar sem Halldór Laxness staðsetti Brekkukotið í Brekkukotsannál sínum.

Þetta ofureinfalda og ódýra verk myndi verða til þess að draga fram í dagsljósið það sem einmitt er styrkur miðbæjar Reykjavíkur; það er saga hans og menning og hlutverk hans sem vettvangur stórtíðinda og stórmenna þessa lands í gegnum tíðina. Ekki veitir miðbænum af slíkri upplyftingu.

Birtist á Sellunni 26. ágúst 2005

29.7.05

Allt betra en íhaldið?

Því er stundum haldið fram að hugmyndafræðilegur ágreiningur milli Reykjavíkurlistans og Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur sé sama sem enginn og að deilur þessara afla séu í raun aðeins hlutverkaleikur stjórnar annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar. Síðustu daga hefur innkoma Gísla Marteins Baldurssonar í umræðuna um borgarmál hins vegar orðið til þess að skerpa mjög á þessum hugmyndafræðilega mun fylkinganna tveggja.

Gísli Marteinn hefur í vikunni fengið tvö gullin tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum og sinna manna á framfæri; fyrst í Kastljósþætti í upphafi vikunnar og síðan í forsíðuviðtali Blaðsins við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í gær. Í báðum tilvikum kom skýrt í ljós munur á málefnalegri afstöðu og framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins og Reykjavíkurlistans.

Borgarbragur eða bílastæðaflæmi
Reykjavíkurlistinn vill búa til borgarbrag með því að leggja áherslu á þéttingu byggðar þar sem sterkur og þéttur borgarkjarni leikur lykilhlutverk. Sú þétting helst svo í hendur við eflingu almenningssamgangna og það markmið að gera þær að raunhæfum valkosti fyrir borgarbúa. Fyrirmyndin er evrópskar borgir með iðandi mannlífi og hagkvæmu og mannvænu borgarskipulagi.

Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar borg í anda bandarískra bílastæðaborga, flæmi á borð við Houston eða Los Angeles. Í hans framtíðarskipan er flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni, almenningssamgöngur eiga aðeins að vera fyrir lífeyrisþega og börn en annars á hver einstaklingur að aka um á sínum einkabíl og borgaryfirvöld eiga fremur að auka þá ofurþjónustu sem fyrir er við einkabílinn heldur en hitt. Það á sem sagt að vera alveg gulltryggt að allir geti örugglega bætt þriðja eða fjórða bílnum á bílskúrsplanið sitt og ekið á honum um alla borg án þess að lenda nokkurs staðar í umferðarteppu - ekki einu sinni á álagstímum. Það er algjört forgangsatriði í bílaborg Sjálfstæðisflokksins.

Stuðningsfólk bættrar borgarmenningar og þéttingar byggðar hefur vissulega oft gagnrýnt R-listann réttilega fyrir það að standa sig oft og tíðum fremur illa í því að framkvæma stefnu sína um breytt og betra borgarskipulag og stundum virðist farið í þveröfuga átt, samanber hina fjarstæðukenndu tilfærslu Hringbrautarinnar. Hins vegar hefur ýmsu verið þokað í rétta átt og stefnan er í það minnsta fyrir hendi.

Áframhald á ógöngum
Hjá Sjálfstæðisflokknum er hins vegar engin heildarstefna í þessa átt og málflutningur borgarfulltrúa hans gengur beinlínis í berhögg við hugmyndir um bættan borgarbrag og viðsnúning frá þeim ógöngum sem borgarskipulag Reykjavíkur hefur verið í um áratugaskeið. Í þeirra borgarstjórn munu almenningssamgöngur einungis snúast um þarfir 4% núverandi viðskiptavina þeirra - hvernig svo sem þær áherslur eiga að tryggja þeim áframhaldandi grundvöll og tekjur. Áfram verður peningunum svo fyrst og fremst sóað í fleiri mislæg gatnamót, sem bráðum verða þá upp á fimm hæðir ef fram heldur sem horfir og halda áfram að háma í sig dýrmætt byggingarland allt í kringum sig.

Stuðningshvatning úr óvæntri átt
Um nokkurt skeið hef ég borið sífellt minni hug til Reykjavíkurlistans sem eitt sinn var mér svo kær. Það samstarf virðist óðum vera að breytast í flokkseigendaklúbb og hræðslubandalag þar sem hlutföll flokkanna endurspegla þar að auki á engan hátt stuðning við þá flokka sem að R-listanum standa.

En Gísli Marteinn Baldursson má þó eiga það að hann á heiðurinn af því að vera fyrsti maðurinn í langan tíma sem fær mig til þess að íhuga stuðning við R-listasamkrullið allt saman í kosningum á næsta ári - þó ekki væri nema að forða Reykjavík frá áframhaldi á skipulagsslysi í stað viðsnúnings frá því. Kannski það sé bara ekki innantómur frasi eftir allt saman að allt sé betra en íhaldið?

Best væri nú samt að fá bara góðan þriðja valkost til þess að losna við þá bölvun að neyðast til þess að kjósa slappan lista bara til þess að forðast eitthveð enn þá verra.

Hvað með Höfuðborgarsamtökin? Kannski maður setji bara traust sitt á að þau reyni aftur - í þetta sinn ekki bara með frábæran málstað, heldur einnig frambærilega fulltrúa til að tala fyrir honum.

Birtist á Sellunni 29. júlí 2005.

15.7.05

Vonarneistar

Þess var minnst í vikunni að tíu ár eru liðin frá hrikalegustu fjöldamorðum í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar að sveitir Bosníu-Serba drápu þúsundir bosnískra múslima með aðstoð hollenskra friðargæsluliða í bosníska bænum Srebrenica. Fjöldamorðin voru viðurstyggilegasti atburður borgarastríðsins alls á Balkanskaganum og hvöttu alþjóðasamfélagið til mun meiri íhlutunar og harðari aðgerða gagnvart Bosníu-Serbum en beitt hafði verið fram að því.

