28.6.02

Hert á hnútnum

George W. Bush hefur fengið að heyra það oftar en einu sinni, síðan hann varð forseti Bandaríkjanna, að þekking hans á alþjóðastjórnmálum sé harla lítil. Ýmsar sögur hafa verið lífseigar, eins og sú að hann hafi ekki komið til útlanda fyrr en eftir að hann tók við forsetaembættinu. Hún er uppspuni frá rótum, eins og svo margar aðrar. Það verður reyndar að segjast að Bush virðist ekkert vera allt of klár á alþjóðalandslaginu. Hann er hins vegar með þrautreynda jálka á bak við hverja ákvarðanatöku sína og því eru engin stefnumið hans komin til af tilviljun.

Þó hvarflar það að manni í fyrstu að forseti Bandaríkjanna vaði nokkurn reyk með margumtalaðri ræðu sinni fyrr í vikunni um málin fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann virðist nefnilega í fljótu bragði ætla sér að leysa hnútinn með því að herða hann. Bush og hans lið hafa hins vegar sínar ástæður fyrir ákvörðuninni. Hún er samt sem áður öfugsnúin og alveg hreint með eindæmum vitlaus ef hún er hugsuð til enda.

Það virðist helst vaka fyrir haukunum í Hvíta húsinu að þau markmið sem boðuð eru í ræðunni séu einhvers konar liður í baráttu þeirra gegn hryðjuverkastarfsemi út um allan heim. Þeir halda enn að aðferðin til að sefa reiði vonlausra og svívirtra Palestínumanna sé að opna enn gáttirnar fyrir blóðhundinum Sharon og hyski hans til að kynþáttastefna hans gagnvart þeim sem fyrir voru nái enn frekar fram að ganga.

Sjálfur Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, áttar sig meira að segja á því að útkoman verður líklega enn meira blóðbað. Að sjálfsögðu - en ekki hvað?! Palestínska þjóðin er úrkula vonar. Ísraelsmenn eru svo gott sem búnir að rústa öllum innviðum palestínsks þjóðfélags, þeir þverbrjóta öll samkomulög og setja fram kröfur sem þeir vita að enginn möguleiki er að staðið verður við, til þess að þeir geti þjösnast lengra og lengra á „lögmætan“ hátt. Núverandi stjórn Bush hvetur Ísraelsmenn dyggilega áfram og hefur í seinni tíð fremur blásið í seglin en hitt. Allt þetta heldur stjórn Bush að virki jákvætt í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og öðrum örvæntingarfullum aðgerðum fólks í nauð. Það er eins og enginn þarna í Vesturálmunni hafi heyrt um sambandið milli orsakar og afleiðingar.

Á sama tíma heldur Bush að hann geti biðlað til palestínsku þjóðarinnar og beðið hana um að kjósa sér leiðtoga hliðhollan þessari þvermóðskufullu hægri stjórn hans. Stjórn sem með samþykki sínu og stuðningi hefur stuðlað óbeint að ólýsanlegum hörmungum og niðurlægingu þjóðarinnar og óbætanlegri eyðileggingu á sjálfsstjórnarsvæðunum. Nú allt í einu eiga Palestínumenn að kaupa orð þessa manns og fara eftir þeim í einu og öllu að viðlögðum hótunum. Hvort á maður að hlægja eða gráta yfir svona einfeldni?

Sem betur fer er engin ástæða til að halda það að þessar aumingjalegu tillögur Bush til sátta nái til eyrna Palestínumanna. Enda hefur Bush hagsmuni Palestínumanna að engu. Honum gæti ekki verið meira sama um þá alla. Þeir einu sem fitna eins og púkinn á fjósbitanum af allri þessari baráttu hans gegn hryðjuverkum í Palestínu eru auðvitað hryðjuverkamennirnir sjálfir -- þeir einir ná fram áhrifum af því að allar lögmætari aðgerðir eru hindraðar á skipulagðan hátt.

Allir hinir tapa og hnúturinn herðist.

Birtist á Pólitík.is 28. júní 2002.

14.6.02

Land tækifæranna

Klisjur geta verið ansi lífseigar. Undanfarin ár hefur sú klisja fangað ýmsa að Kína sé að breytast í eitthvert efnahagsstórveldi. Menn halda því fram að þarna hljóti að bíða manna mikill auður innan nokkurra ára. Hagvöxtur og þjóðarframleiðsla eiga að vera á blússandi siglingu upp á við. Svo er horft með stjörnur í augunum á markað með vaxandi kaupmátt sem telur einhverjar 1200 milljónir. Tölurnar eiga að segja sína sögu og þær geta varla logið. En þær gera það reyndar!

