Að hokra einn

Sjálfstæðistal á þráhyggjustigi
Hugmyndafræðin hvílir á gamalgrónum rembingi. Samkvæmt henni á öll samvinna við aðrar þjóðir að vera letjandi og heftandi. Allir utanaðkomandi eru aðeins að málum komnir til að ræna og pretta þá sem fyrir eru. Íslendingar eiga að hafa náð þangað sem þeir náðu af því að þeir gerðu hlutina sjálfir og voru ekki upp á neina aðra komnir. Sjálfstæðið verður að sömu þráhyggju og hjá Bjarti í Sumarhúsum sem lét velferð sinna víkja fyrir þeim hugmyndum sínum að skulda engum neitt og líta á alla aðra sem óvini sína.
Þessi hugmyndafræði á sér enn þá formælendur sem best sést hjá Heimssýn, nýstofnuðum samtökum gegn aðild Íslands að ESB. Enn og aftur eru þau rök dregin fram að Íslendingum farnist best með sem minnstri aðstoð eða samvinnu. Í yfirlýsingu samtakanna segir meðal annars: „Einstakur árangur fámennrar þjóðar væri óhugsandi nema fyrir það afl sem felst í sjálfstæðinu.“ Þessi orð lykta mjög af málefnaflutningi talsmanns samtakanna, Ragnars Arnalds.
Heimssýn Ragnars Arnalds
Ragnar hefur um árabil þrástagast á „sjálfstæði“ í öllum sínum málflutningi og minnir á tíðum á fyrrnefndan Bjart, nú eða bara heittrúaðan nýfrjálshyggjumann sem engu vill lúta og engum treystir nema bara sjálfum sér. Það verður að líta svo á að sjónarmið Ragnars endurspegli að einhverju það sem samtökin standa fyrir. Raunar hefur ekkert frá þeim borist annað en heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu með stuttri og mjög almennri yfirlýsingu sem síðan er endurbirt óbreytt á heimasíðu samtakanna. Þannig að öll þeirra opna umræða er ekki mjög langt komin. Vonandi þó að styttist í hana.
Ragnar Arnalds vildi hvorki að Íslendingar yrðu aðilar að EFTA né EES. Reyni hann að halda því fram í dag að Íslendingum hafi orðið á mistök með undirskrift þeirra samninga hlýtur hann að vera algjörlega einn um það. Meðal meginraka Ragnars gegn aðild að ESB (og EFTA og EES og NATO) hafa verið fyrrnefnd sjálfstæðisrök. Hann reynir að slengja fram trompi með því að segja að Íslendingar hefðu til dæmis aldrei getað fært út fiskveiðilögsöguna nema af því að þeir stóðu einir og lutu ekki valdi neinna annarra. Þessi málatilbúnaður er með eindæmum einfeldningslegur og engan veginn til lykta leiddur. Hann gleymir því til dæmis (eða sleppir að taka það fram) að Íslendingar fengu sínu að mestu framgengt einmitt vegna stöðu sinnar innan annarra alþjóðasamtaka, NATO, sem Ragnar er vitanlega líka á móti.
Talsmaður Heimssýnar er nú þegar farinn að tala fyrir hönd samtakanna með áðurnefndum röksemdafærslum. Endurspegli þær heimssýn hreyfingarinnar í heild er ljóst að málefnaflutningur gegn aðild Íslands að ESB verður því miður á sömu fátæklegu nótunum áfram.
Birtist á Pólitík.is 12. júlí 2002.
1 Comments:
parf ad athuga:)
Skrifa ummæli
<< Home