Enn þá logar hatur
Ekki er að undra þó að enn þá logi hatur á milli þjóðarbrota í Bosníu enda ekki hlaupið að því að græða þau sár sem fjöldamorðin í Srebrenica og önnur illvirki stríðsins í Bosníu ollu. Enn þá gætir fjölmennt alþjóðlegt herlið friðarins í landinu og yfirstjórn Bosníu er að miklu leyti í umboði fjölþjóðlegra stofnana – einkum Sameinuðu þjóðanna.

Bjartsýni og svartsýni
Nú á vordögum vann ég að mastersritgerð um frammistöðu Sænsku þróunarsamvinnustofnunarinnar (Sida) í ákveðnum uppbyggingarverkefnum í Bosníu. Í samtölum mínum við málkunnugt fólk fór það mikið eftir því við hvern var rætt hvernig þeir hinir sömu skynjuðu ástandið á milli þjóðfylkinga í Bosníu. Sumir vildu halda því fram að allt myndi fara í bál og brand aftur um leið og friðargæsluliðar myndu hverfa úr landi en aðrir þóttust sjá merki friðar og sátta í samskiptum fólks á milli í landinu.

Friðsamleg samskipti og gagnkvæm virðing
Ein vísbending um það að ástæða væri til bjartsýni var króatísk viðhorfskönnun sem ekki enn hefur verið gerð opinber en ég fékk í hendur frá Sænsku þróunarsamvinnustofnuninni og verður notuð í mati á starfi stofnunarinnar í Bosníu sem kemur út nú síðar í sumar. Þar var meðal annars kannað viðhorf meginþjóðarbrotanna þriggja í landinu (Bosníu-Serba, Bosníu-Króata og bosnískra múslima) hvers til annars.

Niðurstöður könnunarinnar voru meðal annars þær að nánast allir svarendur (87-97% aðspurðra) sögðust annað hvort bera virðingu fyrir eða hafa ekkert á móti fólki af öðrum þjóðarbrotum í landinu. Langflestir þátttakenda sögðust einnig koma friðsamlega fram við fólk af öðrum þjóðarbrotum og þegar spurt var hvort fólk tryði því að þjóðarbrotunum í Bosníu myndi takast að búa saman í sátt og samlyndi þá var 83-90% úrtaksins á því að svo myndi vera.

Örlar þó enn á tortryggni
Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður örlar þó greinilega enn á tortryggni sumra. Enn þá er allt að fjórðungur og upp í helming aðspurðra – breytilegt eftir þjóðarbrotum – á því að þeir finni einungis til öryggistilfinningar ef þeir búa á svæðum þar sem þeirra þjóðarbrot er í ráðandi stöðu.

Stríðsæsingur elítunnar eða kraumandi hatur?
Allt í allt studdi könnunin frekar við bakið á því mati að borgarastyrjöldin hefði frekar byggt á stríðsæsingi leiðtoganna fremur en innibyrgðu hatri meðal alþýðu fólks. Vonandi gefur hún rétta mynd af stöðu mála nú áratug eftir að stríðinu í Bosníu lauk þó að þess beri vissulega að geta að þetta var aðeins ein könnun og að hinn virkilegi prófsteinn á það hversu vel fólki myndi ganga að eiga friðsamleg samskipti kæmi ekki fyrr en friðargæsluliðið hyrfi úr landi og landsmenn sjálfir þyrftu að slíðra sverðin án utanaðkomandi hjálpar.

Því miður virðist sú stund ekki enn þá vera upp runnin þrátt fyrir einstaka vonarneista sem vonandi fjölgar með árunum.

Birtist á Sellunni 15. júlí 2005.

10.7.05

Punktar um hryðjuverkin í Lundúnum

Hér er fjallað um óvönduð vinnubrögð á RÚV, mismikinn náungakærleik og réttlætingu ofbeldisverka í punktum um hryðjuverkin í Lundúnum í vikunni.

• Óvönduð vinnubrögð á RÚV
Hvurslagt fréttamennska er það hjá Ríkissjónvarpinu (lesist: hjá Ólafi Sigurðssyni) að þrástagast á því í skjátexta og frétt af sökudólgum árásanna að „Múslimar séu að verki“? Á þetta að stuðla að auknum skilningi menningarsvæða á milli eða að slá á þá fordóma að fólk ákveðinnar trúar eigi í eðli sínu til að grípa til jafn villimannslegra hluta og fjöldamorða á saklausum borgurum? Man einhver til þess að hafa lesið fyrirsögnina „Kristnir að verki“ þegar að fólk kristinnar trúar hefur framið viðurstyggilega glæpi? Ekki ég, að minnsta kosti.

• Um mismikinn náungakærleik
Er það óeðlilegt að athygli okkar beinist frekar að hryðjuverkum sem framin eru í Lundúnum en til að mynda í Írak? Svarið er sjálfsagt bæði; já og nei. Auðvitað er ákveðin hræsni og tvöfeldni í því fólgin að mörg okkar hrökkvi frekar við þegar að sprengjur springa í Lundúnum en í Bagdað. Það segir vitanlega ákveðna sögu um skeytingarleysi okkar gagnvart örlögum þeirra sem búa utan hins verndaða forréttindasamfélags hins Vestræna heims.

Hins vegar er þetta ekki alveg svona einfalt. Það þarf ekki endilega að vera óeðlilegt að okkur varði frekar það sem gerist í London en annars staðar. Ekki hefur okkur Íslendingum til að mynda þótt það óeðlilegt að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafi fyrst og fremst látið það sig varða að aðstoða okkur þegar yfir okkur hafa dunið náttúruhamfarir. Að sama skapi þarf það ekki endilega að vera merki um botnlausa hræsni að okkur bregði frekar við þegar að sprengingar verða í heimsborginni Lundúnum.