Falsaðar upplýsingar
Þetta ótrúlega rísandi efnahagsveldi stenst nefnilega ekki nánari skoðun. En kannski hafa upplýsingarnar um hið stórkostlega markaðssvæði Kína borist íslenskum stjórnvöldum í sama umslagi og svarti listinn yfir hina stórhættulegu sameiginlegu óvini íslenskra og kínverskra stjórnvalda; leikfimiflokkinn Falun Gong. Hver veit?

Það eitt að útflutningur Íslands til 1200 milljóna manna þjóðfélags sé mun minni en til smáríkisins Tævans ætti auðvitað að duga til að fá menn ofan af þessu gegndarlausa ofmati á Kína. Vilji fólk hins vegar rýna í tölurnar er það líka hægt.

Í byrjun apríl birti vikuritið Newsweek umfjöllun um talnaleikfimi Kínverja þar sem sýnt er fram á að haft er það sem betur hljómar í Kína. Þar kemur fram að opinberar skýrslur ýkja allar tölur um þjóðarframleiðslu og hagvöxt og búa sumar þeirra jafnvel til fyrirfram. Stórlega er dregið úr tölum um atvinnuleysi sem og skuldum þjóðarbúsins. Einnig er útgjaldaliðum hagrætt; talið er til dæmis að fimmfalt meira fé hafi verið eytt í varnarmál á síðasta ári en opinberar tölur segja til um. Auðvitað hefur samt einhver framþróun átt sér stað í Kína. En ríkið er samt sem áður enn þá lítið meira en frumstætt landbúnaðarþjóðfélag sem er langt, langt á eftir nágrönnum sínum í austurhluta Asíu.

Öll þessi „tækifæri“
Sannfæringar Íslendinga um þennan ofboðslega mikilvæga vaxandi markað og samskipti við þetta stóra ríki lykta óneitanlega nokkuð af sjálfslygi. Útflutningurinn er jú kominn upp í hið gígantíska hlutfall 0,6% sem grundvallast nær einungis á sjávarútvegi, en þess má geta að Kínverjar borða að mestu sinn eigin fisk, enda eru þeir sjálfir ein mesta fiskveiðiþjóð í heimi. Ekki það að það eigi að draga úr því að leitað sé á kínverskan markað en kannski er ástæða til að vara við of mikilli bjartsýni.

Mörg þessi „tækifæri“ sem eiga að bjóðast í Kína einkennast nefnilega nokkuð af gullgrafarahugsanahætti. Einhver fór fyrir nokkrum árum og setti upp lakkrísverksmiðju og var sannfærður um að hann gæti komið öllum kínverska milljarðinum upp á íslenskan lakkrís. Hann varð frá að hverfa slyppur og snauður. Áttaði sig á því að viðskiptaumhverfi í Kína var frumstætt að allt of mörgu leyti. Eins var með öll menningaráhrifin þegar Kristján Jóhannsson átti að hafa orðið öllum Kínverjum nafnkunnur af því að syngja Turandot í beinni útsendingu í sjónvarpinu þar, hér um árið. Það gleymdist hins vegar að ekki nema lítið hlutfall Kínverja hefur aðgang að sjónvarpi og hinir voru kannski ekkert endilega að horfa.

Kannski verður Kína einhvern tíma öflugt og stórt. Hins vegar þarf kaupmáttur að minnsta kosti að ná viðundandi stigi áður en það verður. Í það eru væntanlega nokkrir áratugir, sérstaklega með núverandi aðferðum. Þá þarf einnig að koma til markaðsvænna stjórnarfar sem áttar sig þó ekki nema á því að fölsun opinberra gagna laðar ekki að sér fjárfesta. Fyrir utan svo allt, allt hitt.

Birtist á Pólitík.is 14. júní 2002.

5.6.02

Uppi í stúku

Vonandi hefur fáum sjónvarpsáhorfendum Sýnar leiðst svo mikið yfir HM-leikjunum að athygli þeirra hafi frekar beinst að áhorfendastúkunum en leikmönnunum sem etja kappi innan vallar. Enda ætti lítil ástæða að hafa verið til, leikirnir hafa flestir verið alveg stórskemmtilegir og ansi viðburðarríkir. Þó hefur það kannski fangað athygli einhverra að sjá hversu grunsamlega stórar skellur hafa blasað við í stúkunum og endrum og eins hefur maður meira að segja ekki séð betur en að meirihluti sætanna sé auður.