Fyrir utan það að borgin sé innan okkar seilingar landfræðilega þá dvelst ávallt fjöldi Íslendinga í borginni, margir Íslendingar þekkja þar að auki vel til borgarinnar og borgarbúa og samskipti Íslands og Bretlands eru þar að auki mikil og góð. Það er einfaldlega í mannlegu eðli að óttast fremur um þá sem manni eru nákomnir en aðra - sama hversu einhverjum kann að þykja það hljóma hráslagalega. Íslendingar höfðu því fulla ástæðu til þess að veita árásunum mikla athygli. Hitt er annað mál að við mættum svo sannarlega standa okkur betur í því að setja okkur inn í aðstæður stríðshrjáðra þjóða í fjarlægari löndum og álfum.

• Ofbeldi réttlætt
Hverju sætir þegar sum okkar hér á Vesturlöndum hafa gengið svo langt í sjálfsgagnrýni sinni að þau eru farin að kenna okkur sjálfum og leiðtogum okkar um hryðjuverkaárásir eins og þær sem dundu yfir Lundúnir í vikunni? Vissulega má segja að bræðralag hinna viljugu (eða vígglögðu, eins og Steingrímur J. Sigfússon hefur stundum kallað það) eigi sinn þátt í því að gefa öfgafullum öflum tilefni til þess að nota innrásina í Írak sem átyllu fyrir voðaverkum eins og þeim í Lundúnum í vikunni. Vissulega var búið að vara við því að aðferðir hins viljuga bræðralags í baráttunni gegn hryðjuverkum myndu leiða til þveröfugrar niðurstöðu.

En þrátt fyrir þetta allt saman er einum of langt gengið þegar að ákveðnir aðilar eru farnir að sýna því fullan skilning og leggja jafnvel sumir blessun sína yfir að það megi stunda miskunnarlaus fjöldamorð á saklausu fólki - bara ef manni er nógu mikið niðri fyrir. Þeir sem slíku halda fram eru ekkert betri en Bush og aðrir öfgafullir hægri-extremistar sem finnst að ofbeldisfull hefnd jafngildi réttlæti. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt og þeir sem því beita eru alltaf í órétti.

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að benda á ádrepu blaðamannsins Nicks Cohen Guardian í dag í dag þar sem hann gerir einmitt þetta að sínu umtalsefni. Vert er að benda á að Nick Cohen stendur til vinstri við Tony Blair og er, þrátt fyrir þessa grein, einhver harðasti og þekktasti gagnrýnandi forsætisráðherrans sem fyrirfinnst á Bretlandi. Hann verður því ekki sakaður um að tala þarna eftir einhverri flokkslínu eða af fylgispekt.

Birtist á Sellunni 10. júlí 2005.

26.6.05

Ok karlmennskunnar

Eitt af því sem einkennir Svía er hversu ofboðslega mikið þeir velta hlutunum fyrir sér og grandskoða allt ofan í kjölinn. Stundum finnst Íslendingnum þessi árátta þeirra ganga ögn út í öfgar og bíður þess bara að þeir drífi hlutina af í stað þess að þurfa að diskútera þá út í hið endalausa. En þetta hefur líka vissulega sínar mörgu góðu hliðar, meðal annars þegar kemur að þeim sterílíseruðu kynjamyndum sem Svíar hafa náð nokkrum árangri í að afbyggja með því að kafa markvisst ofan í viðfangsefnið og halda stöðugt við í umræðunni.

Fyrir vikið ber meira á því í Svíþjóð en til að mynda á Íslandi að fólk fái að vera eins og það er í stað þess að á það séu lagðar þær kröfar að það uppfylli einhverja heildarímynd hvors kynsins fyrir sig. Sænskir karlmenn halda þannig frekar sinni karlmennsku óskertri, jafnvel þó að þeir viti ekkert hvað leynist undir vélarhlíf bíls eða hver er fyrirliði hollenska landsliðsins í fótbolta. Einhvern veginn verður þetta til þess að minna verður um rembing, gorgeir og hranaleg samskipti en til að mynda hér á landi þar sem enginn vill sýna á sér þau veikleikamerki að hann sé ekki alvöru karlmenni sem getur snarað Húsafellshellunni með annarri og líður hvergi betur en uppi á togaradekki í ofviðri úti á Barentshafi.

Það er því ekki úr takti við umræðuna í Svíþjóð að þar komi fram ungur karlkyns blaðamaður og skrifi heila bók (stutta, að vísu) um heim karlmennskunnar. Hér er um að ræða bókina Med uppenbar känsla för stil eftir blaðamanninn Stephan Mendel-Enk. Stephan þessi hafði meðal annars skrifað um ýmis karlmennskutengd efni, eins og íþróttafréttir, þegar að hann fór að velta því fyrir sér hversu djúpt ýmsar karlmennskuímyndir rista.

Hann hefur leit sína að rótum karlmennskunnar í bók sinni á því að fara ofan í kjölinn á fyrirbærinu húlíganisma í kringum fótbolta og hvort ofbeldisdýrkun húlígana væri í raun eins einangrað fyrirbæri og margir vilja gjarnan halda fram eða hvort að ofbeldisdýrkunin væri í beinum tengslum við kúltúrinn í heimi knattspyrnunnar yfirleitt. Hann kemst að því að húlíganisminn er ekki eins afmarkað fyrirbæri og flestir vildu vera láta. Alls staðar innan knattspyrnuheimsins sé þeim flíkað sem sýna hörku; grófir leikmenn eru „baráttuglaðir“ meðan að þeir sem að hoppa upp úr tæklingunum eru „prímadonnur“ og svo framvegis.

Áfram heldur Mendel-Enk að rekja sama kúltúrinn og ræðir meðal annars hversu snemma á lífsleiðinni kynjunum eru innprentuð mjög stíf kynjahlutverk. Hver hefur til dæmis ekki orðið vitni að því þegar að talað er til nýfæddra barna þar sem strákarnir eru „algjörir grallarar“ en stelpurnar „litlu sætu prinsessurnar“? Höfundur nefnir meðal annars hina íslensku Hjallastefnu Margrétar Pálu til sögunnar sem fyrirmyndardæmi um hvernig vinna megi í því að brjóta þessar kynjaímyndir allar niður.

Niðurstaða bókarinnar er fremur sorgleg fyrir karlmenn sem aldir eru upp í samfélagsímynd síðustu áratuga. Þeir eru fangar einhverra þröngra hugmynda um líkamleg og andleg hörkutól sem finnst hommalegt að faðmast og aumingjalegt að gráta og bjánalegt að opna sig og ræða hlutina opinskátt nema bara þegar það brýst út í reiðiköstum eða slagsmálum. Bókin sýnir manni það svart á hvítu að jafnréttisbaráttan er ekki nema bara rétt að byrja og að ekki hefur tekist að brjóta niður nema bara obbann af þeim karlmennskuklisjum sem allir karlmenn eiga að standa undir, hvort sem þær henta þeim eður ei. Bókin sýnir manni líka fram á að jafnréttis- og kvenfrelsisbaráttan gagnast karlmönnum ekki síður en konum vegna þess að með því að frelsa kynin undan oki kynjaímyndanna þá fær hver einstaklingur að blómstra út á þá eiginleika sem hann raunverulega hefur til að bera – algjörlega óháð því hvort þeir tengjast járnabindingum eða bleyjuskiptum.

Að bókinni má ef til vill það finna að það skortir örlítið á frumlega greiningu hjá höfundi hennar og á stundum hengir hann sig fullmikið í nýmóðins viðteknar niðurstöður um allsherjarsýn á ímyndir kynjanna. Það er sérstaklega slæmt í bók sem ætlar sér það að berjast gegn ríkjandi klisjum að grípa þá bara til annarra og nýrri í staðinn algjörlega gagnrýnislaust og án nokkurs efa.

Med uppenbar känsla för stil er annars gott framlag í umræðuna um sterílar kynjaímyndir samtímans og sýnir okkur kannski helst hversu þessar ímyndir eru enn þá ríkjandi á tímum þegar að margir hafa meira að segja haldið því djarflega fram að slíkar ímyndir séu einungis hluti af fortíðinni. Bókin sýnir að því miður er það fjarri sanni. Í rauninni erum við ekki komin lengra en svo að við séum rétt byrjuð að gera okkur grein fyrir umfangi vandans. Og þá á meira og minna eftir að vinna alla vinnuna sjálfa. Það er því eins gott að byrja strax.

Birtist á Sellunni 26. júní 2005.

31.3.05

Svefnbærinn með frábæra útsýninu

Sá frasi heyrist oft, bæði hjá stjórnmálamönnum og öðrum, að Reykjavík verði að berjast fyrir unga fólkinu sínu til þess að það flytjist ekki úr landi og leiti hófanna annars staðar þar sem betur er búið að því. Lengi vel var ég ekki viss um það hvort hér væri um innistæðulausar klisjur að ræða eða bitran sannleik. Nú hef ég reynt það á eigin skinni að hér er því miður um bitran sannleik að ræða. Mér þykir vænt um borgina mína, Reykjavík. En ég veit ekki hvort ég gríp of sterkt til orða ef að ég segi að mér hálfbjóði við því að búa þar við núverandi kringumstæður.

Ég flutti þaðan og til útlanda síðasta sumar og ég er ekki á leiðinni heim aftur í bráð. Ég veit svo sem ekki hvað framtíðin mun bera í skauti sér en ég verð að segja að það freistar mín ekki á nokkurn hátt að snúa aftur til borgar sem ber meiri umhyggju fyrir bílunum sínum en fólkinu sínu og heldur áfram að dreifa byggðinni upp eftir Esjunni í stað þess að þétta byggðina þar sem hún er fyrir.

Enn þá síður leitar hugur minn heim þegar mér finnst ég komast að þeirri staðreynd að flestir Reykvíkingar séu reyndar alls ekki svo ósáttir við ástandið. Ég er stundum alls ekki viss um að það sé endilega staðfastur vilji borgarbúa að sjá flugvöllinn fara, mörgum virðist einhvern veginn vera nokkuð sama. Meira að segja borgarstjórinn virðist hafa gengið á bak fyrri orða í flugvallarmálinu. Allt of oft finnst manni líka slegið á hugmyndir um þéttingu byggðar og bætta borgarmenningu sem einhvers konar kvabb í „101 bóhemum" eða „kaffihúsaspeki". Þannig er sérfrótt fólk og víðsýnt afgreitt og þessi er nú oft trú Íslendinga á gildi þess að víkka sjóndeildarhringinn og taka málefnalegum rökum.

Fólk virðist heldur ekki sjá neitt stórkostlega athugavert við það að Reykjavík sé borg þar sem það kostar mikið erfiði að fara erinda sinna án þess að hafa ávallt yfir einkabíl að ráða. Almenningssamgöngur eru í rúst – það er raunar varla hægt að tala um að þær séu til í Reykjavík. Þær lenda í vítahring; búa við illmögulegar aðstæður vegna gisinnar byggðar og eru þar af leiðandi illa nýttar og eru þar af leiðandi ónothæfar nema fyrir þá sem mega vera að því að vera vel á annan klukkutíma á milli hverfa í þessum hundrað þúsund manna bæ.

Við þetta bætist svo það sem Salvör Jónsdóttir sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar talar um í Lesbókarviðtali við Þröst Helgason í miðjum síðasta mánuði. Það er að þó að fólk tali fjálglega um nauðsyn þéttingar byggðar og bætta borgarmenningu þá strandar oft allt saman þegar kemur að okkur sjálfum. Þetta er fyrirbrigði sem í skipulagsfræðum kallast NIMBY-ismi (Not in My Back Yard) og snýst um vilja til þess að breyta – bara ekki í næsta nágrenni við mig!

Þá breytumst við í frekjur og sveitaþursa og förum að líta á það sem einhvers konar mannréttindabrot að hafa ekki fullkomið og óskert útsýni yfir allan Faxaflóafjallahringinn og svo Álftanesið og Keili hinum megin. Eins og að í borg eigi maður fullkominn rétt á því að þurfa ekki að horfast í augu við önnur hús út um gluggann og hvað þá að neyðast til þess að mæta öðru fólki. Sama gildir um alla þrjá bíla heimilis, þar af tvo jeppa, sem auðvitað verður að tryggja bílastæði í götunni og baklóðina sem sólin verður að skína á frá upprisu til sólarlags.