Klúður eða áhugaleysi heimamanna?
Þetta kemur mjög á óvart miðað við þá eftirvæntingu fyrir HM sem allir héldu að til staðar væri í Asíu. Þetta er auðvitað stórmál, raunar svo stórt að sjálft vikuritið Newsweek lagðist í rannsóknarblaðamennsku til að komast að kjarna málsins. Niðurstaðan er eiginlega engin. Líklega er skýringin margþætt. Stórum hluta skuldarinnar er skellt á ferðaskrifstofu í Evrópu sem átti að sjá um miðasölumálin en klúðraði því þannig að fjöldinn allur beið í röð eftir miðum sem ekki voru til staðar þar sem þeir lentu milli þilja einhvers staðar í illa smíðuðu kerfi. Afleiðingarnar þær að enginn sat í sætunum og allir töpuðu og allir eru pirraðir. Sjálfsagt hefur áhugi Kóreubúa og Japana á fótbolta líka verið ofmetinn (minnir óneitanlega á hálftóm íþróttahús á HM í handbolta á Íslandi sem öll heimsbyggðin átti að flykkjast á hér um árið). Japanir hafa mestan áhuga á hafnabolta og í Suður-Kóreu mæta í mesta lagi þrjúþúsund manns á deildarleiki, svipað og á góðum degi í Vesturbæ Reykjavíkur.

KR treður sér á HM
Talandi um KR, þá hefur það líka vakið athygli þeirra sem rýnt hafa upp í stúkur á HM að fána Vesturbæjarstórveldisins hefur brugðið fyrir í baksýn öðru hvoru. Þetta hefur yljað þeim sem þetta skrifað óskaplega um hjartarætur, bara eins og nákominn vinur sé að veifa til manns. Svona er að vera ofurseldur þessu blessaða félagi. KR-merkið þarna einhvers staðar uppi í stúku var til dæmis um það bil eina gleðiefnið þegar að Danir voru komnir ansi nálægt niðurlægingu, þremur mörkum undir strax í fyrri hálfleik gegn Englendingum á laugardaginn var og minntu skuggalega mikið á Íslendinga á Parken síðastliðið haust. Förum ekki nánar út í það. Ólíkt að því er virðist flestum öðrum Íslendingum hvatti ég nefnilega Englendinga ekki til dáða. Verð þó að viðurkenna að þeir spiluðu fantagóðan bolta. Nú bíður maður bara óþolinmóður eftir viðureign Tjallanna og Brassanna sem væntanlega verður einn af hápunktum heimsmeistaramótsins. Og vonast eftir brasilískum sigri, þó að maður þori varla að segja það innan um alla þessa aðdáendur Beckhams og félaga.

Skrifað fyrir HM-vef sjónvarpsstöðvarinnar Sýn sumarið 2002.

Suður Kórea-Tyrkland?

Þegar þetta er skrifað eru enn þá örfáir klukkutímar í fyrri undanúrslitaleik heimsmeistarakeppninnar og því má ef til vill segja að þessar vangaveltur muni heyra sögunni til strax eftir hádegi í dag.

Eins og staðan er núna er auðvitað alls endis óvíst hvaða lið mætast í úrslitaleiknum á sunnudaginn næstkomandi. Hins vegar virðast flestir vera búnir að gera sér í hugarlund að undanúrslitaleikirnir fari eftir bókinni og að gömlu knattspyrnustórveldin Þýskaland og Brasilía etji kappi um gullið. Kóreubúar eru reyndar búnir að gera Evrópuveldunum þvílíka skráveifu að Þjóðverjar geta ekki talist eins öruggir en fáir eiga von á tyrkneskum sigri, nema kannski bjartsýnustu menn við Bospórussund.

En – ef svo færi hins vegar að óvænt úrslit yrðu í báðum leikjum stendur heimsbyggðin frammi fyrir úrslitaleik Suður-Kóreu og Tyrklands! Þrátt fyrir að flestir geti tekið undir að óvænt afrek einstakra liða sé ómissandi hluti af stórmótum, eins og HM, er þetta kannski of langt gengið. Ekki það að nokkuð sé við því að gera ef þessi staða kemur upp. En það myndi samt skjóta nokkuð skökku við ef að lið sem eru í 22. sæti (Tyrkland) og 40. sæti (Suður-Kórea) á styrkleikalista HM kepptu um það hvort þeirra er best í heimi.