Kannski er ég í einhverju svartsýniskasti þessa stundina en einhvern veginn sýnist mér þetta einstrengingslega og heimtufreka hugarfar vera allt of ráðandi í Reykjavík til þess að nokkru verði þar þokað af viti næstu árin eða jafnvel áratugina. Reykjavík verður því áfram gisin og ljót eins og smábær í Alaska þar sem hver og einn á sér sinn sveitabæ í friði fyrir næsta manni, enginn þarf að lenda í þeim ósköpum að mæta nágranna sínum, allir fá að sjá Esjuna út um eldhúsgluggann og allir fá bíl og bílskúr utan um hann. Og allir eru glaðir og við getum haldið áfram upp eftir Esjunni með ný og ný lóðaútboð. Þangað til við erum komin útboði Esjutoppshverfisins með þessu líka frábæra útsýninu yfir Álftanesið og Keili. Því það er jú það sem skiptir máli í borg.

Er það ekki?

Birtist á Sellunni 31. mars 2005.

10.2.05

Flóttamenn án kosningaréttar

Þegar ég skrapp til Kaupmannahafnar upp úr miðjum síðasta mánuði voru ekki nema örfáir dagar síðan að Anders Fogh Rasmussen hafði óvænt boðað til þingkosninga í Danmörku. Flokkarnir virtust hafa brugðist fljótt við og þá kannski helst stjórnarflokkarnir sem eðlilega voru viðbúnari þessari flýtingu en stjórnarandstaðan. Teinrétt andlit Foghs í nánast ógnvekjandi stærð fyllti út í auglýsingaskiltin á strætóstoppistöðvunum og þeir voru orðnir fáir ljósastaurarnir í borginni sem voru hólpnir fyrir pappaspjöldum með myndum af skælbrosandi fulltrúum flokka sem allir lofuðu gulli og grænum skógum.

Þegar ég kom svo aftur við í Köben um síðustu helgi voru þeir ekki hólpnir lengur, þessir fáu ljósastaurar sem áður höfðu sloppið við að bera uppi pólitíska slagorðahríð stjórnar og stjórnarandstöðu. Vel rakaður vanginn á Fogh blasti enn þá við manni á sama yfirþyrmandi hátt á öllum strætóstoppistöðvum - nema að nú höfðu einhverjir nátthrafnar tekið sig til hér og þar og krotað hitlersskegg á forsætisráðherrann. Kannski ekki pólitískt réttmætt að brosa í kampinn yfir slíku athæfi en maður gat samt ekki stillt sig um það.

Öll þessi auglýsingaspjöld, allir dreifimiðarnir sem prangað var upp á vegfarendur á Strikinu eða hitlerskrotið á Fogh breyttu hins vegar engu um niðurstöðuna á þriðjudaginn var, niðurstöðu sem allir vissu fyrir fram. Fogh vann og stjórn hans, bökkuð upp af öfgafullum þjóðernisöflum, heldur velli. Og Danir virðast bara flestir nokkuð sáttir þó að stjórn þeirra hafi markvisst bætt í kynþáttastefnu sína með hverju misserinu sem líður og að ekkert lát virðist þar ætla að vera á. Ekki er í það minnsta annað að sjá af úrslitum kosninganna og ekki verður mikið vart við að meðvitaðir Danir flykkist út á Ráðhústorg eða framan við þinghúsið til að mótmæla þessari ömurlegu þróun.

Skýringanna við skeytingarleysinu er sjálfsagt víða að leita. Þó var bent á eina þeirra í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter á þriðjudaginn var, sama dag og dönsku kosningarnar fóru fram. Þar var sú undarlega staðreynd dregin fram í dagsljósið að þeir Danir sem ef til vill verða hvað mest fyrir kynþáttastefnunni allri, þeir fá ekki einu sinni að kjósa. Dönsk kosningalög virðast nefnilega, ef marka má þessa grein, svipta Dani sem búa í útlöndum, og ekki eru námsmenn eða diplómatar, kosningarétti sínum.

Þetta bitnar meðal annars á þeim Dönum sem hafa undanfarin misseri verið í þeirri fáránlegu stöðu að vera hálfgerðir pólitískir flóttamenn frá heimalandi sínu vegna nýju útlendingalaganna sem kveða á um ákveðnar hömlur þess að mega kvænast manneskju af „framandi“ uppruna. Þessir Danir sem ekki hafa mátt koma með maka sína til heimalands síns hafa margir hverjir keyrt yfir Eyrarsundsbrúna og komið sér fyrir í syðstu byggðum Svíþjóðar. Þeir lenda því í þeirri fáránlegu aðstöðu að þurfa að fórna öðru hvoru, maka sínum eða kosningarétti sem þeir gætu þá hugsanlega nýtt til þess að reyna að koma breytingum til leiðar á útlendingalögunum (sem við Íslendingar, vel á minnst, „kópí-peistuðum“ fyrir ári síðan eins og alræmt varð).

Því er reyndar hvorki haldið fram hér né í greininni í Dagens Nyheter að þessi staðreynd ein og sér hafi skipt sköpum fyrir úrslit dönsku þingkosninganna á þriðjudaginn var. En hún er samt sem áður dæmi um máttleysi þeirra sem fyrir kynþáttastefnunni verða og einnig um þá miklu hraðsiglingu sem dönsk stjórnvöld eru á frá gildum lýðræðis, jafnréttis og mannréttinda í þessu landi sem eitt sinn var sagt vera svo „ligeglad“ á allan hátt.

Birtist á Sellunni 10. febrúar 2005.

29.11.04

Batnandi mönnum er best að lifa

Það er gott til þess að vita að samviskan er farin að naga einn og einn stjórnarliða vegna þess skelfilega gjörnings þeirra að taka þátt í bandalagi hinna svokölluðu „staðföstu ríkja“ um það að fara út í ólögmæta og órökstudda innrás í Írak undir forystu Bandaríkjamanna og Breta.

Smám saman hefur kvarnast úr liði stuðningsmanna innnrásarinnar og ýmsir þeirra sem áttu beinan þátt í ákvörðuninni um innrásina hafa séð að sér og viðurkennt að innrásin í Írak hafi verið hræðileg og óafturkræf mistök sem ekki sér enn fyrir endann á.

Íslensk stjórnvöld hafa hingað til hins vegar reynst kaþólskari en páfinn í skilyrðislausum stuðningi sínum við innrásina misheppnuðu. Þau hafa þráast við og á engu látið bera þó að í ljós hafi komið það sem þorri almennings hefur alla tíð vitað; að rök bandamanna fyrir innrásinni væru blekkingarleikur frá upphafi til enda.

Hjálmar Árnason virðist í það minnsta vera búinn að fá upp í kok því að í Silfri Egils gærdagsins lýsti hann því yfir að hann vilji endurskoða stuðning íslenskra yfirvalda við Íraksstríðið. Þó fyrr hefði verið, segir maður nú bara!

Nú er bara að vona að fleira skynsamt fólk taki sig til og hætti að loka augunum fyrir augljósum staðreyndum málsins. Ekki verður til dæmis öðru upp á félagshyggjufólkið Dagnýju Jónsdóttur og Kristin H. Gunnarsson trúað en að þau geti nú fallist á það að tími sé til kominn að við Íslendingar hættum stuðningi við ólögmætan og órökstuddan yfirgang okkar, hinna staðföstu þjóða, á saklausri íraskri alþýðu.

Þá er ekki annað að gera en að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi þar sem ríkisstjórn Íslands verður svipt umboði til áframhaldandi þátttöku í ólöglegu stríði í Írak. Atkvæði Hjálmars ætti þar að vera í höfn og með samþykki stjórnarandstöðunnar og fulltingi félagshyggjufólks innan Framsóknarflokksins ætti stuðningur við slíka tillögu að vera tryggður. Fleiri stjórnarþingmenn mættu svo að sjálfsögðu sjá að sér og hoppa um borð.

Þá rynni loks upp sú langþráða stund að íslensk stjórnvöld töluðu röddu þjóðar sinnar sem alla tíð hefur mótmælt harkalega þátttöku stjórnvalda sinna í innrásinni í Írak og aumkunnarverðum og upplognum réttlætingum hennar.

Birtist á Sellunni 29. nóvember 2004.

24.11.04

Þorskastríðin voru ekki stríð

Flestir tengja sagnfræði við það að skýra út liðna atburði og horfna tíma. Færri leiða ef til vill hugann að því að kannski má segja að sagnfræði túlki í raun tvo tíma, þ.e. þann sem hún lýsir en þar að auki gefur hún glögga mynd af þeim viðhorfum sem ríkja á þeim tíma sem hún er skráð. Flestir hafa til dæmis heyrt um Íslandssögu Jónasar frá Hriflu sem dró upp töluvert hetjulitaðri og þjóðerniskenndari mynd af sögu okkar en þá sem við eigum nú að venjast.

Slík söguskoðun, lituð af þjóðerniskennd, er hins vegar langt í frá liðin undir lok. Það er til dæmis ekki fyrr en alveg nýlega að fram eru komnir sagnfræðingar sem túlka Þorskastríðin á annan hátt en þann að Íslendingar hafi verið hinn göfugi lítilmagni deilunnar sem ávallt hafði á réttu að standa en Bretar hafi verið hinn óbilgjarni risi sem níddist miskunnarlaust á minni máttar.

Þar fyrir utan eru fræðimenn dagsins í dag yfirleitt sammála um það að Þorskastríðin hafi alls ekki verið nein stríð. Innan friðar- og átakafræða (peace and conflict studies) eru þau til að mynda í mesta lagi skilgreind sem minni háttar upphlaup. Það er enda erfitt, og nánast smekklaust, að halda því til streitu að sama stríðshugtakið skuli nota um deilu sem hámarkaðist í dælduðum skipskrokkum og klipptum togvírum og um raunveruleg stríð með tilheyrandi hörmungum, eyðileggingu og dauða fjölda fólks.

Þorskastríðin eru samt sem áður af og til nefnd til sögunnar innan friðar- og átakafræða og þá einkum í tengslum við þá kenningu að lýðræðisþjóðir stofni ekki til vopnaðra átaka hver gegn annarri. Þar hafa sumir fræðimenn, sem vilja hafa varann á sér, nefnt Þorskastríðin til sögunnar sem hugsanlega undantekningu frá reglunni, þó lítilvæg sé.

Fáir hafa þó beinlínis farið út í það að gaumgæfa hvort Þorskastríðin eigi yfirhöfuð að teljast til undantekninga frá reglunni um frið milli lýðræðisþjóða. Valur Ingimundarson sagnfræðingur er þó einn þeirra. Í niðurstöðum bókar hans, Uppgjör við umheiminn, telur hann að reynsla Þorskastríðanna dragi mjög úr gildi kenningarinnar um frið milli lýðræðisþjóða. Aðrir eru á öðru máli; úr skrifum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings má til að mynda lesa að ekki sé hægt að tala um Þorskastríðin sem stríð og ástæðuna fyrir því að ekki kom til stríðs megi meðal annars rekja til þess að það voru lýðræðisþjóðir sem áttust við. Þorskastríðin styrki því í raun kenninguna um frið milli lýðræðisþjóða.

Rök Guðna virðast, þegar málin er skoðuð ofan í kjölinn, mun haldbærari — að Þorskastríðin renni stoðum undir kenninguna um frið milli lýðræðisþjóða frekar en að átökin við Íslandsstrendur skuli túlka sem einhvers konar undantekningu frá reglunni.