Þarna kemur íhaldssemin líka inn í. Þrátt fyrir að óvænt úrslit séu skemmtileg eru nefnilega takmörk fyrir öllu. Kannski það sé einmitt þessi íhaldssemi sem er uppspretta pirrings um alla Evrópu um þessar mundir þar sem að fólk neitar að trúa því að Asíuþjóð sé komin alla leið í undanúrslit. Svona hafi þetta aldrei verið og þess vegna eigi þetta einfaldlega ekki að geta gerst. Þess vegna vælir hver í kapp við annan um dómaraskandal og jafnvel allsherjarsamsæri FIFA í tapsárindum sínum.

Svipað var uppi á teningunum þegar Danir stálust til þess að verða Evrópumeistarar hér um árið eftir að hafa komist inn í keppnina bakdyramegin. Þá urðu allir íhaldssamir knattspyrnuaðdáendur svekktir og gott ef formaður UEFA sagði ekki að knattspyrnan hefði beðið ósigur vegna þess að lélegt lið hefði unnið.

En svona er þetta bara. Það eru allir þessir óvæntu hlutir sem gera fótboltann að skemmtilegustu íþrótt í heimi. Þetta má samt ekki fara út í vitleysu. Þannig að ég bið vinsamlega um Þýskaland-Brasilíu á sunnudaginn, takk. Hrokafulli Evrópubúinn tekur ekki mark á neinu öðru.

Skrifað fyrir HM-vef sjónvarpsstöðvarinnar Sýn sumarið 2002.

Latínó fótboltaæðið


Ástríkur hefði áreiðanlega sagt að þessir Spánverjar væru klikk ef hann hefði orðið vitni að því fótboltaæði sem ætíð er viðvarandi í því landi. Fótboltinn er tekinn háalvarlega, stúderaður eins og fræðigrein, skeggræddur af sama hita og hápólitísk deilumál og ræður jafnmiklu um gleði og sorgir fólks og atburðir í fjölskyldulífinu.

Undirritaður er til að mynda nýkominn heim frá nokkurra mánaða dvöl í Barcelona þar sem fótboltageðvikin jaðrar við maníu – ja, öllu heldur er manía. Hvar annars staðar hefði til dæmis flugeldum verið skotið á loft um leið og búið var að flauta af og Real Madrid var búið að tapa bikarúrslitaleiknum? Og hversu marga staði finnur maður þar sem að 20-30 síðna aukablöð fylgja katalónsku dagblöðunum daginn eftir leik hjá borgarliðinu þar sem leikurinn er krufinn niður í öreindir – og það bókstaflega!

Það er því alveg týpískt að umræðan á Spáni þessa dagana snýst einkum um það hvort það séu leikmenn Real Madrid eða Barcelona sem skora mörkin og leggja þau upp. Þessi rígur milli liða og héraða er því ekki einu sinni er grafinn meðan að landsmenn ættu að sameinast um landsliðið á stórmótum. Hann er kannski ein ástæða þess hversu slappir Spánverjar hafa oft verið á stórmótum miðað við þann mannskap sem yfirleitt hefur verið til staðar og þann góða árangur sem spænsk félagslið ná einatt í Evrópukeppnunum. Þó hlýtur meira að koma til.

Nú eru Spánverjar komnir í átta liða úrslit, lengra en oft áður. Næstu andstæðingar þeirra verða Ítalir, að því gefnu að þeir vinni spútnikklið Suður-Kóreu. Þar eiga Spánverjar harma að hefna síðan fyrir átta árum þegar þessi sömu lið mættust einmitt líka í átta liða úrslitum og Ítalía hafði sigur 2-1. Bæði þessi lið hafa hins vegar verið mjög ósannfærandi á köflum á þessu heimsmeistaramóti þannig að það verður spennandi að fylgjast með hvoru liðinu reiðir betur af á laugardaginn kemur. Allt auðvitað að því gefnu að Ítalir vinni Suður-Kóreubúa á þriðjudaginn.

Á Ítalíu er fótboltaæðið svo sem ekkert á heilbrigðara stigi þannig að ráðlegast væri fyrir hvort liðið sem kynni að tapa að hafa hægt um sig næstu vikur heima fyrir þar sem sársvikin alþýða og blóðþyrstir fjölmiðlar munu væntanlega ekki beita neinum vettlingatökum í sinni skefjalausu gagnrýni.

Skrifað fyrir HM-vef sjónvarpsstöðvarinnar Sýn sumarið 2002.