Þar vegur þyngst að Þorskastríðin voru ekki stríð. Ekkert skip sökk og ekkert mannslát er beinlínis hægt að rekja til átaka á miðunum.* Ekki skal þó gert lítið úr þeim hita sem var í deilunni, sérstaklega frá sjónarhóli Íslendinga enda gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt þjóðarbú. En þrátt fyrir það einsettu báðir aðilar sér það allan tímann að láta deilurnar ekki fara úr böndunum og þróast yfir í raunverulegt stríðsástand.

Það má jafnvel færa fyrir því rök að hið undirliggjandi traust deiluaðila hvor á öðrum hafi verið slíkt að þeim hafi báðum getað liðist að brjóta reglur og norm upp að vissu marki án þess að eiga það á hættu að hinn aðilinn myndi megna það að fara út í valdbeitingu þar sem lífum væri fórnað (þó að vissulega hafi í einstaka tilvikum verið teflt á tæpasta vað). Slíkt hefði einfaldlega ekki liðist í samskiptum lýðræðisþjóða og því virtust báðir deiluaðilar gera sér grein fyrir.

Það verður því að segjast að líklegra er Íslendingar og Bretar (og að litlu leyti einnig V-Þjóðverjar) hafi í raun sýnt fram á að lýðræðisþjóðir halda átökum sínum í skefjum lendi þau í heiftúðugum deilum og leysa sín mál á endanum með gagnkvæmu samkomulagi. Þetta þarf þó ekki að þýða það að kenningin um frið milli lýðræðisþjóða sé hnökralaus eða haldbær til eilífðar eða í öllum tilvikum. En þetta þýðir það þó að um Þorskastríðin gildir það að þau eru ekki undantekning frá reglunni heldur styrkja þau hana í raun í sessi.

*) Eina óbeina tilvikið er þegar að skipverji á Ægi lést af raflosti sem hann fékk er hann vann við viðgerðir á varðskipinu úti á rúmsjó eftir árekstur þess við breska freigátu.


Birtist á Sellunni 24. nóvember 2004.

20.10.04

Mælirinn fullur

Umræðan í sænska knattspyrnuheiminum snýst um lítið annað þessa dagana en ólætin á Råsunda-leikvanginum á mánudaginn var þegar að hópur stuðningsmanna heimaliðsins AIK hleypti öllu í bál og brand eftir að þeirra lið hafði lent undir gegn erkifjendum sínum Hammarby, sunnar úr borginni. Stuðningshópur AIK hefur um langt skeið verið alræmdur langt út fyrir Svíþjóð fyrir dólgshátt og óspektir og ekki hefur skapferli spellvirkjanna skánað við það að AIK hefur gengið allt í mót á þessu keppnistímabili og rær nú lífróður fyrir sæti í deild þeirra bestu á næsta tímabili.

Óspektir daglegt brauð
Fyrir utanaðkomandi knattspyrnuáhugamann, eins og þann sem þetta skrifar, virðist hið alþjóðlega vandamál varðandi óspektir í tengslum við knattspyrnu vera á nokkuð alvarlegu stigi hér í Svíþjóð. Hér er nánast daglegt brauð að fréttir berist um að leikmönnum og þjálfurum berist ískyggilegar hótanir frá reiðum stuðningsmönnum, um daginn fékk til dæmis þjálfari eins liðs logandi hlut inn um svefnherbergisgluggann hjá sér um miðja nótt með þeim skýru skilaboðum að stuðningsmenn óskuðu þjónustu ekki hans lengur.

Á hverju ári eru fjölmörg dæmi um það að leikmenn flýi ekki bara liðið sem þeir spila með, heldur flýi beinlínis land, eftir alvarlegar hótanir frá áhangendum sem á einhverjum öfugsnúnum forsendum halda að á þann hátt séu þeir gera félaginu sínu greiða. Þess fyrir utan er það svo algengt að það telst vart til stórfrétta lengur að hópum stuðningsmanna lendi saman yfirleitt með þeim afleiðingum að fjöldi manns slasast og stórfelld spjöll eru unnin á eignum alls óviðkomandi aðila.

Ekki bend’á mig!
Sænsk knattspyrnuyfirvöld og sænsk félagslið hafa lengi verið sökuð um að sýna mikla linkind í þessum málum. Refsingar til handa spellvirkjunum eru vægar ef þá nokkrar og allir hafa bent á einhverja aðra sem hina raunverulegu sökudólga; knattspyrnusambandið bendir á félögin sem benda sjálf á samfélagið sem svo aftur beinir sjónum sínum að knattspyrnuyfirvöldum og þannig kastar hver ábyrgðinni frá sér og vill sem minnst af ástandinu vita.

Mælirinn loks fullur
Atburðirnir á Råsunda á mánudagskvöldið var urðu hins vegar til þess að mælirinn fylltist hjá flestum. Nú virðast menn loks vera búnir að fá nóg af uppburðarlitlum og á stundum mótsagnakenndum afsökunum íþróttafélaganna. Ef afsökunin um að það sé lítill hópur sem skemmi fyrir meginfjöldanum þá spyrja nú aðrir á móti: Ef þetta er svona lítill hópur þá ætti ekki að vera mikið mál að ná höndum utan um hann og útiloka hann frá knattspyrnuviðburðum í framtíðinni. Segi menn hins vegar að vandamálið sé stórt og mikið og óviðráðanlegt einu knattspyrnufélagi, getur þá kannski verið að ekki sé bara um einhvern lítinn og afmarkaðan hóp að ræða sem er í mótsögn við alla hina?

Langþreyttir knattspyrnuáhugamenn sætta sig nú ekki lengur við slíka þegjandi þögn meirihluta stuðningsmanna, stjórnarmanna og leikmanna AIK. Nú vill fólk sjá raunverulegan og samstilltan vilja allra félagsmanna: að friðelskandi áhorfendur setji sig upp á móti óeirðarseggjum í eigin röðum, að leikmenn hlaupi ekki upp að stæðum húlígana og klappi þeim lof í lófa fyrir stuðninginn og að stjórnarmenn sýni eigið frumkvæði í baráttunni gegn ofbeldi í eigin röðum í stað þess að segja bara að það sé sænska knattspyrnusambandsins að ákveða refsingar í garð félagsins. Sjálfsagt hefði það til dæmis vakið traust á stjórn AIK hefði hún ákveðið að eigin frumvæði að leika fyrir luktum dyrum í næstu umferð í stað þess að bíða dóms sambandsins og vona að það refsi sem minnst og helst ekkert og því þurfi sem minnst að aðhafast.