Danska dýnamítið


Netútgáfur dönsku og frönsku blaðanna voru ekkert að flækja málin í gærmorgun þegar úrslitin í leik þjóðanna lágu fyrir. Vi er videre – við erum komnir áfram - sögðu Danirnir en hjá Frökkunum mátti lesa Nous sommes éliminées - við erum úr leik. Ef marka má frammistöðu Dana hingað til er ef til vill eðlilegt að menn spyrji sig hins vegar hvort að það sé enn og aftur orðin sprengihætta af „Danska dýnamítinu“.

„Vi er røde, vi er hvide...“
Danir geta reyndar ekki státað af mikilli reynslu á HM en þetta er einungis í þriðja skiptið sem þeir eru með. Fyrsta skiptið er mönnum enn þá í fersku minni, sem það upplifðu á annað borð. Það var á því herrans ári 1986 sem hið eina og sanna „Danska dýnamít“ mætti vongott til leiks í Mexíkó. Leikgleði og fjör einkenndi allt í kringum liðið. Baráttulagið Re-Sepp-Ten („Vi er røde, vi er hvide“) gerði allt vitlaust og hertók meðal annars toppsæti hins víðfræga Vinsældarlista Rásar 2 um margra vikna skeið. Frjálsræðið var ríkjandi í hópnum og enginn fann að því að þeir skyldu svolgra í sig nokkrum bjórum fyrir svefninn kvöld hvert á meðan á keppninni stóð. Aðalmarkaskorarinn þeirra, hinn litríki Preben Elkjær Larsen, bætti reyndar um betur og stóð í harðri samkeppni við Marlboro-manninn um afköst í tóbaksreykingum, fór með þrjá pakka á dag - samt nær áreiðanlega af Prince. Hann lét reyndar sitt ekki heldur eftir liggja þegar að glasinu kom. Sagan segir að hann hafi verið kallaður inn á teppi þegar hann lék með Köln í Bundesligunni þýsku. Það hafði sést til hans á næturklúbbi kvöldið fyrir mikilvægan leik með viskíflösku hálftóma sér við hlið. Hann mótmælti hástöfum og sagðist alls ekki hafa verið að drekka neitt viskí. Hann var að drekka vodka!

Endurtekur sagan sig?
Danir tóku riðilinn í nefið á HM ´86 eins og segja má að þeir hafi líka gert núna. Riðillinn þá var líka dauðariðill, andstæðingarnir meðal annars Þjóðverjar sem höfðu farið í úrslit á HM fjórum árum áður og voru taldir sigurstranglegir. „Danska dýnamítið“ sprengdi Úrúgvæja í tætlur 6-1 og vann síðan nauman sigur á Skotum. Að lokum kom síðan glæsilegur sigur á geysisterkum Þjóðverjum 2-0 - eins og á Frökkunum nú. Því má svo til gamans bæta við að þá eins og nú höfðu þeir íslenskættaðan hauk í horni. Þá var það fyrirliðinn Frank Arnesen en nú er það markamaskínan Jon Dahl Tomasson.

Bjartsýnustu Danir voru jafnvel farnir að trúa því að þeirra menn kæmust jafnvel alla leið í úrslitaleikinn en annað kom á daginn. Þar sannaðist það einu sinni sem oftar á HM að þegar í útsláttarhlutann er komið er hver leikur úrslitaleikur þar sem árangur í riðlakeppninni fleytir liðum ekki nema takmarkað áfram. Dýnamítið steinlá nefnilega strax fyrir Spánverjum 5-1 þar sem „Gammurinn“ Emilio Burtragueño tók að sér yfirumsjón útfararinnar.

Danmörk-England
Eitthvað svipað gæti hent Dani núna þar sem nokkuð ljóst er að andstæðingur Dana í 16-liða úrslitum er mjög sterkur - stjörnum prýtt lið Englendinga.

Standist Danirnir hins vegar næstu raun getur auðvitað allt gerst. Þeir urðu jú Evrópumeistarar um árið. Þó það segi kannski ekki mikið núna þá veitir það þeim samt þá vissu að þeir geta náð alla leið á stórmótum. Þá má ekki gleyma því að þeir gátu vel við unað fyrir fjórum árum í Frakklandi, féllu út með sæmd í átta liða úrslitum fyrir þáverandi heimsmeisturum Brasilíu eftir hörkuleik.

Það má því vel vera að danska pressan geti slegið fyrirsögninni Vi er videre upp að minnsta kosti einu sinni enn og jafnvel oftar. Ég eiginlega vona það.

Skrifað fyrir HM-vef sjónvarpsstöðvarinnar Sýn sumarið 2002.