Lágmarkskröfur um hátterni stuðningsmanna
Ýmsar kvarðar hafa verið settir í alþjóðlegri knattspyrnu hvað varðar umgjörð knattspyrnuleikja. Við Íslendingar höfum fyrst og fremst þurft að huga að bótum á vallaraðstæðum í þessu sambandi en höfum blessunarlega verið lausir við meiri háttar óspektir í tengslum við íþróttaviðburði. Svíar hrósa því miður ekki sama happi. Fjölmörg gefin tilefni hafa orðið til þess að nú þykir mönnum nóg komið.

Nú leggja menn meðal annars til í fúlustu alvöru að setja eigi reglur um að lið þurfi að uppfylla svipuð lágmarksskilyrði til þátttöku í deildarkeppninni um hegðan áhorfenda og gilda um bætur á vallaraðstæðum. Geti félag ekki sýnt fram á allar mögulegar aðgerðir til að hindra óspektir í eigin herbúðum þá fái það einfaldlega ekki keppnisleyfi það árið. Með slíkum reglum myndi háttalag stuðningsmanna loksins fyrirsjáanlega hafa nógu neikvæðar afleiðingar fyrir félagið sjálft. Það yrði kannski til þess að ýta við stjórnarmönnum félaga eins og AIK og þvinga þá til að líta í eigin barm í stað þess að gera lítið úr hlutunum og neita að líta til eigin ábyrgðar á uppkominni stöðu.

Birtist á Sellunni 20. október 2004.

29.9.04

Sópað undir teppi

Í gærkvöld var sýndur fyrri hluti af tveimur í heimildarþáttaröð hér í sænska ríkissjónvarpinu þar sem hulunni er svipt af samskiptum Vänsterpartiet, sænska sósíalistaflokksins, og austurblokkarinnar. Vänsterpartiet á það sameiginlegt með systurflokkum sínum víða um lönd að vera plagaður af kommúnískri fortíð sinni og fornri vináttu við vafasöm öfl. Allt fram til ársins 1990 hét flokkurinn Vänsterpartiet Kommunisterna en flokkurinn hefur þrátt fyrir það haldið því fram að öll vinsamleg tengsl hans við Sovétríkin og austurblokkina hafi endanlega verið fyrir bí árið 1977. Nú hefur hins vegar annað komið í ljós.

Órofin tengsl við austrið
Í þætti gærkvöldsins var sýnt fram á hvernig tengsl flokksins við austurblokkina voru ekki rofin á ofanverðum áttunda áratugnum heldur þvert á móti aukin. Nokkur dæmi má nefna: Sovéskir fulltrúar þögguðu niður tillögu á flokksþingi Vänsterpartiet 1978 þar sem krafist var lýðræðis og frelsis í Austur-Evrópu. Samskiptin við Austur-Þýskaland voru líka mikil, formaður flokksins var tíður gestur í sendiráði A-Þjóðverja í Stokkhólmi á áttunda og níunda áratugnum og á sama tíma fóru ungliðar á vegum flokksins reglulega til starfa hjá austur-þýskum áróðursmiðlum. Ferðir flokksmanna til Austur-Evrópu voru tíðar og allar einkenndust þær fremur af vinarhóti í garð ríkjandi einvalda en tilraunum til þess að bindast samtakamætti við lýðræðissinnuð andspyrnuöfl í löndunum.

Varðhundar einræðiskerfisins
Sumir fengu þó vissulega nóg, gengu úr flokknum eða gagnrýndu valdakerfið í austri. Við slík tækifæri stukku hins vegar aðrir upp til handa og fóta og vörðu kommúnismann með kjafti og klóm. Meðal þessara varðhunda einræðiskerfisins var núverandi formaður flokksins Lars Ohly. Í dag þykist hann hins vegar ekkert af slíku vita og segir jafnframt að ekkert í hans fortíð bendli hann við kommúnistastjórnirnar í austri eða stuðning við þær. Þáttagerðarfólkið virðist hins vegar ekki hafa gleypt við þessum fullyrðingum hans ótuggnum því að í þættinum að viku liðiðnni verður kastljósinu beint að fortíð hans.

Dýrðlingarnir Kim Il-sung og Ceausescu
Eitt eru bein tengsl flokksins við einræðisstjórnirnar í austrinu en annað sá hugmyndafræðilegi stuðningur sem ekki leið heldur undir lok árið 1977, eins og flokkurinn kýs nú í hræsni sinni að halda fram. Flokksmenn, jafnt þeir sem standa í fremstu röð í dag sem og aðrir, dásömuðu ástandið í Norður-Kóreu, Rúmeníu og í fleiri slíkum „fyrirheitnum löndum“ og bölvuðu vestrænum ríkjum fyrir að hafa ekki vit á að koma til valda góðmennum og stjórnvitringum eins og Kim Il-sung og Nicolae Ceausescu. Nú vill enginn þeirra kannast við slík ummæli, roðna bara og fara undan í flæmingi. Segja bara að með því að segja að löndin hefðu verið stórkostleg í alla staði þá hafi þeir sko eiginlega bara hafa verið að meina landslagið og svoleiðis!

Það er því ljóst að sænski vinstriflokkurinn þarf virkilega að þrífa eftir sig óhreinindin í fortíðinni, í það minnsta að koma hreint fram og segja eins og er: að stuðningur þeirra við einræðisherra og illræmt valdakerfi hafi haldist allt fram á hrun kerfisins en ekki endað einhvern tíma miklu fyrr.

Sjá umfjöllun um efni þáttanna á
heimasíðu sænska sjónvarpsins.


Birtist á Sellunni 29. september 2004.